Í umsögninni, sem er send inn af The Jane Goodall Institute, segir meðal annars að hvalir séu félagsverur sem myndi sterk og flókin félagsleg tengsl. Þeir búi yfir ótrúlegum samskiptahæfileikum, sýni flókin hegðunarmynstur og myndi sérstök samfélög.
Hvalveiðar hafi um langt skeið þótt ásættanlegar en aukin þekking geri það að verkum að fákunnátta sé ekki lengur afsökun fyrir því að leggja blessun sína yfir þá þjáningu sem hvalirnir upplifa við veiðarnar.
Þá segir í umsögninni að Goodall hafi helgað líf sitt dýravelferð og orðið margs vísari um hvali gegnum vin sinn, hvalalíffræðinginn Roger Payne, sem nú er látinn. Víst sé að hann hefði einnig sent Íslendingum hvatningu til að banna hvalveiðar.
Það sé trú samtakanna að Ísland geti orðið leiðtogi í verndun sjávar og leiðarljós til framtíðar, með því að sýna hinum skynugu skepnum sem hvalir eru samkennd og skilning.
„Við óskum ykkur velfernaðar við þessa mikilvægu ákvarðanatöku,“ segir að lokum.
Hér má finna umsögnina.