Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir í samtali við Vísi að leit haldi áfram af fullum krafti í dag. Vaktaskipti hafi verið í morgun og óþreytt fólk sé tekið við leitinni. Vanir fjalla- og rústabjörgunarmenn séu komnir til Grindavíkur víða að af landinu.
Þeir hafi nú stöðuga viðveru, tveir í senn, ofan í sprungunni við leit að manninum. Talið er næsta víst að maðurinn hafi fallið í sprunguna þegar hann var við vinnu við jarðvegsþjöppun eftir sprungufyllingu.
Jón Þór segir sprunguna töluvert djúpa og vatn taki við á nokkru dýpi. Ekki hafi verið talið öruggt að senda kafara ofan í vatnið en fjarstýrðum neðansjávarmyndavélum sé beitt við leitina.

Ætla sér að finna manninn
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjórinn á Suðurnesjum, segir í samtali við fréttastofu að staðan sé óbreytt, leit standi enn yfir og maðurinn sé ófundinn. Stöðug leit hafi staðið yfir frá því að tilkynnt var um hvarf mannsins á ellefta tímanum í gær.
„Við ætlum okkur að finna þann mann sem við leitum að,“ segir Úlfar um framhaldið.
Vinnu frestað en aðgengi óbreytt
Lögreglustjóri fundaði með öðrum viðbragðsaðilum klukkan 08 í morgun þar sem farið var yfir öryggismál hvað varðar vinnu við viðgerðir í Grindavík.
„Í ljósi atburða gærdagsins og yfirstandandi leitar hefur verið tekin ákvörðun um að fresta öllum frekari framkvæmdum fram yfir helgi,“ segir Úlfar.
Á þriðjudag verði fundað með verktökum og öðrum hlutaðeigandi um framhaldið. „Það er fullur hugur í þeim að halda þeirri vinnu áfram.“
Þá segir Úlfar að viðvera íbúa Grindavíkur og starfsemi í bænum haldist óbreytt þrátt fyrir atburði gærdagsins.
Hann leggur þó áherslu á að varhugavert sé að dvelja í Grindavík.