Hagsjá Landsbankans hafði spáð að verðbólga yrði 8,1 prósent í desember, Greining Íslandsbanka að hún yrði 8,3 prósent og í síðasta riti Peningamála Seðlabankans var gert ráð fyrir að verðbólga í jólamánuðinum yrði 7,9 prósent. En eins og áður segir er verðbólgan nú heldur minni en það eða 7,7 prósent.
Bergþóra Baldursdóttir hagfræðingur Íslandsbanka segir þetta vera góðar fréttir.

„Okkur er bara frekar létt þótt við höfum spáð meiri verðbólgu í desember en síðan raungerðist.“
Hvað er það sem helst er að hjápa til við þetta heldur þú?
„Það er húsnæðismarkaðurinn. Verðið er að hækka hægar en það hefur verið að gera síðustu mánuði. Svo er flugverðið að hækka talsvert minna en venjulega í desember og það hefur áhrif,“ segir Bergþóra.
Verðbólgan virtist því vera að hjaðna um mánuði fyrr en spár gerðu ráð fyrir.
„Og það er ansi jákvætt. Sérstaklega þar sem kjarasamningar eru að losna í byrjun næsta árs. Þannig að þetta eru góðar fréttir í þá baráttu,“ segir hagfræðingur Íslandsbanka.
Það væri einnig jákvætt að tóninn í verkalýðshreyfingunni væri að stefna að langtíma kjarasamningum sem stuðli að minni verðbólgu. Hún gæti jafnvel hjaðnað meira en niður í 5 prósent eins og Seðlabankinn geri ráð fyrir á næsta ári.

„Það gæti alveg farið svo að hún verði minni. Þá þurfa bara ýmsir kraftar að vinna með okkur. Og auðvitað vonum við að hún hjaðni nokkuð hratt. Þessir kraftar sem þurfa að vinna með okkur eru að húsnæðismarkaðurinn þarf að vera rólegur. Þessar sveiflur á húsnæðisverðinu hafa svolítil áhrif á árstaktinn í verðbólgunni, skammtíma áhrif,“ segir Bergþóra.
Verkalýðshreyfingin þrýstir á nýja stefnu stjórnvalda í húsnæðismálum í tengslum við næstu kjarasamninga. Bergþóra segir enn mikla spennu á markaðnum ekki hvað síst vegna mikillar fjölgunar landsmanna með innflutningi fólks, það þurfi því að vanda til aðgerða.
„Ég held að það væri best að gera það á framboðshliðinni. Að það sé nóg framboð af eignum handa öllum sem eru að koma hingað til lands og öllum þeim sem eru að kaupa sér sína fyrstu eign, til dæmis,“ segir Bergþóra Baldursdóttir hagfræðingur hjá Íslandsbanka.