Eldgos hófst austan við Sýlingarfell klukkan 21:26 í gærkvöldi og hefur hraun úr sprungunum runnið til vesturs og austurs.
Fannar segir hraunflæðið núna ekki ógna Grindavík og heldur ekki Grindavíkurveginum.
„En auðvitað eru þetta fyrstu klukkutímarnir sem eru liðnir og rifja það upp að síðasta gos stóð yfir í þrjár vikur og við vitum ekki um framhaldið. En alla veganna má segja að þetta sé ákveðinn léttir. Biðtíminn afstaðinn þar sem óvissa var um það hvernig þetta kæmi til með að verða ef kæmi til goss. Þannig að við verum bærilega sátt við stöðuna.“
Fannar fór í samhæfingarstöð almannavarna í gærkvöldi og var þar fram á nótt og fylgdist með stöðunni. „Það var búð í 25 til 30 húsum og rýmingin gekk mjög vel, bæði í Grindavík og í Svartsengi. Þannig að það voru fumlaus og þjálfuð vinnubrögð sem voru þar viðhöfð og það gekk vel.“
Heyrist minna í lúðrum í hvassviðri
Ábendingar hafa borist um að ekki hafi heyrst jafn vel í viðvörunarlúðrunum í Grindavík í gærkvöldi og í fyrri gosum. Fannar segir ekkert annað benda til en að lúðrarnir hafi virkað sem skyldi enda hafi þeir verið prófaðir reglulega.
„Það er þannig að það er reglulega verið að taka æfingar og prófa þessa lúðra. Hins vegar er það þannig að það fer eftir vindáttinni og í hvaða aðstæðum fólk er í innanhúss að hljóðið berst ekki nægilega vel. En ég held að þeir hafi virkað sem skyldi en við vitum líka að í hvassviðri berst hlóðið ekki eins vel,“ segir Fannar.