Lakers valdi Bronny með 55. valrétti í nýliðavali NBA. Hann er sem kunnugt er sonur LeBrons James, leikmanns Lakers.
Illa gekk hjá Bronny í fyrstu fjórum leikjum hans í sumardeildinni. Í þeim var hann aðeins með 4,3 stig að meðaltali, 22,6 prósent skotnýtingu og klikkaði á öllum fimmtán þriggja stiga skotum sínum.
Betur gekk hjá Bronny í fimmta leiknum, gegn Atlanta í nótt. Hann skoraði tólf stig, hitti úr fimm af ellefu skotum sínum og tvö af fimm þriggja stiga skotum hans rötuðu rétta leið.
„Mér finnst eins og ég viti hver rétta leiðin til að spila sé. Ef ég spila minn leik í hverjum einasta leik verður niðurstaðan svona,“ sagði Bronny eftir leikinn.
Hann þakkaði fjölskyldu sinni fyrir stuðninginn undanfarna daga. Faðir hans er nú með bandaríska landsliðinu í Miðausturlöndum þar sem það undirbýr sig fyrir Ólympíuleikana en hann fylgist að sjálfsögðu með stráknum.
„Bara vera ákveðinn. Jafnvel þótt ég hafi ekki verið að hitta verð ég að vera ákveðinn,“ sagði Bronny aðspurður hvaða ráð pabbi gamli hefði gefið honum til að sigrast á mótlætinu.
Frakkinn Zaccharie Risacher, sem var valinn fyrstur í nýliðavalinu, lék ekki með Atlanta í nótt. Sömu sögu var að segja af Dalton Knecht sem Lakers valdi í fyrri umferð nýliðavalsins.