Brynjar Karl Sigurðsson, þjálfari Aþenu, stýrði ÍR áður og sýndi gömlum félögum enga miskunn. Þrír leikmenn Aþenu rufu 40 stiga múrinn, Dzana Crnac leiddi stigasöfnun með 49 stig, fyrirliðinn Zieniewska varð næst stigahæst með 46 stig og Jordan Danberry fylgdi á eftir með 40 stig.
Danberry náði sömuleiðis því magnaða afreki að komast í tveggja stafa tölu í fjórum tölfræðiflokkum. Hún endaði leikinn með 40 stig, 12 stoðsendingar, 13 fráköst og 17 stolna bolta.
ÍR hefur tapað fyrstu fimm leikjum sínum í deildinni, liðið hafði fyrir þennan leik fengið 92,75 stig á sig að meðaltali í leik en sprengdi alla skala í kvöld. Þetta var þriðji sigur Aþenu á tímabilinu.
Í öðrum leikjum kvöldsins vann Tindastóll nauman eins stigs sigur gegn Hamar/Þór, Keflavík U vann gegn KR og Ármann lagði Stjörnuna örugglega að velli.
Stöðuna í deildinni og næstu leiki má sjá hér.