Þetta kemur fram á vef Fjallabyggðar. Sigríður vildi ekki tjá sig um starfslokin í samtali við fréttastofu og vísaði á Guðjón M. Ólafsson formann bæjarráðs. Guðjón vildi ekki bæta miklu við það sem fram kemur í tilkynningu á vef sveitarfélagsins.
Aðspurður segir Guðjón að ekki hafi verið gerður sérstakur starfslokasamningur við Sigríði heldur hafi ráðningarsamningur hennar tekið á því hvernig brugðist yrði við við starfslok.
Sigríður var ráðin bæjarstjóri Fjallabyggðar í júlí 2022. Hún var valin úr hópi fjórtán umsækjenda. Hún var áður forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands en á að baki feril í stjórnmálum, bæði á Alþingi og í bæjarstjórn fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
„Ég er full tilhlökkunar að flytja norður í þetta blómlega og fjölskylduvæna byggðarlag og takast á við þau spennandi verkefni sem framundan eru, í samstarfi við öfluga bæjarstjórn og starfsfólk Fjallabyggðar,“ sagði Sigríður sumarið 2022 og flutti svo norður á Siglufjörð.
Í tilkynningu á vef Fjallabyggðar er Sigríði, sem þó er ekki nafngreind, þökkuð vel unnin störf í þágu sveitarfélagsins og henni óskað velfarnaðar í framtíðinni.
Bæjarstjórn Fjallabyggðar muni á næstu dögum taka ákvörðun um hvernig verði staðið að ráðningu nýs bæjarstjóra.