Þetta kemur fram í farbannsúrskurði Héraðsdóms Reykjaness frá 17. maí. Landsréttur staðfesti úrskurðinn þann 21. maí og birti hann í dag.
Aðfaranótt 16. maí hvolfdi strandveiðibátnum Höddu HF utan við Garðskaga með þeim afleiðingum að einn lenti í sjónum. Skipstjóri á nálægum strandveiðibáti, félagi mannsins til áratuga, náði að veiða hann upp úr sjónum og mildi þykir að ekki fór verr.
Fljótlega kom upp grunur um að bátnum hafi hvolft þegar árekstur varð milli bátsins og fraktskipsins Longdawn. Skipstjóri Longdawn og tveir stýrimenn voru handteknir og vistaðir í fangaklefa í Vestmannaeyjum. Öðrum stýrimanninum var sleppt úr haldi og síðar hinum mönnunum tveimur. Farið var fram á farbann yfir þeim tveimur, sem var samþykkt þann 17. maí til 13. júní næstkomandi.
Mennirnir eru grunaðir um að hafa yfirgefið mann í sjávarháska, sem getur varðað allt að átta ára fangelsi.
Veruleg hætta á að hann flýi land
Í úrskurði Landsréttar í máli stýrimannsins segir að Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hafi byggt farbannskröfu sína á því að maðurinn væri erlendur ríkisborgari sem engin tengsl hafi hér á landi. Veruleg hætta væri á að hann myndi reyna að komast úr landi eða leynast ellegar koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar yrði honum ekki bönnuð för af landinu á meðan mál hans er til meðferðar hjá lögreglu, ákæruvaldi og dómstólum.
Landsréttur féllst á þær röksemdir Lögreglustjóra og staðfesti úrskurð héraðsdóms.