Dagbjört, sem er 43 ára, hefur setið í varðhaldi frá því að málið kom upp. Henni er gefið að sök að hafa beitt fórnarlamb sitt, tæplega sextugan karlmann, margþættu ofbeldi í aðdraganda andláts hans dagana tvo á undan.
Samkvæmt endanlegri niðurstöðu úr réttarkrufningu lést maðurinn af völdum köfnunar, og þá hafði innvortisblæðing spillandi áhrif á súrefnisnæringu til heilans sem var til þess fallið að stuðla enn frekar að köfnuninni.
„Ég hafna þessu. Ég neita sök“
Dagbjört er ákærð fyrir manndráp og verði hún sakfelld á hún yfir höfði sér minnst fimm ára fangelsi. Þegar málið var þingfest í janúar síðastliðnum hafnaði Dagbjört því alfarið að hafa orðið manninum að bana. „Ég hafna þessu. Ég neita sök,“ sagði hún í gegnum fjarfundarbúnað.
Tveir aðstandendur mannsins krefja Dagbjörtu hvort sig um átta milljónir króna í miskabætur. Við þingfestingu málsins í dag hafnaði Dagbjört einnig því að hún bæri bótaskyldu.
Vildi ekki annað geðmat
Arnar Kormákur Friðriksson, verjandi hennar, sagði við sama tilefni að Dagbjört hefði ekki áhuga á að framkvæmt yrði geðmat á henni sem yrði notað til að meta sakhæfi hennar. Búið væri að gera eitt slíkt mat og taldi hún ekki að breytt niðurstaða myndi koma úr nýju mati.
Kolbrún Benediktssdóttir varahéraðssaksóknari vísaði til gagna málsins og sagði þau ekki benda til þess að Dagbjört hefði verið með ranghugmyndir þegar atburðir málsins áttu sér stað. Hins vegar væri tilefni til að skoða sakhæfi hennar betur.