Umfjöllun: Króatía - Ísland 32-26 | Hjálp Slóvenar! Við klúðruðum þessu Sindri Sverrisson og Ingvi Þór Sæmundsson skrifa 24. janúar 2025 20:53 Viggó Kristjánsson fórnar höndum. VÍSIR/VILHELM Eftir skelfilegt tap gegn Króatíu í Zagreb í kvöld veltur draumur Íslands um sæti í 8-liða úrslitum á HM á hjálp frá Slóveníu á sunnudaginn. Króatar voru átta mörkum yfir eftir ótrúlegan fyrri hálfleik, 20-12, og unnu að lokum 32:26. Staðan í milliriðli Íslands. Aðeins efstu tvö liðin komast í 8-liða úrslit og séu tvö eða fleiri lið jöfn ráða innbyrðis úrslit lokastöðu þeirra. Ef Króatía, Egyptaland og Ísland enda jöfn eftir lokaumferðina á sunnudag verður Ísland því í 3. sæti, eftir tapið stóra í kvöld.Vísir Sigur í kvöld hefði tryggt Íslandi efsta sætið í milliriðli fjögur, og leik líklega við Ungverja í 8-liða úrslitum. Sem sagt góða möguleika á sæti í undanúrslitum og leik um verðlaun á mótinu. Sú varð alls ekki raunin. Til að komast í 8-liða úrslit hefði Ísland mátt við að hámarki þriggja marka tapi en nú er staðan sú að ef Ísland, Króatía og Egyptaland enda saman efst og jöfn verður Ísland neðst þeirra þriggja vegna innbyrðis úrslita (Ísland vann þriggja marka sigur á Egyptum sem unnu Króata með fjögurra marka mun). Þetta gerist ef Króatía vinnur Slóveníu á sunnudaginn, Egyptaland vinnur Grænhöfðaeyjar og Ísland vinnur Argentínu. Íslenskir stuðningsmenn bjuggust við meira í kvöld.VÍSIR/VILHELM Þrátt fyrir að hafa unnið fyrstu fjóra leiki sína á mótinu er íslenska landsliðið sem sagt komið í þá stöðu að falla úr leik nema að það vinni Argentínu, og Slóvenía nái í jafntefli eða sigur gegn Króatíu (og svo geta mestu bjartsýnismenn vonast eftir því að Grænhöfðaeyjar nái í stig gegn Egyptalandi en það er útilokað). Við verðum bara að treysta á Slóvena, sem hins vegar ekki eiga lengur möguleika á að komast í 8-liða úrslit. Er ekki hægt að lofa þeim góðum gjöfum? Laxveiðiferð til Íslands? Viktor Gísli Hallgrímsson varði ekki skot í fyrri hálfleik en stóð sig hins vegar vel í seinni hálfleiknum.VÍSIR/VILHELM Það fór allt úrskeiðis sem hugsast gat í kvöld. Ísland hefði alveg mátt við tapi gegn Króatíu ef Slóvenía hefð bara náð í stig gegn Egyptalandi, en það klikkaði út af furðulegum leiktafardómi í lok leiks. Og það var eins og þessi vonbrigði smituðust inn í leik Íslands gegn Króatíu því leikur liðsins, eða að minnsta kosti vörn og sérstaklega markvarsla, styrkleikinn í síðustu leikjum, var í molum. Snorri byrjaði sem fyrr með sterkt varnarlið á vellinum, með þá Elvar, Janus og Viggó í útilínunni, Orra og Óðin í hornunum, og Ými á línunni. Króatar komust í fyrsta sinn yfir eftir sex mínútna leik, 3-2. Sóknarleikurinn gekk erfiðlega gegn þéttri vörn Króata og Viktor Gísli byrjaði ekki stórkostlega eins og í síðustu leikjum, heldur fóru öll skot inn. Þriggja marka hámarksmunurinn sem Íslendingar óttuðust var strax kominn, 5-2 eftir sjö og hálfa mínútu, og heimamenn fullir sjálfstrausts. Fyrirliðinn Aron