Fulltrúar matvælaráðuneytisins mættu á fund atvinnuveganefndar Alþingis í morgun til að ræða breytingar á ítarlegu frumvarpi Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra um lagareldi. Samkvæmt frumvarpinu átti að gefa út ótímabundin rekstrarleyfi til fyrirtækja í sjókvíaeldi en samkvæmt núgildandi lögum voru leyfin gefin út til sextán ára í senn. Þetta hefur sætt harðri gagnrýni margra aðila og vakið reiði meðal hluta almennings.

Bjarkey segir sjálfsagt að taka tillit til þessarar gagnrýni og unnið hafi verið að breytingum á frumvarpinu í ráðuneytinu. Þær hugmyndir hafi verið kynntar fyrir atvinnuveganefnd í morgun og vonandi geti nefndin unnið út frá þeim.

„Eins og ég hef sagt þá legg ég það til að við reynum að fara þá leið að tímabinda þetta. Ef við náum sömu markmiðum um vernd á náttúru og umhverfi,“ segir Bjarkey. Það væri nefndarinnar að ákveða tímalengd leyfanna og þróa frumvarpið almennt áfram.
Samkvæmt núgildandi löggjöf hafi leyfi gefin út til sextán ára endurnýjast sjálfkrafa eins og í Færeyjum. Huga þurfi að öðrum breytingum á frumvarpinu samhliða þessum. Sérfræðingar hafi talið erfiðara að svifta fyrirtæki tímabundnu leyfi en ótímabundnu og spurning hvort slá þurfi af íþyngjandi aðgerðum eins og leyfissviptingum.
Margir hafa einnig gagnrýnt að sjókvíaeldi væri leyft yfirleitt þar sem þetta væri mjög mengandi starfsemi sem einnig gæti ógnað íslenska laxastofninum.
„Sjókvía eins og það hefur verið stundað hér við Íslands strendur hefur ekki verið að ganga nógu vel. Ég held að við séum öll sammála um það. Þetta er í rauninni ástæðan fyrir því að við erum að reyna að taka betur utan um þetta. Búa til skýrari reglur, meira eftirlit, kröfur um betri búnað og ívilnanir í rauninni í þá átt að aðilarnir sjái sér hag í að fara í lokaðan búnað og svo framvegis. Auðvitað getum við alltaf átt von á að það verði slys í þessari atvinnugrein eins og öðrum sem hafa áhrif á umhverfi okkar. En við erum að reyna að lágmarka það með þessum aðgerðum sem frumvarpið er að leggja til,“ Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.