Tíu aðildarríki Evrópusambandsins greiddu atkvæði með tollunum í atkvæðagreiðslu í dag, fimm á móti og tólf sátu hjá. Fimmtán ríki með 65 prósent íbúa Evrópusambandsins hefðu þurft að greiða atkvæða á móti tillögu framkvæmdastjórnarinnar til þess að fella hana, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Þýskaland greiddi atkvæði gegn tollunum en það er stærsti bílaframleiðandi og hagkerfi álfunnar. Þarlendir bílaframleiðendur telja tollana áfall fyrir evrópska bílaiðnaðinn og að samkomulag yrði að nást við kínversk stjórnvöld til þess að afstýra viðskiptastríði.
Tollarnir tengjast rannsókn Evrópusambandsins á því sem það telur ósanngjarnar niðurgreiðslur kínverskra stjórnvalda á rafbílaframleiðslu.
Kínversk stjórnvöld hófu sína eigin rannsókn á innflutningi á áfengi, mjólkurvörum og svínakjöti frá Evrópusambandinu fyrr á þessu ári og er hún talin svar við evrópsku rannsókninni.
Framkvæmdastjórnin segir að umframframleiðsla á rafbílum í Kína sé um þrjár milljónir bíla á ári, meira en tvöfaldur rafbílamarkaðurinn í Evrópu. Álfan sé augljósasti áfangastaður þeirra í ljósi þess að Bandaríkin og Kanada leggja hundrað prósent toll á kínverska rafbíla.
Viðræður við kínversk stjórnvöld eiga þó að halda áfram. Framkvæmdastjórnin segist opin fyrir öðrum möguleikum en tollum, til dæmis lágmarksverði á innfluttum bílum og innflutningskvótum.