Handbolti

Þjálfari Barcelona kvartar yfir drulluskítugu og köldu í­þrótta­húsi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Carlos Ortega Perez var ekki sáttur eftir leik Barcelona gegn Ademar León í gær.
Carlos Ortega Perez var ekki sáttur eftir leik Barcelona gegn Ademar León í gær. getty/Diogo Cardoso

Þjálfari handboltaliðs Barcelona gagnrýndi harðlega aðstæðurnar sem lið hans þurfti að spila við þegar það mætti Ademar León í spænsku úrvalsdeildinni í gær. Honum fannst of kalt inni í íþróttahúsi Ademar og sagði það drulluskítugt þar að auki.

Barcelona vann öruggan sigur Ademar, 25-39, en Carlos Ortega, þjálfari liðsins, var samt ekki sáttur í leikslok. Hann gagnrýndi aðstæður í León Sports Pavilion, heimahöll Ademar.

Það var kannski ekki skrítið enda var aðeins þriggja stiga hiti inni í höllinni og hún auk þess skítug vegna framkvæmda.

„Þetta er ekki ásættanlegt og ætti ekki að koma fyrir aftur,“ sagði Ortega eftir leikinn í León.

„Leikmenn hituðu upp með vettlinga og sumir með húfur og voru í úlpum á bekknum. Skítugur völlur eykur líkur meiðslahættu. Ég hef haft samband við yfirmenn mína og þeir hafa kvartað til spænska handknattleikssambandsins.“

Ortega sagðist ekki hafa upplifað svona lagað áður á ferlinum.

„Það er eitt að spila svona á sumrin en veturinn er kominn, klukkan er sjö að kvöldi og sólin sest. Við ættum ekki spila aftur í þessum aðstæðum. Völlurinn var í mjög slæmu ásigkomulagi,“ sagði Ortega sem var kalt á bekknum þrátt fyrir að vera í tveimur bolum. Hann vildi hins vegar ekki fara í úlpu.

Barcelona er með tveggja stiga forskot á Bidasoa á toppi spænsku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×