Enski boltinn

Fyrrum lög­maður Trump vill í enska boltann

Valur Páll Eiríksson skrifar
Tacopina var verjandi Trump í málaferlum vegna kynferðisofbeldis og ærumeiðinga. Trump var fundinn sekur í maí í fyrra.
Tacopina var verjandi Trump í málaferlum vegna kynferðisofbeldis og ærumeiðinga. Trump var fundinn sekur í maí í fyrra. Andrew Kelly-Pool/Getty Images

Joe Tacopina, fyrrum lögmaður Donalds Trump, fyrrum Bandaríkjaforseta og frambjóðanda Repúblikana, hyggst kaupa enskt knattspyrnulið og líkja eftir árangri Wrexham. Kaup hans hafa ekki enn verið heimiluð vegna brota hans í ítalska fótboltanum.

Tacopina er 58 ára gamall New York-búi af ítölskum ættum. Hann hefur átt í viðræðum um kaup á Tranmere Rovers um sex mánaða skeið en bíður þess að ensk knattspyrnuyfirvöld heimili skiptin.

Tranmere er staðsett í Liverpool-borg og er í fjórðu efstu deild (League Two) í ensku deildarkeppninni. Liðið hefur verið í eigu Mark Palios, fyrrum framkvæmdastjóra hjá enska knattspyrnusambandinu, ásamt eiginkonu hans Nicolu frá árinu 2014.

Tacopina er sagður vilja leika eftir árangur Hollywood-leikaranna Ryan Reynolds og Rob McElhenney hjá Wrexham. Þeir félagar keyptu félagið árið 2020, þegar það hafði verið fast í utandeildinni um árabil, en það er nú komið upp í C-deild og virðist uppgangur þess ætla að halda áfram.

Tacopina hefur unnið sér það til frægðar vestanhafs að verja heimsfrægt fólk. Hann var lögmaður Michael Jackson um tíma, hafnaboltastjörnunnar Alex Rodriguez auk rapparans A$AP Rocky. Þá hefur hann reglulega tjáð sig um málaferli líðandi stundar í sjónvarpi.

Tacopina var lögmaður Donalds Trump, fyrrum Bandaríkjaforseta og núverandi forsetaframbjóðanda Repúblikanaflokksins, um árabil. Hann varði Trump í máli tengdu kynferðisofbeldi og ærumeiðingum í garð E. Jean Carroll. Trump neitaði sök en var fundinn sekur í einkamáli sem Carroll höfðaði gegn honum í maí í fyrra.

Leiðir þeirra Tacopina og Trump skildu í janúar á þessu ári.

Auk þess að vera vel þekktur vestanhafs er hann kunnur á Ítalíu, sér í lagi í fótboltaheiminum þarlendis. Hann var hluti af bandarískum hópi sem keypti Roma árið 2011 áður en hann seldi hlut sinn og keypti þess í stað Bologna árið 2014.

Hann seldi Bologna aðeins ári síðar til að kaupa Venezia í Feneyjum og í hans eignartíð fór liðið frá fjórðu deild upp í aðra. Hann var heiðraður í Feneyjum fyrir hlut sinn í að bjarga félaginu frá glötun en færði sig aftur um set árið 2020 þegar hann keypti lið SPAL í Ferrara.

Genoa CFC v Spal - Coppa Italia GENOA, ITALY - OCTOBER 18: Joe Tacopina chairman of Spal (R) looks on at half-time during the Coppa Italia match between Genoa CFC and Spal at Stadio Luigi Ferraris on October 18, 2022 in Genoa, Italy. (Photo by Simone Arveda/Getty Images)

SPAL var síðast í ítölsku A-deildinni árið 2020 en féll í þriðju deildina síðasta vor. Liðið hóf yfirstandandi leiktíð með þrjú stig í mínus þar sem það greiddi ekki skatta í janúar og febrúar á þessu ári.

Tacopina hlaut þriggja mánaða bann frá ítölskum knattspyrnuyfirvöldum, sem foresti félagsins. SPAL áfrýjaði dómnum og kenndi um mistökum banka, án árangurs og var refsingin staðfest í sumar.

Reglur eru í gildi um háttvísi nýrra eigenda sem vilja kaupa félag í enska fótboltanum og eru reglubrot Tacopina á Ítalíu töld tefja yfirtöku hans á Tranmere. Hann er sagður vongóður og hugsar stórt. Hann vilji hífa bæði Tranmere og SPAL upp deildirnar í löndunum tveimur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×