Fyrstu kjörstaðir opnuðu í Kamchatka, austasta héraði Rússlands og þeim síðustu verður lokað á sunnudagskvöld í Kalíningrad, vestasta svæði landsins.
Pútín tilkynnti um það í desember að hann hyggðist halda áfram í embætti og síðan þá hafa ríkismiðlar unnið ötullega að því að tryggja honum endurkjör. Til viðbótar hefur öllum mögulegum andstæðingum verið rutt úr vegi og eru þeir margir hverjir annað hvort dánir, í fangelsi eða í útlegð.
Skemmst er að minnast Alexei Navalní sem var einn mesti andstæðingur Pútíns en hann lést í fangelsi í Síberíu á dögunum.
Pútín hefur nú verið lengst allra leiðtoga landsins við völd síðan sovéski einræðisherrann Stalín var og hét.
Hann hefur verið forseti frá árinu 2000, ef undan eru skilin fjögur ár þar sem hann neyddist til að verða forsætisráðherra til að brjóta ekki stjórnarskrá landsins eins og hún var þá. Síðan þá hefur Pútín breytt reglunum og gæti jafnvel boðið sig aftur fram að sex árum liðnum, árið 2030.