Ákvörðunin er tekin nú í ljósi þess að aðstæður fólksins sem þar búa fari versnandi með hverjum deginum sem líður, að sögn yfirvalda. Tyrkneska viðskiptaráðuneytið segir að öll viðskipti milli landanna tveggja verði fryst uns Ísraelar leyfa óhindrað flæði hjálpargagna inn á Gasa.
Viðskipti landanna tveggja námu sjö milljörðum Bandaríkjadala á síðasta ári eða um þúsund milljörðum í íslenskum krónum talið. Ísraelar hafa þegar brugðist hart við og var Erdogan Tyrkjaforseti meðal annars sagður haga sér eins og einræðisherra af utanríkisráðherra Ísraels.
Tyrkland var fyrsta múslimalandið sem viðurkenndi tilvist Ísraelsríkis árið 1949 en samskipti ríkjanna hafa farið versnandi síðustu ár og áratugi. Í janúar sagði Erdogan að innrás Ísraela á Gasa væri ekkert skárri en það sem Hitler gerði á sínum tíma. Netanjahú forsætisráðherra svaraði því til að Erdogan, sem fremji þjóðarmorð á Kúrdum og fangelsaði gagnrýna blaðamenn væri síðasti maðurinn í heiminum sem gæti kennt Ísraelum siðferði.