Innlent

Hefja form­legar við­ræður um meirihlutastamstarf í borginni

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Oddvitar flokkanna fimm við Tjörnina.
Oddvitar flokkanna fimm við Tjörnina. aðsend

Fimm stjórnmálaflokkar hafa ákveðið að hefja formlegar viðræður um samstarf í borgarstjórn Reykjavíkur. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna, sendir fyrir hönd oddvita VG, Sósíalista, Pírata, Samfylkingar og Flokks fólksins.

„Fimm flokkar í borgarstjórn Reykjavíkur hafa ákveðið að hefja formlegar viðræður um samstarf á nýjum grunni. Markmið okkar er að setja velferð og lífskjör allra Reykvíkinga í forgrunn.

Við ætlum að vanda vel til verka og munum upplýsa um gang mála eftir því sem vinnan þróast,“ segir í tilkynningu. 

Undir tilkynninguna rita Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalistaflokks Íslands, Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna, Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata og Heiða Björg Hilmisdóttir, oddviti Samfylkingarinnar. Tekið er sérstaklega fram að röð nafna undirritaðra sé „slembivalin“.

Líkt og kunnugt er sleit Einar Þorsteinsson borgarstjóri og oddviti Framsóknarflokksins meirihlutasamstarfi Framsóknar, Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata síðastliðið föstudagskvöld. Þá lá í loftinu að Einar myndi hefja viðræður við Sjálfstæðisflokkinn, Viðreisn og Flokk fólksins um myndun nýs meirihluta. Sá möguleiki var þó fljótlega úr sögunni þegar Flokkur fólksins lýsti því yfir strax á laugardag að flokkurinn myndi ekki taka þátt í samstarfi með Sjálfstæðisflokknum.

Fréttin verður uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×