Pálmarsson vonsvikinn á gólfinu í Zagreb í kvöld.VÍSIR/VILHELM Það voru ekki liðnar tíu mínútur þegar Aron, Gísli og Elliði komu inn á, í stöðunni 6-4, og í stað jákvæðu áhrifanna úr síðustu leikjum byrjaði Gísli á að gefa boltann til Króata. Áfram skoruðu Króatar úr hverju skoti og Björgvin Páll kom inn á fyrir Viktor Gísla. Snorri Steinn hafði fengið nóg þegar Króatar komust í 9-4 eftir korters leik, og tók leikhlé. Ósáttur við fjóra tapaða bolta í sókninni og eflaust einnig 0% markvörslu. Elliði skoraði í næstu sókn, eftir línusendingu Arons, en áfram skoruðu Króatar hins vegar að vild. Elvar Örn Jónsson í orðaskiptum við Igor Karacic.VÍSIR/VILHELM Króatar náðu sjö marka forskoti, 12-5, en Aron svaraði með neglu og Orri skoraði svo sitt þriðja mark og minnkaði muninn í 12-7. Fyrsta markvarsla Íslands kom svo eftir tæpar átján mínútur (!) en boltinn hrökk af Björgvini til Króata sem komust í 13-7. Domagoj Duvnjak mætti síðan inn á við mikinn fögnuð, eftir allt leikritið um það að hann væri meiddur og úr leik á mótinu. Hann byrjaði á að grýta boltanum út í horn og úr varð sirkusmark; 15-9. Króatar héldu svo áfram að skora að vild, annað hvort af línunni eða með því einfaldlega að stökkva upp fyrir utan og skjóta. Á meðan markvarsla Íslands var við frostmark, í takti við afskaplega daufa vörn, var Dominik Kuzmanovic mjög góður í marki Króata með kröftuga vörn fyrir framan sig. Snorri Steinn Guðjónsson reynir að koma mönnum í gang í fyrri hálfleiknum, búinn að taka Viktor Gísla af velli.VÍSIR/VILHELM Ísland, sem fékk á sig 24 mörk gegn Egyptalandi og 18 gegn Slóveníu, endaði á að fá á sig heil tuttugu mörk í fyrri hálfleiknum einum og var átta mörkum undir að honum loknum, 20-12, eftir að Kuzmanovic varði frá Orra í hraðaupphlaupi á síðustu sekúndu. Útlitið batnaði ekki í upphafi seinni hálfleiks. Viktor mætti reyndar aftur í markið og varði fljótt sín fyrstu skot í leiknum, við mikinn fögnuð fjölmargra stuðningsmenna í fullsetinni höllinni, en Króatar komust níu mörkum yfir. Þrátt fyrir að Viktor kæmist smám saman í gang þá gekk íslenska liðinu ekki að minnka muninn. Hann hélst í 8-9 mörkum, og fór í tíu mörk korteri fyrir leikslok, 27-17. Ekkert benti til þess að það tækist að hleypa spennu í leikinn, og öll tækifæri til þess voru afþökkuð pent eins og þegar Viggó lét stela af sér boltanum og Króatar komust í 28-18. Það var uppselt í höllinni í Zagreb og nú eru Króatar eflaust ánægðir með Dag Sigurðsson sem hefur verið gagnrýndur nokkuð.vísir/Vilhelm Viktor komst enn betur í gang og langar sóknir Króata hættu að skila mörkum, svo Ísland náði að minnka muninn í sjö mörk, 28-21, þegar enn voru um tíu mínútur eftir. Mögulega nægur tími til að minnka muninn í þrjú mörk og láta kvöldið enda frábærlega. En Sigvaldi skaut svo í slá og Kuzmanovic varði frá Viggó. Þetta var bara ekki leikur okkar manna. Á lokamínútunum var möguleikinn úr sögunni og Króatía vann að lokum með sex mörkum, 32-26. Viðtöl, einkunnir, pistill og fleira til á leiðinni frá Zagreb hingað á Vísi. Landslið karla í handbolta HM karla í handbolta 2025
