
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir áætlað er að ríkið setji 14 milljarða króna á ári í framkvæmdir vegna samgöngusáttmálans á fyrri hluta hans og 19 milljarða á ári á seinni hlutanum. Það geti orðið áskorun einfaldlega vegna þess að það vanti fleiri vinnandi hendur vegna umfangs annarra mannaflsfrekra framkvæmda.

„Fjórtán milljarðar eru ekki mjög mikið fyrir allt höfuðborgarsvæðið í heildarsamhengi innviðafjárfestingar í landinu. Svo skulum við muna það að eftir því sem líður á þennan tíma dregur til dæmis úr þörfinni á að setja fjármagn inn í Landspítalann. Við erum með 20 milljarða á ári núna inn í Landspítalann og þegar kemur undir 2030 fer að draga úr þeirri miklu fjárfestingarþörf,“ segir Bjarni.
Þótt samstaða hafi verið um samgöngusáttmálann og þar með borgarlínu meðal sveitarfélaganna sex á höfuðborgarsvæðinu, sem flest eru undir stjórn Sjálfstæðisflokksins, hefur borið á gagnrýni á ýmislegt í sáttmálanum meðal Sjálfstæðismanna. Þessi mikla samstaða var hins vegar staðfest með undirritun á uppfærðum samgöngusáttmála ríkisins og sveitarfélaganna í gær.
Þannig að getum við sagt að stjórnmálaflokkar og einstaklingar í stjórnmálum geti þá rifist um eitthvað annað á næstu kjörtímabilum en akkúrat þetta?
„Já ég vona það. Ég vona að við berum gæfu til að sjá lífsgæðin sem þessu geta fylgt. Að betri almenningssamgöngur eru hluti af framtíðarsamgöngukerfi höfuðborgarsvæðisins,“ segir forsætisráðherra. Rétt eins og stofnvegaframkvæmdirnar sem settar voru á blað í upphafi sáttmálans árið 2019 væru enn nauðsynlegar.

Nú væri búið að hanna þær betur og raða þeim upp og þær komnar nær því að fara í útboð. Margt væri komið á framkvæmdastig nú þegar og öðru lokið. Bjarni segir menn hins vegar áfram þurfa að hafa burði og getu til að eiga samtal um með hvaða hætti verði farið í framkvæmdirnar. Hvernig fjármunirnir nýttust best til að ná fram markmiðum sáttmálans.
„Það er svo fjölmargt sem við sjáum ekki fyrir í dag sem mun koma á dagskrá síðar. Þættir sem varða rekstur borgarlínunnar og svo framvegis, sem ekki er hægt að útkljá hér og nú,“ segir Bjarni Benediktsson. En í uppfærðum samgöngusáttmála er gert ráð fyrir að ríkið komi að rekstri borgarlínu með sveitarfélögunum og standi undir einum þriðja rekstursins.