Þetta var sextánda árið í röð, sem folaldasýning er haldin í Skálakoti. Sýningin fór þannig fram að folöldin komu með mæðrum sínum inn á sýningarsvæðið en mæðurnar voru svo teknar frá á meðan folöldin sýndu sig þegar þau voru rekin áfram og hlupu nokkra hringi fyrir dómarana. Kynnir var Guðmundur Viðarsson, bóndi og hóteleigandi í Skálakoti.
„Þetta er mest til gamans og mannfagnaður en ég fæ valinkunna bændur hér í sveit til að raða folöldunum en þetta er mest til gamans gert,” segir Guðmundur.
En sést strax á folöldunum hvort þau verði góð hross eða ekki?
„Já, já, þú sérð hvort folaldið er fallegt frá byrjun eða ekki en auðvitað eiga þau eftir að teygjast og togast í allar áttir og sum hver fríkka og sum hver fríkka ekki,” bætir Guðmundur við.

Dómararnir þrír höfðu nóg að gera við að dæma folöldin og gefa þeim einkunnir.
„Við skoðum að folaldið sé svona þokkalega léttbyggt og ekki mjög fótlágt og svona fallegur yfirsvipur á því og svo er það nú yfirleitt alltaf hreyfingarnar sem vinna þetta,” segir Kristinn Guðnason, yfirdómari sýningarinnar.

Hvort er nú skemmtilegra að fást við íslensku sauðkindina eða íslenska hestinn?
„Þetta er best saman, já ætli að rollurnar yrðu ekki á undan hjá mér,” segir Kristinn hlæjandi.

Eftir folaldasýninguna var öllum boðið í vöfflukaffi og þar voru verðlaun dagsins veitt en hæst dæmda folald sýningarinnar var Hrafn frá Fornusöndum en eigandi þess, Finnbogi Geirsson tók á móti bikarnum.