Eftir skelfilegt tap gegn Króatíu í Zagreb í kvöld veltur draumur Íslands um sæti í 8-liða úrslitum á HM á hjálp frá Slóveníu á sunnudaginn. Króatar voru átta mörkum yfir eftir ótrúlegan fyrri hálfleik, 20-12, og unnu að lokum 32:26. Staðan í milliriðli Íslands. Aðeins efstu tvö liðin komast í 8-liða úrslit og séu tvö eða fleiri lið jöfn ráða innbyrðis úrslit lokastöðu þeirra. Ef Króatía, Egyptaland og Ísland enda jöfn eftir lokaumferðina á sunnudag verður Ísland því í 3. sæti, eftir tapið stóra í kvöld.Vísir Sigur í kvöld hefði tryggt Íslandi efsta sætið í milliriðli fjögur, og leik líklega við Ungverja í 8-liða úrslitum. Sem sagt góða möguleika á sæti í undanúrslitum og leik um verðlaun á mótinu. Sú varð alls ekki raunin. Til að komast í 8-liða úrslit hefði Ísland mátt við að hámarki þriggja marka tapi en nú er staðan sú að ef Ísland, Króatía og Egyptaland enda saman efst og jöfn verður Ísland neðst þeirra þriggja vegna innbyrðis úrslita (Ísland vann þriggja marka sigur á Egyptum sem unnu Króata með fjögurra marka mun). Þetta gerist ef Króatía vinnur Slóveníu á sunnudaginn, Egyptaland vinnur Grænhöfðaeyjar og Ísland vinnur Argentínu. Íslenskir stuðningsmenn bjuggust við meira í kvöld.VÍSIR/VILHELM Þrátt fyrir að hafa unnið fyrstu fjóra leiki sína á mótinu er íslenska landsliðið sem sagt komið í þá stöðu að falla úr leik nema að það vinni Argentínu, og Slóvenía nái í jafntefli eða sigur gegn Króatíu (og svo geta mestu bjartsýnismenn vonast eftir því að Grænhöfðaeyjar nái í stig gegn Egyptalandi en það er útilokað). Við verðum bara að treysta á Slóvena, sem hins vegar ekki eiga lengur möguleika á að komast í 8-liða úrslit. Er ekki hægt að lofa þeim góðum gjöfum? Laxveiðiferð til Íslands? Viktor Gísli Hallgrímsson varði ekki skot í fyrri hálfleik en stóð sig hins vegar vel í seinni hálfleiknum.VÍSIR/VILHELM Það fór allt úrskeiðis sem hugsast gat í kvöld. Ísland hefði alveg mátt við tapi gegn Króatíu ef Slóvenía hefð bara náð í stig gegn Egyptalandi, en það klikkaði út af furðulegum leiktafardómi í lok leiks. Og það var eins og þessi vonbrigði smituðust inn í leik Íslands gegn Króatíu því leikur liðsins, eða að minnsta kosti vörn og sérstaklega markvarsla, styrkleikinn í síðustu leikjum, var í molum. Snorri byrjaði sem fyrr með sterkt varnarlið á vellinum, með þá Elvar, Janus og Viggó í útilínunni, Orra og Óðin í hornunum, og Ými á línunni. Króatar komust í fyrsta sinn yfir eftir sex mínútna leik, 3-2. Sóknarleikurinn gekk erfiðlega gegn þéttri vörn Króata og Viktor Gísli byrjaði ekki stórkostlega eins og í síðustu leikjum, heldur fóru öll skot inn. Þriggja marka hámarksmunurinn sem Íslendingar óttuðust var strax kominn, 5-2 eftir sjö og hálfa mínútu, og heimamenn fullir sjálfstrausts. Fyrirliðinn Aron Pálmarsson vonsvikinn á gólfinu í Zagreb í kvöld.VÍSIR/VILHELM Það voru