Brighton skellti Chelsea ný­búnir að slá þá út úr bikarnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Yankuba Minteh skoraði tvívegis fyrir Brighton & Hove Albion í kvöld og hér fagnar hann seinna marki sínu.
Yankuba Minteh skoraði tvívegis fyrir Brighton & Hove Albion í kvöld og hér fagnar hann seinna marki sínu. Getty/Mike Hewitt

Brighton vann í kvöld sinn annan sigur á Chelsea á aðeins sex dögum þegar liðið vann 3-0 heimasigur í leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni.

Brighton vann 2-1 sigur í bikarleik liðanna um síðustu helgi en að þessu sinni var sigurinn mun öruggari.

Frammistaða Chelsea í kvöld er áhyggjuefni enda hefur liðið aðeins unnið tvo af síðustu sex leikjum sínum í öllum keppnum.

Eftir sigurinn er Brighton í áttunda sæti deildarinnar, ofar en Aston Vlla á markatölu. Chelsea er í fjórða sæti en getur misst það til bæði Manchetser City eða Newcastle um helgina.

Brighton komst í 2-0 í fyrri hálfleiknum en inn á milli markanna komu Chelsea menn boltanum í markið.

Mark Enzo Fernandez var hins vegar dæmt af eftir bakhrindingu, harður dómur, og skömmu síðar lá boltinn aftur í marki Chelsea.

Fyrsta mark leiksins var snilldarafgreiðsla hjá Kaoru Mitoma eftir langt útspark markvarðarins Bart Verbruggen. Mitoma tók frábærlega við boltanum og skoraði laglega.

Brighton 1-0 yfir á 27. mínútu og Yankuba Minteh kom liðinu síðan í 2-0 á 38. mínútu eftir stoðsendingu frá Danny Welbeck.

Welbeck lagði líka upp þriðja markið fyrir Minteh á 63. mínútu.

Eftir það var Brighton nær því að bæta við fjórða markinu en Chelsea að minnka muninn.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira