Peningastefnunefnd ákvað í morgun að meginvextir verði áfram óbreyttir í 9,25 prósentum og hafa þeir því ekki breyst í heilt ár. Í rökstuðningi segir að verðbólga hafi aukist líttillega eftir að hafa hjaðnað fram eftir ári. Hins vegar væri undirliggjandi verðbólga enn mikil og verðhækkanir væru á breiðum grunni þótt húsnæðisliðurinn vegi enn þyngst. Verðbólguvæntingar hafi einnig lítið breyst og haldist yfir markmiði.
Ásgeir, er ekki hætta á að það fari að grípa um sig almennt vonleysi meðal almennings hvað vaxtastigið og verðbólguna varðar?
„Ég veit það ekki. Ástæðan fyrir því að við getum ekki lækkað vexti er að það er of mikil þensla inni í hagkerfinu. Við erum ekki að sjá þessa kólnun sem við vorum að vonast til,“ segir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Forysta Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambandsins hvöttu Seðlabankann í sameiginlegri ályktun í gær til að sýna framsýni í ákvörðun stýrivaxta. Ásgeir segir nýgerða kjarasamninga hafa átt að leiða til þess að verðbólga gengi niður og í samningunum væru ákveðin uppsagnarákvæði næsta haust að ári.
„Enn sem komið er hefur þetta ekki gerst. Kjarasamningarnir hafa ekki skilað minnkun verðbólgu. Þá getum við ekki lækkað vexti. Þannig að þetta er bara mjög einfalt mál. Það náttúrlega stoðar þá lítt að skrifa einhver bréf ef þetta er staðan,“ segir Ásgeir.
Ýmir þættir efnahagsmálanna haldi uppi verðbólgunni eins og mikil neysla en mest áhrif hefur spennan á húsnæðismarkaði. Ásgeir segir að þar ráði mestu til skamms tíma innkoma ríkisins á fasteignamarkaðinn vegna hamfaranna á Reykjanesi, sem leitt hafi til þess að um eitt prósent landsmanna hafi þurft að finna sér nýtt heimili.
Þrátt fyrir þetta hefur seðlabankastjóri trú á að markmið kjarasamninga um hjöðun verðbólgu og lækkun vaxta muni nást, það gangi hins vegar hægar en vonast hafi verið til.
„Þetta er gríðarlega mikill hagvöxtur sem við höfum fengið fram á síðustu árum. Gríðarlega mikil aukning í kaupmætti. Laun á Íslandi eru núna með því hæsta sem þekkist í heiminum. Líka lífskjör í þessu landi. Þetta snýst bara um að ná fram einhverju meðalhófi,“ segir Ásgeir Jónsson.