Í tilkynningu frá Sameyki kemur jafnframt fram að hástökkvari ársins í könnun um stofnun ársins séu íbúðakjarninn Rökkvaborg hjá borg og bæjum og menningar- og viðskiptaráðuneytið hjá ríkinu.
Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu tilkynnti um valið við hátíðlega athöfn fyrr í dag. Titlana Stofnun ársins 2024 hljóta þær stofnanir og starfsstaðir sem þykja skara fram úr á sviði mannauðsmála að mati starfsfólks.
Í ár tóku rúmlega 17.000 manns þátt í könnuninni sem var framkvæmd í október og nóvember 2024. Reykjavíkurborg er þátttakandi í könnuninni með allt sitt starfsfólk í þriðja sinn en allt starfsfólk hjá ríkinu hefur tekið þátt síðan 2011.

Stofnun ársins er samstarfsverkefni Sameykis, Fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Reykjavíkurborgar og fjölmargra annarra stofnana og vinnustaða, en hún nær til um 35.000 manns sem starfa á opinberum vinnumarkaði. Niðurstöður könnunarinnar veita bæði mikilvægar upplýsingar um starfsumhverfi vinnustaða og samanburð við aðrar stofnanir.
Í tilkynningu frá Sameyki segir að tilgangurinn með valinu sé að taka eftir og veita þeim vinnustöðum viðurkenningar sem náð hafi framúrskarandi árangri við stjórnun mannauðs. Þá nýtist könnunin stjórnendum til að vinna að frekari umbótum í stjórnun og starfsumhverfi vinnustaðanna. Að lokum veitir könnunin aðhald til hagsbóta fyrir starfsfólk, skjólstæðinga, viðskiptavini og aðra hagsmunaaðila.
Niðurstöðurnar voru kynntar að loknu málþingi um mannauðsmál og var yfirskrift þess Jákvæð vinnustaðamenning. Fyrirlesarar á málþinginu voru: Auðunn Gunnar Eiríksson, stjórnenda- og vinnustaðaráðgjafi hjá Gallup, Hjördís Dröfn Vilhjálmsdóttir og Kristrún Anna Konráðsdóttir, leiðtoga- og teymisþjálfari, Tómas Bjarnason, doktor í félagsfræði, og Þórkatla Aðalsteinsdóttir, sálfræðingur. Málþingsstjóri var Sirrý Arnardóttir.
Fréttin hefur verið leiðrétt. Í fyrirsögn stóð fyrst FSU sem átti að vera FS. Leiðrétt klukkan 10 þann 14.2.2025.