ekki liðnar tíu mínútur þegar Aron, Gísli og Elliði komu inn á, í stöðunni 6-4, og í stað jákvæðu áhrifanna úr síðustu leikjum byrjaði Gísli á að gefa boltann til Króata. Áfram skoruðu Króatar úr hverju skoti og Björgvin Páll kom inn á fyrir Viktor Gísla. Snorri Steinn hafði fengið nóg þegar Króatar komust í 9-4 eftir korters leik, og tók leikhlé. Ósáttur við fjóra tapaða bolta í sókninni og eflaust einnig 0% markvörslu. Elliði skoraði í næstu sókn, eftir línusendingu Arons, en áfram skoruðu Króatar hins vegar að vild. Elvar Örn Jónsson í orðaskiptum við Igor Karacic.VÍSIR/VILHELM Króatar náðu sjö marka forskoti, 12-5, en Aron svaraði með neglu og Orri skoraði svo sitt þriðja mark og minnkaði muninn í 12-7. Fyrsta markvarsla Íslands kom svo eftir tæpar átján mínútur (!) en boltinn hrökk af Björgvini til Króata sem komust í 13-7. Domagoj Duvnjak mætti síðan inn á við mikinn fögnuð, eftir allt leikritið um það að hann væri meiddur og úr leik á mótinu. Hann byrjaði á að grýta boltanum út í horn og úr varð sirkusmark; 15-9. Króatar héldu svo áfram að skora að vild, annað hvort af línunni eða með því einfaldlega að stökkva upp fyrir utan og skjóta. Á meðan markvarsla Íslands var við frostmark, í takti við afskaplega daufa vörn, var Dominik Kuzmanovic mjög góður í marki Króata með kröftuga vörn fyrir framan sig. Snorri Steinn Guðjónsson reynir að koma mönnum í gang í fyrri hálfleiknum, búinn að taka Viktor Gísla af velli.VÍSIR/VILHELM Ísland, sem fékk á sig 24 mörk gegn Egyptalandi og 18 gegn Slóveníu, endaði á að fá á sig heil tuttugu mörk í fyrri hálfleiknum einum og var átta mörkum undir að honum loknum, 20-12, eftir að Kuzmanovic varði frá Orra í hraðaupphlaupi á síðustu sekúndu. Útlitið batnaði ekki í upphafi seinni hálfleiks. Viktor mætti reyndar aftur í markið og varði fljótt sín fyrstu skot í leiknum, við mikinn fögnuð fjölmargra stuðningsmenna í fullsetinni höllinni, en Króatar komust níu mörkum yfir. Þrátt fyrir að Viktor kæmist smám saman í gang þá gekk íslenska liðinu ekki að minnka muninn. Hann hélst í 8-9 mörkum, og fór í tíu mörk korteri fyrir leikslok, 27-17. Ekkert benti til þess að það tækist að hleypa spennu í leikinn, og öll tækifæri til þess voru afþökkuð pent eins og þegar Viggó lét stela af sér boltanum og Króatar komust í 28-18. Það var uppselt í höllinni í Zagreb og nú eru Króatar eflaust ánægðir með Dag Sigurðsson sem hefur verið gagnrýndur nokkuð.vísir/Vilhelm Viktor komst enn betur í gang og langar sóknir Króata hættu að skila mörkum, svo Ísland náði að minnka muninn í sjö mörk, 28-21, þegar enn voru um tíu mínútur eftir. Mögulega nægur tími til að minnka muninn í þrjú mörk og láta kvöldið enda frábærlega. En Sigvaldi skaut svo í slá og Kuzmanovic varði frá Viggó. Þetta var bara ekki leikur okkar manna. Á lokamínútunum var möguleikinn úr sögunni og Króatía vann að lokum með sex mörkum, 32-26. Viðtöl, einkunnir, pistill og fleira til á leiðinni frá Zagreb hingað á Vísi.