„Nýlegur snjór er á Vestfjörðum og næsta sólarhring má búast við talsverðum leysingum, sérstaklega á sunnanverðum Vestfjörðum,“ segir í tilkynningu frá ofanflóðavakt Veðurstofu Íslands.
Vegunum um Raknadalshlíð og Súðavíkurhlíð á Vestfjörðum verður því lokað klukkan tíu í kvöld vegna snjóflóðahættunnar. Óvissustig tók gildi klukkan fjögur í dag.
Á sunnanverðum Austfjörðum má búast við rigningu og mikið hvassviðri. Vegna hitabreytinga og úrkomumagns eykst því hættan á blautum snjóflóðum og krapaflóðum. Óvissustig tekur gildi klukkan átta í kvöld.
Hellisheiðinni lokað og óvissustig víða
Hellisheiðinni var lokað að ganga fjögur í dag. Þrengslin eru enn opin en skafrenningur er á svæðinu og víða hvasst. Samkvæmt heimildum fréttastofu eru sterkar vindhviður og mikil rigning í Þrengslunum. Að minnsta kosti fjórir bílar hafa farið út af veginum.
Einnig fór vörubíll út af veginum í beygju nálægt Hveragerði og þurfti kranabíl til að hífa hann aftur upp á veginn.
Krýsuvíkurvegur er einnig lokaður vegna veðurs.
Þá hefur einnig öllum vegum á norðanverðu Snæfellsnesi verið lokað og allir vegir á sunnanverðu Snæfellsnesi eru á óvissustigi. Vatnaleið er ófærð vegna veðurs ásamt Fróðárheiði.
Á Vestfjörðum eru Kleifaheiði og Dynjandisheiði lokaðar ásamt fyrrnefndum lokunum Súðavíkurhlíðar og Raknadalshlíðar klukkan tíu.
Öxnadalsheiði er á óvissustigi og getur því lokað með skömmum fyrirvara. Einnig er óvissustig á Möðrudalsöræfi
Þónokkrir vegir eru á óvissustigi og gæti verið lokað með skömmum fyrirvara. Þar á meðal er Brattabrekka, Holtavörðuheiði, Öxnadalsheiði og Mývatnsöræfi.
Veðurviðvaranir um allt land
Þegar þetta er ritað að ganga sex eru appelsínugular veðurviðvaranir í gildi á Suðausturlandi, í Breiðafirði og á Miðhálendi. Alls staðar annars staðar eru gular viðvaranir í gildi.
Klukkan fimm aðfaranótt laugardags fer appelsínugul viðvörun í gildi á Norðurlandi vestra. Klukkan sjö á laugardagsmorgun verður einnig appelsínugul viðvörun á Vestfjörðum.
Allar viðvaranir verða felldar úr gildi klukkan ellefu á laugardag.

Fréttin hefur verið uppfærð.