Í fréttatilkynningu frá Íslenskri erfðagreiningu segir að stefnt sé að því að ná til um þrjátíu þúsund þátttakenda. Ávinningur af rannsókninni felist í aukinni þekkingu á erfðaþáttum sem liggja að baki sköpunargáfu og hugsanlegum tengslum við geð- og taugaþroskaraskanir.
Þátttakendur í rannsókninni leysi þrautir sem reyni á margbreytilega (sundurhverfa) hugsun og svari spurningalista um sköpunargáfu, ofureinbeitingu og skylda þætti.
Við lok rannsóknarinnar fái þátttakendur upplýsingar um frammistöðu sína, það er stigafjölda í verkefni um margbreytilega hugsun, sem gefi vísbendingu um sköpunargáfu.