Tryggvi Snær og félagar í Bilbao Basket lentu ekki í teljandi vandræðum gegn Balkan Botevgrad frá Búlgaríu í Evrópubikar FIBA í körfubolta.
Leiknum lauk með 31 sigri gestanna frá Bilbao, lokatölur 62-93. Tryggvi Snær skoraði 9 stig, tók 7 fráköst og gaf 5 stoðsendingar.
Bilbao hefur unnið alla fjóra leiki sína í J-riðli til þessa og er svo gott sem komið með annan fótinn í næstu umferð þó aðeins eitt lið fari upp úr hverjum riðli.
Maroussi áttu ekki jafn þægilegt kvöld en þeir máttu þola naumt tap í Svíþjóð þar sem þeir heimsóttu Norrköping, lokatölur 74-71. Elvar Már skoraði 13 stig, gaf 4 stoðsendingar og tók 4 fráköst.
Bæði Maroussi og Norrköping hafa nú unnið tvo leiki og tapað jafn mörgum. Spirou er hins vegar á toppnum með fullt hús stiga.