„Það virðast vera birgjar sem eru að hækka vörur sem vega mjög þungt í körfunni. Það eru þá kjötvörurnar fyrst og fremst, sem eru að verða dýrari, og þá grænmeti,“ sagði Benjamin Julian í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag. Mestar hækkanir væru frá SS og Goða. Hann segir þetta mestu hækkun frá því í mars á milli mánaða.
Hann segir Prís hafa haft mikil áhrif á vörulækkun síðustu mánaða en að þá sé einnig Nettó að lækka sig í verði og sé að reyna að vera á par við Krónuna í mörgum vörum. Hann segir verðmuninn á langflestum vörum í Krónunni og Bónus vera eina krónu og það sama gildi þá núna um vörur í Krónunni og Nettó.
Hann segir Prís vel fyrir neðan þessar verslanir í mörgum tilfellum. Þá sé einnig hægt að finna mjólkurvörur ódýrar í Costco.
Benjamin segir verðhækkanir að einhverju leyti árstíðabundnar. Jólavörur sem séu að koma í verslanir núna hafi hækkað mjög mikið frá því í fyrra. Súkkulaðivörur hafi hins vegar verið að hækka allt árið en það má rekja til uppskerubrests Gana og á Fílabeinsströndinni.
Sjá einnig: Kakóverð aldrei hærra og verðhækkanir á súkkulaði rétt að byrja
„Þessi sveifla núna á kjötinu er meiri en maður hefði búist við í hausthækkun,“ segir Benjamin og að pylsur hafi til dæmis hækkað mikið í verði.
Skiptir máli hvaða vörur hækka
Hann segir alltaf einhverjar vörur lækka, það séu í raun fleiri vörur að lækka en hækka, en það sem skipti máli sé hvort vörurnar sem fólk versli mikið og oft hækki mikið.
„Það er ekki sama hvaða vörur hækka.“
Ekki allar verslanir með
ASÍ er með app til að skoða verðlag sem heitir Nappið. Áður hét það Prís en það var uppfært í nýrri útgáfu í vikunni. Þar er hægt að skoða vörur og hvað þær kosta í mörgum ólíkum verslunum og þannig komast að því hvar er ódýrast að kaupa það.
Benjamin bendir samt á að það séu ekki allar verslanir sem hleypi verðlagseftirliti ASÍ að til að kanna verð. Hann hvetur fólk til þess að setja inn í appið myndir frá þessum verslunum þannig að fólk hafi raunverulega samanburð í öllum verslunum.
„Það eru vissulega einhverjar búðir sem finnst þetta ekki í lagi. En okkur finnst að almenningur eigi rétt á vita áður en hann gengur inn í búð hvað hlutir kosta þar,“ segir Benjamin.