„Stofnunin sem slík getur ekki keypt upp eignir sem ekki eru með beinu tjóni,“ segir Hulda Ragnheiður Árnadóttir, forstjóri NTÍ í samtali við fréttastofu. Hún segir brunabótamat forsenda vátryggingarfjárhæðar.
Eins og fram hefur komið hafa íbúar kallað eftir því að stjórnvöld greiði þá út vegna þess tjóns sem orðið hefur í bænum eftir hamfarirnar þar. Bærinn sé óíbúðarhæfur.
Stjórnvöld skoði regluverkið
„Hinsvegar þurfum við að hafa í huga að þessi stofnun var sett á stofn í kjölfarið á Heimaeyjargosinu '73 og þá var forveri Náttúruhamfaratryggingar Íslands,, Viðlagatrygging, stofnuð og lagaumgjörðin hún tók sannarlega mið af því hvað hafði átt sér stað í Vestmannaeyjum.“
Þegar snjóflóð hafi orðið fyrir vestan hafi stjórnvöld sett á laggirnar Ofanflóðarstjóð. Þá hafi regluverkið miðast meira út frá því hvað þar hafi átt sér stað.
„Mitt mat er það að nú séum við í þriðju tegundinni af mjög alvarlegum atburðum, þar sem ég treysti því, ég treysti stjórnvöldum mjög vel til þess að taka til skoðunar hvaða regluverk er hægt að setja sem grípur fólk í þeim aðstæðum sem þarna eru uppi.“
Þannig að regluverkið sem nú er í gildi, það á ekki við um atburðinn sem stendur nú yfir?
„Vissulega hluta af honum. Það tjón sem sannarlega er beint tjón á svæðinu, það er eitthvað sem við grípum en ekki nándar nærri allt sem við myndum vilja geta gripið.“
Hafa metið tvöhundruð eignir
Hvað eruð þið búin að meta margar eignir og hvað er mikið eftir?
„Þetta eru ríflega tvöhundruð eignir sem er búið að meta og eitthvað vel á annað hundrað eignir sem eru ómetnar ennþá. En við eigum eftir að átta okkur á því hvaða breytingar hafa orðið á þeim eignum sem var búið að meta áður en þessi örlagaríki sunnudagur rann upp.“
Eru einhverjar upplýsingar komnar fram um kostnað?
„Nei, ekki sem eru nægilega áreiðanlegar til að svara neitt um það. Það í rauninni skýrist ekki fyrr en það verður öruggt fyrir matsmenn að fara aftur þarna inn á svæðið.“