Tónlistarhátíðin Hróarskelda stendur nú yfir í Danmörku, og í gær viðraði sérstaklega vel á gesti. Sólin skein og hiti fór yfir tuttugu gráður. Í nótt kom svo hellidemba sem gerði tjaldstæðið að hálfgerðri tjörn eða drullusvæði.

Jakob Magnússon, gestur á hátíðinni, segir að nú hafi stytt upp og þetta sé svona að mestu þornað núna. „En það er samt mýri hérna á svæðinu sko, þar sem við erum að labba,“ segir hann.
„Ókei, örkin hans Nóa!“
Kolbeinn Tumi segir að fyrsta hugsunin hans þegar hann vaknaði hafi verið, „Ókei, örkin hans Nóa!“ Hann segir að félagi hans sem hafi verið að tjalda þarna hafi líka vaknað á floti. „Maður þekkir þetta ekki á Íslandi. Maður vaknaði ekkert í kulda, það er hlýtt hérna og stemning. En að vakna í svona flóði, svo að stíga út í drulluna, það er bara kyngimagnað,“ segir Kolbeinn.

Það sé drulla á svæðinu og allir séu „ljótir og ógeðslegir.“
„En svona er þetta með krakka og ungt fólk sem er að skemmta sér, það tekur skemmtunina fram fyrir svona viðbjóð og harkar þetta af sér. Við þekkjum það á Íslandi yfir Þjóðhátíð,“ segir Kolbeinn, sem lætur greinilega engan bilbug á sér finna.
Hann segir að það sé komin bullandi stemning í hópinn, og menn komnir í gír. Svæðið sé vissulega viðbjóður og maður rölti þar um með drulluna upp að hnjám, „en svo fer maður bara í sturtu,“ segir Kolbeinn.