Innlent

Á­kærður fyrir að brjótast inn í sumar­hús og brenna það til kaldra kola

Jón Þór Stefánsson skrifar
Eldsvoðin varð í sumarhúsi í Hafnarfirði. Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki beint.
Eldsvoðin varð í sumarhúsi í Hafnarfirði. Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Vilhelm

Rúmlega tvítugur karlmaður hefur verið ákærður fyrir húsbrot og stórfelld eignaspjöll með því að brjótast inn í sumarhús og kveikja í því, með þeim afleiðingum að húsið brann til grunna.

Atvikið sem málið varðar átti sér stað þann 11. febrúar árið 2020. Sumarhúsið var við Kaldárselsveg í Hafnarfirði. Þá var maðurinn átján ára gamall.

Í ákæru sem héraðssaksóknari höfðar á hendur manninum er honum gefið að sök að hafa brotið útiljós við eitt sumarhús, og þar á eftir brotist inn í annan bústað. Þar inni á maðurinn að hafa kveikt eld, sem líkt og áður segir varð til þess að húsið brann til kaldra kola.

Með athæfi sínu er maðurinn sagður hafa ollið eldsvoða „sem hafði í för með sér augljósa hættu á yfirgripsmikilli eyðingu á eignum annarra manna.“

Þá er þess krafist að maðurinn greiði tæpar sextán milljónir króna vegna tjónsins sem varð vegna eldsvoðans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×