Hinn 47 ára gamli McCarthy er unnendum enska boltans kunnugur eftir að hafa spilað með Blackburn Rovers og West Ham United frá 2006 til 2011. Þá lék hann fyrir félög á borð við Ajax, Celta Vigo og Porto á annars glæstum ferli ásamt því að skora 31 mark í 79 leikjum fyrir A-landslið Suður-Afríku.
Frá 2022 til 2024 var McCarthy hluti af þjálfarateymi Ten Hag hjá Man United og hefur nú opinberað að Harry Kane hafi verið efstur á óskalista þjálfarateymisins sumarið 2023. Það var vitað að Kane væri að hugsa sér til hreyfings og Man United hafði farið alla leið í úrslit ensku bikarkeppninnar, náð Meistaradeildarsæti og unnið enska deildarbikarinn tímabilið á undan.

McCarthy segir hins vegar að forráðamenn félagsins hafi ekki verið tilbúnir að borga uppsett verð – í kringum 95 milljónir evra (tæplega 14 milljarða íslenskra króna) – fyrir framherja sem var yfir þrítugt.
McCarthy sagði jafnframt að Randal Kolo Muani, sem er nú á láni hjá Juventus frá París Saint-Germain, og Victor Osimhen, sem er nú á láni hjá Galatasaray frá Napoli, hafi einnig verið á óskalistanum.
Á endanum ákvað Man United þó að kaupa hinn unga Rasmus Höjlund frá Atalanta á Ítalíu. Danski framherjinn hefur ekki átt sjö dagana sæla vegna mikilla meiðsla og þá hafa mörkin – sem og færin - verið af skornum skammti.
Kane hefur á sama tíma skorað 73 mörk í 75 leikjum fyrir Bayern.