Marta Karlsdóttir, íbúi að Víkurbraut 10 í Grindavík, segir að húsið hafi í gegnum árum sinnt ýmsum hlutverkum í bænum. Einar Einarsson kaupmaður í Garðhúsum hafi reist það á sínum tíma og þar hafi verið verslun fyrst um sinn. Síðan hafi verið þar niðursuðuverksmiðja og loks íbúðir fyrir mikinn fjölda Grindvíkinga.

Fréttamaður ræddi við Mörtu fyrr í dag þegar verið var að tæma allar eigur fjölskyldu hennar úr húsinu.
Hún segir að Náttúruhamfaratrygging hafi haft samband við íbúa hússins og sagt að húsið hefði verið metið svo að það þyrfti að tæma. Þó hafi það ekki verið metið ónýtt að svo stöddu en hún búist staðfastlega við því að svo fari. Hún voni þó að húsið fái að standa.
„Það hefur mikið sögulegt gildi fyrir Grindavík. Ég vona að það sé eitthvað hægt að bjarga því.“
Ætluðu aldrei að flytja úr húsinu
Marta segir að þrjár fjölskyldur búi í húsinu. Hún og maðurinn hennar, tengdamóðir hennar og mágur hennar og svilkona.
„Við ætluðum ekkert að flytja. Aldrei. Maðurinn minn ólst hérna upp og eins Sigurður [bróðir hans]. Hann hefur aldrei búið annars staðar. Þetta er ótrúlega skrýtið, við ætluðum aldrei að fara. Þetta var bara okkar heimili þar til að við færum. Þannig að það eru miklar tilfinningar, það þarf að pakka þeim saman. Það er ótrúlega skrýtið að þurfa að tæma ævi sína á þremur tímum.“
Sér ekki fram á að flytja aftur í bæinn
Ætlið þið að búa áfram í Grindavík?
„Ég hef ekki neinn brjálæðislegan áhuga á því að búa áfram í Grindavík, í kjölfar þess sem er að gerast og á eftir að gerast, ég veit það ekki. Fyrst að það er búið að taka ákvörðun fyrir mig, að ég geti ekki komið til baka, þá hugsa ég að ég kaupi einhvers staðar annars staðar.