Birgir lagði í desember í fyrra fram fyrirspurn á þingi til innviðaráðherra um það hvernig hefur gengið frá því að breytingar á lögunum tóku gildi í apríl árið 2023, fjölda tilvika sem hafa verið tilkynnt til Samgöngustofu og svo hvers eðlis þessi atvik eru. Birgir ræddi leigubílalögin í Bítinu í morgun.
Hann segist bíða svara frá innviðaráðherra við fyrirspurn sinni en hana er hægt að kynna sér hér.. Þar spyr hann hversu margir hafi tekið próf á ensku og hversu margir á íslensku. Um breytingar á leigubifreiðaakstri og hvaða áhrif breytingarnar hafi haft á afkomu þeirra sem hafa leigubifreiðaakstur að aðalstarfi.
Birgir segir að hann vilji líta til Danmerkur hvað varðar til dæmis tungumál þeirra sem aki leigubíla. Þar séu skilyrði um að tala dönsku og að sömu leið ætti að fara hér.
„Ég tek eðlilegt að flýta þessari vinnu í ljósi þess sem við höfum séð fréttir af og í ljósi þess sem þeir segja sem vinna við greinina.“
Samkvæmt lögunum þarf hreint sakavottorð, gott orðspor og að sækja námskeið til að fá leyfi til að aka leigubíl. Birgir segir að hann telji vandamálið liggja í eftirlitsþættinum hjá Samgöngustofu. Þar þurfi betur að fara yfir. Svo séu próf í ökuskólanum á íslensku og að hann hafi heimild fyrir því að margir sem hafi fengið leyfi tali samt sem áður ekki íslensku.
„Það á að vera eftirlit með því en það sem ég hef heyrt frá þeim sem starfa í greininni er að það eru þarna hlutir sem þarf að fara yfir og ég tel eðlilegt að það þurfi að flýta þeirri vinnu,“ segir Birgir.
Hann segir að leigubílstjórar hafi ekki verið ósáttir við það að lögunum hafi verið breytt. Þeir hafi viljað gott samráð við stjórnvöld. Það hafi verið skortur á leigubílum og nauðsynlegt að gera breytingar.
„Tilgangurinn var að fjölga bílum og auka samkeppni og svo framvegis. Það þarf að fara yfir þessa þætti,“ segir Birgir.