Í gærdag sendi Dýraverndarsamband Íslands (DÍS) frá sér ákall til yfirvalda um að bjarga dýrum í sárri neyð að bænum Höfða í Þverárhlíð í Borgarbyggð. Um er að ræða sauðfé í alvarlegum vanhöldum og er að hluta komið út fyrir girðingar að bænum, beit er þar lítil sem engin og girðingar ekki heldar. Féð er því margt að bera án eftirlits sem er brot á reglugerð 1066/2014 um velferð sauðfjár og geitfjár. Það er ljóst að reglugerðir og lög um dýravelferð hafa verið brotin á Höfða í áraraðir. Engin breyting til batnaðar hefur orðið á aðbúnaði dýranna öll þessi ár þrátt fyrir að málið hafi ítrekað verið í ferli hjá yfirvöldum.

Steinunn Árnadóttir sem vakið hefur athygli á málinu undanfarið ár hefur tekið fjölda mynda af ástandi dýranna, bæði á útigangi að Höfða og þar sem féð gengur laust utan girðingar. Nýjustu myndir sýna m.a dáin lömb, dána á og nýlega borin lömb sem standa í keng vegna vosbúðar en mikið kalsaveður hefur verið undanfarið á Vesturlandi. Mörg dýranna eru orðin veik sem getur dregið þau til dauða. Samkvæmt fyrrgreindu er ljóst að um er að ræða dýr í sárri neyð.
Í viðtali við visir.is í gær sagði forstjóri Matvælastofnunar (MAST) að málið að Höfða væri í ferli og hafnaði því að stofnunin væri ekki að sinna velferð dýranna á bænum. Málið væri ekki þess eðlis að MAST teldi það réttlæta víðtækara inngrip, þ.e. vörslusviptingu og að það væri mat MAST að dýr á bænum Höfða séu ekki beinlínis að þjást.
Það er háalvarlegt að Matvælastofnun, sem fer með eftirlit með dýravelferð í landinu, meti það svo að dýr sem hafi dáið í þessum aðstæðum, eru deyjandi eða veik líði ekki þjáningar. Dýr eru skyni gæddar verur.

Í nýlegri skýrslu ríkisendurskoðunar um eftirlit MAST með velferð búfjár segir m.a. að nálgun stofnunarinnar sé í sumum tilfellum svo varfærnisleg að hún gangi í raun gegn markmiðum laga 55/2013 um velferð dýra. Einnig benti ríkisendurskoðun á að málsmeðferð MAST hafi tilhneigingu til að dragast um of þegar frávik eru síendurtekin eða MAST telji dýr ekki vera í neyð. Enga breytingu er að sjá í árangri MAST þegar litið er til málsins að Höfða. Dýrin eru jafnframt látin þjást á meðan málið er í ferli í stað þess að velferð þeirra sé varin af hálfu yfirvalda á meðan.
Samkvæmt lögum fer MAST ein með eftirlit með dýravelferð og getur ein kært illa meðferð á dýrum til lögreglu. Að sú stofnun, sem ein sinnir því hlutverki að lögum um dýravelferð sé framfylgt, meti það svo að horuð, veik og deyjandi dýr séu ekki að þjást eða í neyð sýnir hversu alvarlegt ástandið er í málaflokki dýravelferðar. Færa þarf eftirlit með velferð dýra frá Matvælastofnun.
DÍS ítrekar ákall sitt til yfirvalda að bregðast við í málinu og bjarga dýrunum að Höfða í Þverárhlíð án tafar.
Höfundur er formaður Dýraverndarsambands Íslands