Erlent

Fjöldi mál­sókna vegna hurðar­loksins sem fauk í miðju flugi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Rannsókn leiddi í ljós að hurðarlokið hafði ekki verið fest eins og átti að gera.
Rannsókn leiddi í ljós að hurðarlokið hafði ekki verið fest eins og átti að gera. Getty/NTSB

Sjö farþegar sem urðu fyrir meiðslum þegar hurðarlok losnaði í miðju flugi Alaska Airlines í janúar síðastliðnum hafa höfðað mál gegn flugfélaginu og flugvélaframleiðandanum Boeing.

Meðal þeirra er Cuong Tran, farþeginn sem sat í sætinu beint fyrir aftan hurðarlokið og varð það til bjargar að hann var með sætisbeltið spennt. Sokkar hans, skór og iPhone soguðust út um gatið sem myndaðist á vélinni þegar atvikið átti sér stað.

Tran og farþegarnir sex segjast bæði hafa orðið fyrir líkamlegum og andlegum skaða, þar sem þeir slösuðust og óttuðust um líf sitt. Um er að ræða fjórða málið sem höfðað er af farþegum sem voru um borð þegar atvikið átti sér stað.

Samgönguöryggiseftirlit Bandaríkjanna (NTSB) komst að þeirri niðurstöðu að fjórir lykilboltar sem áttu að halda hurðarlokinu á sínum stað hefði vantað. Það er enn til rannsóknar hver bar ábyrgðina á því að tryggja að lokinu væri komið fyrir með réttum hætti.

Um er að ræða lok á Boeing 737 Max 9 vélum sem notað er þegar farþegafjöldinn krefst þess ekki að viðkomandi „gat“ sé notað sem útgangur. Vélar með hurðarlokinu voru kyrrsettar í kjölfar atviksins en engar slíkar eru í rekstri á Íslandi.

Lögmenn farþeganna segja málið ekki bara snúast um gallaða íhluti, heldur um það hvað gerist þegar fyrirtæki forgangsraða sparnaði fram yfir öryggi farþega.

Guardian greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×