Í fréttum Stöðvar 2 var gullnáman Nalunaq á Suður-Grænlandi heimsótt. Tíu ár eru frá því félag undir forystu ungs íslensks jarðfræðings, Elds Ólafssonar frá Torfastöðum í Biskupstungum, keypti gullnámu í fjallendi inn af bænum Nanortalik. Þar hefur Amaroq gert höfn, vegi, brýr og vinnubúðir þar sem nærri eitthundrað manns starfa núna við gullgröft og gullvinnslu.

„Núna höfum við sýnt fram á að við getum byggt námu, fundið og byggt námu frá A til Ö, eytt tvöhundruð milljónum dollara í að gera það. Sýnt fram á að við höfum þekkingu og getu til að vinna með samfélaginu og stjórnvöldum,“ segir Eldur, sem er stofnandi og forstjóri Amaroq Minerals.
Eldur áætlar að íslenskt eignarhald í félaginu sé núna á milli þrjátíu og fjörutíu prósent. Auk Íslendinga hafi alþjóðlegir fjárfestar fylgt félaginu frá byrjun.

Inni í fjallinu er búið að grafa tuttugu kílómetra af göngum og þar sýnir Eldur okkur um hvað þetta snýst.
„Óó, váá. Shit,“ segir einhver og bendir á svera ljósa jarðmyndun í lofti ganganna.
„Sjáðu þetta!“ segir Eldur.

-Þannig að þetta er gullæðin hérna?
„Þetta er gullæðin, já,“ svarar hann og slær á verðmætið bara úr þessu eina stykki:
„Það eru svona 450 únsur. Sem eru svona 150 milljónir.“
-Íslenskra króna?
„Já. Bara tíu sinnum tíu metrar hérna.“

Eftir að búið er að bora og sprengja er mulningnum ekið út úr námunni áleiðis í sjálfa gullvinnsluna. Stærsta húsið sem risið er á námasvæðinu er í raun gullkvörn og það í bókstaflegri merkingu.
Gullkvörnin reis á aðeins tíu mánuðum og var gangsett í fyrradag. Þar malast efnið í tromlu og fer síðan á vatnspönnu sem skolar sandinn frá gullinu, rétt eins og menn gerðu í Klondyke í gamla daga.

„Þetta hérna eru fyrstu gullhnullungarnir sem koma úr vinnslufasanum. Þetta fyrirfinnst hvergi lengur í heiminum svona stórt nema hérna í Grænlandi,“ segir Eldur.

Hann segir það taka allt næsta ár að koma vinnslunni á fullt og ná þeim tekjum sem að er stefnt, sem eru um 130 milljónir dollara á ári. Þetta þýðir 50 milljóna íslenskra króna virði gulls að jafnaði á degi hverjum og skýrir peningaskápinn á staðnum.

En stærsta stundin var að sjá gullið steypt í mót. Eldur vonast til að fá þrjár til fjórar gullstangir annan til þriðja hvern dag.
„Það er bara ólýsanleg tilfinning í gær þegar ég sá gullstrauminn vera að koma á borðinu. Þá hélt ég að mér myndi nú ekki líða svona vel eins og mér leið.“

„En svo tekur við að reka félagið og halda áfram að halda þessu alltaf við. En það var ólýsanleg tilfinning, - eftir tíu ár,“ segir Eldur.
Og starfsmenn fögnuðu, eins og sjá má hér í frétt Stöðvar 2: