Jason og Travis eru með þekktari bræðrum Bandaríkjanna um þessar mundir. Sá fyrrnefndi lagði skóna á hilluna eftir farsælan feril í NFL-deildinni á meðan Travis framlengdi samning sinn við ríkjandi meistara Kansas City Chiefs nú í sumar.
Það er greinilegt að drengirnir hafa verið byrjaðir að leggja drög að því hvað skildi gera eftir að skórnir færu á hilluna og því ákváðu þeir að byrja með sitt eigið hlaðvarp árið 2022. Heitir það New Heights og varð fljótlega eitt vinsælasta íþróttahlaðvarp Bandaríkjanna.
Það hjálpaði hversu opnir þeir voru í þáttunum þar sem þeir ræddu fjölskyldulífið þegar þeir voru yngri, lífið í NFL, ástarmál og allt milli himins og jarðar. Jason er giftur þriggja barna faðir og hefur eiginkona hans, Kylie Kelce sem og börn þeirra, reglulega stungið inn höfðinu þegar þeir bræður eru að taka upp hlaðvarpsþætti sína.
Þá jukust vinsældir þáttanna enn frekar þegar í ljós kom að Travis væri byrjaður að hitta poppgyðjuna Taylor Swift.
Samkvæmt mælingum var samstarf bræðranna fjórða vinsælasta hlaðvarp Bandaríkjanna á fyrsta ársfjórðingi ársins. Nú hefur The Athletic greint frá því að Amazon, í gegnum hlaðvarpsveituna Wondery, hafi keypt hlaðvarpið fyrir 100 milljónir Bandaríkjadala eða rétt rúmlega 13 milljarða íslenskra króna.
Mun Wondery þar með stýra auglýsingum hlaðvarpsins sem og það verður nú aðgengilegt fyrr – og án auglýsinga – ef þú ert meðlimur Wondery.
„Við gætum ekki verið spenntari fyrir komandi samstarfi með Wondery,“ segja bræðurnir er kaupin voru tilkynnt. New Heights er að fara inn í sitt þriðja tímabil og kemur fyrsti þátturinn út í dag, miðvikudag.