Keflvíkingar tóku á móti Grindvíkingum í leik tvö í viðureign liðanna í 4-liða úrslitum Subway-deildar karla en Grindvíkingar unnu fyrsta leikinn í Smáranum þar sem hart var tekist á. Keflvíkingar leika án Remy Martin sem meiddist í þeim leik en það virtist ekki há þeim mikið.

Heimamenn keyrðu upp hraðann frá fyrstu mínútu og Grindvíkingar virtust ekki vera tilbúnir í þann hraða, hvorki í vörn né sókn, og voru úr öllum takti og að hitta illa í ofan á lag. Það var ljóst að dómarar leiksins ætluðu ekki að láta þennan leik leysast upp í neina vitleysu en þeir fóru langt með að klára skjátíma sinn strax í fyrsta leikhluta og létu liðunum sitthvora U-villuna í té.
Keflvíkingar leiddu eftir fyrsta leikhluta með níu stigum, 26-17, en fyrirliði þeirra Halldór Garðar Hermannsson lokaði leikhlutanum með flautukörfu. Gestirnir frá Grindavík náðu svo smám saman að hemja hraðann í leiknum og skotin fóru að detta svo að aðeins munaði þremur stigum í hálfleik, 44-41.
Leikurinn var afar jafn þar sem eftir lifði. Grindvíkingar komust þó í betri og betri takt og komust yfir en Keflvíkingar voru alls ekki hættir og komust aftur yfir, 77-75, þegar rúmar tvær mínútur voru eftir.
Lokasekúndurnar voru æsispennandi. Grindavík virtist vera að klára þetta en Keflvíkingar gáfust ekki upp. Sendu Basile á línuna sem brenndi af öðru vítinu og staðan því 81-83. Boltinn endaði svo í höndunum á Urban Oman, sem var núll af þremur í þristum, og hann setti niður flautuþrist.
Ótrúlega senur hér í Keflavík og allt orðið jafnt í einvíginu.

Atvik leiksins
Hér kemur aðeins eitt atvik til greina. Flautukarfan sem toppaði dramatíkina í þessum leik.
Stjörnur og skúrkar

Jaka Brodnik fór fyrir stigaskori Keflavíkur í kvöld og skoraði mikilvægar körfur undir lokin þegar allt var í járnum. 20 stig frá honum. Halldór Garðar Hermannsson átti virkilega góða innkomu af bekknum. Sótti grimmt á körfuna og skilaði 14 stigum.


Hjá Grindavík skoraði Dedrick Basile 25 stig og DeAndre Kane kom næstur með 19. Þeir fóru langt með að klára leikinn undir lokin en Basile gleymdi sér í augnablik á síðustu sekúndu leiksins. Var alltof langt frá Oman sem fékk galopið skot og Basile tekur því heim með sér bæði stjörnu- og skúrkstitil í kvöld.

Dómarar
Dómarar kvöldsins voru þeir Sigmundur Már Herbertsson, Bjarki Þór Davíðsson og Eggert Þór Aðalsteinsson. Þeir virtust ætla að leggja línurnar strax í byrjun og nýttu mikinn skjátíma sinn til hins ítrasta en svo fór bara allt úr böndunum.
Línan var ekki til staðar í kvöld, ekki flautað á augljósar villur en svo flautað á algjöran tittlingaskít inn á milli. Grindvíkingar létu þetta fara mikið í taugarnar á sér en í raun hallaði á hvorugt liðið. Í staðinn var bara boðið upp á algjöra upplausn inni á vellinum á löngum köflum.
Stemming og umgjörð
Það var öllu tjaldað til í Keflavík í kvöld. Grindvíkingar voru mættir í Bítlabæinn löngu fyrir leik og hituðu upp í Reykjaneshöllinni og svo var skellt í allsherjarupphitunarpartý í hliðarsalnum hér í Blue-höllinni þar sem Prettyboitjokko steig á stokk áður en Grindvíkingar fylltu sinn hluta stúkunnar á sömu mínútu og opnað var inn í salinn.

Grindvíkingar stóðu upp á endann allan tímann og byrjuðu að syngja og hvetja sína menn löngu áður en leikurinn byrjaði. Hörðustu stuðningsmenn Keflavíkur létu einnig í sér heyra og í 40 mínútur var frábær stemming í Blue höllinni.
En um leið og flautan gall fór allt í skrúfuna. Stuðningsmenn beggja liða létu mjög ófriðlega í stúkunni, grýttu hlutum út og suður, inn á völlinn, í leikmenn og í aðra áhorfendur. Virkilega svartur blettur á annars frábærri umgjörð og stemmingu og ljóst að Grindvíkingar þurfa að manna gæsluna vel í næsta leik.
