Skoðun

Styrkir til Flokks fólksins

Jón Steinar Gunnlaugsson skrifar

Að gefnu tilefni er rétt að taka fram að framlög úr ríkissjóði til stjórnmálaflokka byggjast á lögum um starfsemi stjórnmálasamtaka nr. 162/2006. Á II. kafla þessara laga voru gerðar breytingar með lögum nr. 109/2021, þar sem fjallað er um „Framlög ríkis og sveitarfélaga til stjórnmálastarfsemi.“ Þar er gerð grein fyrir skilyrðum þess að stjórnmálaflokkar fái úthlutað fé úr ríkissjóði og frá sveitarfélögum.

5. gr. a. þessara laga hljóðar svo:

„Skilyrði úthlutunar á fé úr ríkissjóði og frá sveitarstjórnum er að viðkomandi stjórmálasamtök séu skráð skv. I. kafla C, hafi áður uppfyllt upplýsingaskyldu sína við ríkisendurskoðanda skv. 8. og 9. gr. og að ríkisendurskoðandi hafi birt ársreikninga þeirra.“

Fyrir liggur að Flokkur fólksins hefur þegið fé úr ríkissjóði undanfarin ár án þess að þessum skilyrðum hafi verið fullnægt. Hefur flokkurinn heldur ekki á annan hátt gert grein fyrir ráðstöfun þessa fjár, þó að fyrir liggi að hann hafi þegið framlög sem nema nokkrum hundruð milljónum króna á undanförnum árum.

Í skýrslu stjórnarráðsins um „Framlög til stjórnmálaflokka“ undanfarin ár kemur fram að Flokkur fólksins hafi fengið framlög árlega vegna áranna 2017-2024, sem nema samtals rúmlega 400 milljónum króna. Í skýrslunni segir að skilyrði úthlutunar á fé úr ríkissjóði til stjórnmálasamtaka sé að viðkomandi samtök hafi áður fullnægt upplýsingaskyldu sinni til Ríkisendurskoðunar.

Að undanförnu hafa opinberlega komið fram upplýsingar frá fyrirsvarsmanni Flokks fólksins, sem nú hefur tekið sæti í ríkisstjórn landsins, um að flokkur hennar hafi ekki uppfyllt upplýsingaskyldu sína samkvæmt lögunum, en samt sótt um og fengið (furðulegt nokk) ofangreind framlög undanfarin ár. Hér sýnist ljóst að hvorki greiðandi né þiggjandi hafi fullnægt lagaskyldum sínum. Vekur það grunsemdir um að fénu hafi ekki verið varið til þeirra þarfa sem lögin kveða á um.

Í umræðum um þetta mál að undanförnu hefur komið fram að sumir hafa talið þennan flokk hafa fullnægt skyldum sínum í þessum efnum. Þótti mér því rétt að birta framangreindar upplýsingar, sem byggðar eru á lögunum sem um þetta gilda og opinberum skýrslum um framkvæmd þeirra.

Málið snýst ekki um skráningu Flokks fólksins hjá skattinum á árinu 2016, eins og einn stuðningsmanna hans hefur talið. Það snýst um skilyrði núgildandi laga til að fá fjárframlög frá skattborgurum þessa lands.

Höfundur er lögfræðingur.




Skoðun

Sjá meira


×