„Við erum öll niðurbrotin eftir fráfall Matthew. Við vorum meira en bara vinnufélagar. Við erum fjölskylda. Það er svo margt sem hægt er að segja en einmitt núna ætlum við að taka okkur tíma til að syrgja og komast í gegnum þennan óskiljanlega missi. Við munum tjá okkur frekar ef, og þegar við getum. Einmitt núna er hugur okkar hjá fjölskyldu Matty, vinum hans og öllum sem elskuðu hann,“ segir í yfirlýsingu vinanna.
Matthew Perry, ein af stjörnum gamanþáttanna Friends, lést 54 ára gamall í fyrrinótt. Perry lék Chandler Bing í tíu þáttaröðum Friends á árunum 1994 til 2004. Þættirnir eru einhverjir vinsælustu sjónvarpsþættir sögunnar.
Fjölmargir hafa minnst Perry, þar á meðal leikarar, forsætisráðherra, íþróttalið og jafnvel heilu sjónvarpsstöðvarnar. Nokkrir, sem leikið hafa í Friends, höfðu tjáð sig um fráfall Perry en þetta er í fyrsta sinn sem aðalleikararnir tjá sig eftir andlátið.
Maggie Wheeler, sem lék Janice, mjög svo hláturmildu kærustu Chandlers, birti mynd af þeim úr þáttunum í gær og sagðist þakklát fyrir að hafa kynnst honum. Þá minntist Morgan Fairchild, sem lék óheflaða móður Chandlers í þáttunum, færslu um Perry í gærkvöldi. Hún sagðist vera í áfalli; hjartað hennar væri brostið.