Körfubolti

Sigurður stýrir báðum liðum Kefla­víkur

Valur Páll Eiríksson skrifar
Sigurður Ingimundarson stýrir bæði karla- og kvennaliði Keflavíkur til loka tímabils.
Sigurður Ingimundarson stýrir bæði karla- og kvennaliði Keflavíkur til loka tímabils. Vísir/Diego

Keflavík hefur ráðið Sigurð Ingimundarson sem þjálfara karlaliðs félagsins í körfubolta. Sigurður mun stýra liðinu samhliða kvennaliði félagsins.

Keflvíkingar hafa verið í þjálfaraleit í tæpa viku eftir að Pétur Ingvarsson sagði upp störfum sem þjálfari karlaliðsins í byrjun vikunnar. Pavel Ermolinskij var meðal annars orðaður við starfið en Vísir greindi frá því fyrr í vikunni að það kæmi til greina að Sigurður myndi taka við karlaliðinu samhliða kvennaliðinu.

Það hefur nú verið staðfest og greina Víkurfréttir frá.

Jón Halldór Eðvaldsson, kemur inn í þjálfarateymi kvennaliðsins með Sigurði, og þá verður Magnús Þór Gunnarsson áfram aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla.

Keflavík tapaði fyrsta leik eftir fráhvarf Péturs á fimmtudaginn var, 90-81 fyrir ÍR á heimavelli. Gengi Keflvíkinga hefur verið undir væntingum en gríðarmikið hefur verið lagt í leikmannahóp liðsins.

Tveir nýir erlendir leikmenn komu undir lok leikmannagluggans og hafa nú tveir vikið. Þeir Jarell Reischel og Marek Dolezaj eru á heimleið og hafa yfirgefið Keflavíkurliðið. Erlendum leikmönnum liðsins fækkar því úr átta í sex.

Fyrsti leikur Keflavíkur undir stjórn Sigurðar verður á fimmtudaginn kemur. Keflvíkingar sækja Hauka heim í Ólafssal en Haukar sitja á botni deildarinnar.

Keflavík er í 10. sæti með 14 stig, tveimur stigum frá sæti í úrslitakeppninni. Keflavík hefur ekki misst af sæti í úrslitakeppni Íslandsmótsins síðan árið 1985.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×