Samþykkt var með tuttugu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Flokks fólksins gegn þremur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna að vísa tillögunni til meðferðar skóla- og frístundaráðs, eftir því sem fram kemur í fundargerð borgarstjórnar.
Dýrt kerfi en lítill árangur
Í greinargerð með tillögunni segir að frá árinu 2009 hafi íslenskur grunnskóli dalað um það sem nemur 64 Pisa-stigum í lesskilningi. Það jafngildi rúmega þremur heilum grunnskólaárum.
„Ísland er neðst Norðurlandanna í síðustu Pisa-könnun, næstneðst allra Evrópuríkja og í 6. neðsta sæti allra þátttökuríkjanna. Hér er því um óvenjulega mikla afturför að ræða á skömmum tíma. Engu að síður er hér rekið eitt dýrasta grunnskólakerfi innan OECD ríkjanna,“ segir í greinargerðinni.
Þar segir einnig að kostnaður við hvern nemanda sé um 2,7 milljónir á ári, eða 27 milljónir á hvern nemanda út grunnskólagönguna.
Nýtt kerfi leysi prófin af hólmi
Í bókun borgarfulltrúa meirihlutans, þ.e. Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar, í umræðum um menntamál var umræðu og áhuga á skólamálum fagnað.
„Enda haldast gæði menntunar í hendur við hagsæld og velgengni okkar sem samfélags. Endurteknar niðurstöður úr Pisa-könnunum eru tilefni til þess að endurskoða og setja í forgang viðbrögð til þess að gera betur og auka árangur menntakerfisins,“ segir í bókuninni.
Þá kemur fram að þegar hafi verið sett af stað fagleg vinna til að greina stöðuna og finna lausnir til þess að bregðast við.
„Nú stendur yfir endurskoðun á menntastefnu Reykjavíkur. Að auki hafa skólayfirföld í borginni unnið þétt með mennta- og barnamálaráðuneytinu að nýju og bættu samræmdu námsmati, matsferli, sem mun leysa gömlu samræmdu prófin af hólmi.“
Í upprunalegri útgáfu fréttarinnar kom fram að tillagan hefði verið samþykkt. Það er ekki rétt. Hið rétta er að samþykkt var að vísa henni til meðferðar skóla- og frístundaráðs, þar sem tekin verður afstaða til hennar. Velvirðingar er beðist á þessu.