Þetta sagði Waltz í viðtali á Fox News í gærkvöldi þar sem hann sagði Rússa ætla sér að verða „kóngar“ norðurslóða. Þeir ættu einhverja sextíu ísbrjóta og sumir þeirra væru kjarnorkuknúnir, á meðan Bandaríkjamenn ættu tvo og eldur hefði nýverið kviknað í öðrum þeirra.
„Þetta snýst um sjaldgæfa málma, þetta snýst um auðlindir. Þetta snýst um það að íshellan er að hörfa, Kínverjar eru að dæla út ísbrjótum og eru að fara þarna einnig. Svo þetta snýst um olíu og gas. Þetta er um þjóðaröryggi okkar. Þetta snýst um sjaldgæfa málma,“ sagði Waltz.
Trump hefur hótað því að beita Dani háum tollum, láti þeir Grænland ekki af hendi, og neitaði að útiloka hernaðaríhlutun til að ná tökum á eyjunni.
Í viðtalinu í gær sagði Waltz Dani geta verið góða bandamenn en ekki væri hægt að koma fram við Grænland sem einhverskonar útkjálka og benti á að landið væri á vesturhveli jarðar.
Waltz hélt því einnig fram að rúmlega fjögurra klukkustunda heimsókn Donald Trump yngri til Grænlands á dögunum hefði sýnt fram á að allir 56 þúsund íbúar Grænlands væru spenntir fyrir mögulegri inngöngu í Bandaríkin.
👀 Trumps kommende national sikkerhedsrådgiver, Rep Mike Waltz👇 pic.twitter.com/X6K30y4iDt
— Mads Dalgaard Madsen (@dalgaard_mads) January 9, 2025
CNN segir Trump-liða hafa komið þeim skilaboðum til Kaupmannahafnar að forsetanum verðandi væri alvara um það að eignast Grænland.
Blendnar tilfinningar í Grænlandi
Grænlenski miðillinn KNR segir heimsókn Trump yngri til Grænlands á þriðjudaginn hafa vakið blendnar tilfinningar þar í landi. Viðtöl blaðamanna við fólk bendi til þess að einhverjir séu spenntir fyrir því að ganga í Bandaríkin en fleiri vilji halda tengslum við Danmörku eða að Grænland verði sjálfstætt ríki.
Einn viðmælandi KNR sagðist hafa áhyggjur af því að það eina sem Trump vildi í Grænlandi væri auðlindir landsins. Þá hefði hann áhyggjur af því að sökum smæðar grænlensku þjóðarinnar myndi menning hennar og tungumál hverfa mjög fljótt.
Annar kvartaði yfir því hvað vörur frá Danmörku væru orðnar dýrar og það gæti breyst með inngöngu í Bandaríkjunum. Annars sagðist ekki treysta Dönum. Mögulega gæti hann treyst Trump betur.
Sjá einnig: Mette boðar flokksformenn á neyðarfund vegna Grænlands
Múte B. Egede, formaður landstjórnar Grænlands, segir ummæli Trumps vera alvarleg en mikilvægt sé að sýna stillingu. KNR hefur eftir honum að hann skilji áhyggjur Grænlendinga en styrkur þeirra liggi í samstöðu.
Þá ítrekaði hann að Bandaríkin, auk annarra ríkja á norðurslóðum, hefðu komist að samkomulagi um að norðurslóðir ættu að vera „lágspennusvæði“.
Þess vegna teldi hann ummæli Trump vera mjög óviðeigandi.