Vísir á landsfundi: Þúsund handabönd og þunnir stuðningsmenn Vésteinn Örn Pétursson og Árni Sæberg skrifa 5. mars 2025 07:03 Það mátti ekki miklu muna á því að grátur Áslaugar hefði getað orðið hlátur. Munurinn var rétt rúmt prósentustig. Vísir/Anton Brink Ólöglega lagðir bílar, hjartnæm kveðjustund formanns, endurtalning vegna tæpustu kosningaúrslita sem um getur, kampavínsbjalla, bann við lausagöngu Framsóknarmanna, táraflóð, taumlaus gleði og baráttuandi eru allt orð sem koma upp í hugann þegar landsfundur Sjálfstæðisflokksins um liðna helgi er gerður upp. Vísir var á landsfundi. Óhætt er að segja að stemningin á 45. landsfundi Sjálfstæðisflokksins, sem fram fór um helgina í Laugardalshöll, hafi verið marglaga. Öðrum þræði snerist fundurinn um að líta yfir farinn veg og þakka fyrir það liðna, en þegar líða tók á fundinn var horft til framtíðar. Skoðanir fundarmanna á framtíðinni voru skiptar, nánast alveg til jafns. Landsfundurinn hófst formlega síðastliðinn föstudag þegar Bjarni Benediktsson, þá formaður flokksins, setti fundinn með ógnarlangri ræðu þar sem hann leit um farinn veg. Undirritaðir fóru, fyrir setningu fundarins, niður í Laugardalshöll til þess að sækja fjölmiðlapassa sína. Þeir voru lykillinn að því að fá að vera á svæðinu og drekka í sig stemninguna. Tómas Þór Þórðarson, aðstoðarmaður þingflokks, og Þórður Þórarinsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, ræða hér saman. Þeir léku báðir lykilhlutverk í framkvæmd fundarins.Vísir/Anton Brink Þegar í Laugardalshöll var komið, um klukkan hálf tvö var þegar nokkur röð farin að myndast við innritunarborðið. Meðal þeirra sem biðu þess að innrita sig var Guðmundur Kristjánsson, útgerðarmaður kenndur við Brim. Þeir sem hér skrifa voru hins vegar teknir fram fyrir röð landsfundargesta af Tómasi Þór Þórðarsyni, áður sparkspekingi en nú aðstoðarmanni þingflokks Sjálfstæðisflokksins. „Ég drep ykkur ef þið skilið þessu ekki á sunnudaginn,“ sagði Tómas í gamansömum tón þegar hann afhenti blaðamönnum, sem töldu litla alvöru bakvið þessa hótun, rauða fjölmiðlapassa á gulu bandi. Þessi orð voru blaðamönnum þó fersk í minni þegar þeir yfirgáfu höllina á sunnudag. Þeir þorðu því ekki öðru en að skila pössunum í þar til gerða kassa við útganginn, þar sem landsfundarfulltrúar skiluðu einnig sínum bláu og hvítu pössum. Ótrúleg samkoma, sama hvað hver segir Förinni var aftur heitið í höllina á fimmta tímanum, rétt fyrir setningarræðu Bjarna. Við komuna mátti öllum viðstöddum vera ljóst að öllu skyldi tjaldað til. Heilu herirnir af uppáklæddu Sjálfstæðisfólki streymdu að og af fjöldanum að dæma er hálf ótrúlegt til þess að hugsa að færri hafi komist að en vildu, slíkur var fjöldinn. Raunar er áætlað að um 2.200 gestir hafi sótt fundinn, sem ku vera einhvers konar met. Það var í það minnsta mál manna á fundinum að vel hafi verið mætt. Laugardalshöll var stappfull. Vísir/Anton Brink Langborð á langborð ofan fylltu stærsta sal hallarinnar og setið var í öllum sætum. Eftirvæntingin eftir síðustu ræðu Bjarna í hlutverki formanns, og fundinum öllum, var áþreifanleg. Annað sem heyra mátti á fundarmönnum var hversu ofboðsleg spenna ríkti fyrir eiginlegum hápunkti landsfundarins, formannskjörinu á sunnudeginum. Þar tókust á Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Guðrún Hafsteinsdóttir, báðar þingmenn flokksins og fyrrverandi ráðherrar. Enginn sem undirritaðir ræddu við sagðist viss um hvor þeirra kæmi til með að standa uppi sem sigurvegari. Miðað við umræðuna stefndi í að mjótt yrði á munum. Sú reyndist raunin, en nánar um það síðar. Áður en farið verður í saumana á formannskjörinu og aðdraganda þess verður gerð heiðarleg tilraun til þess að lýsa stemningunni á fundinum. Það verður ekki annað sagt en að um mjög tilkomumikla samkomu hafi verið að ræða, og ljóst að hún á sér enga hliðstæðu í íslenskum stjórnmálum. Gleðin var við völd meðal fólks á fremsta bekk. Vísir/Anton Brink Það var ekki að sjá á neinum í salnum að Sjálfstæðisflokkurinn væri í verri stöðu en oftast áður, utan helstu áhrifastaða bæði í lands- og borgarmálunum. Fyrir öllum þeim sem sæti áttu á fundinum var flokkurinn mestur, bestur og stærstur. Mögulega er það ágætt veganesti inn í það sem framundan er hjá flokknum. Þar eru uppbyggingarstarf, stefnumótun og nýliðun upphaf og endir alls, ef marka má nánast alla sem rætt var við á fundinum. Andstæðingarnir sem skópu Bjarna Áður en ræða Bjarna hófst síðdegis á föstudag var spilað myndband þar sem stiklað var á afar stóru frá ferli Bjarna sem formaður. Þar var farið yfir þegar hann hafði betur gegn Kristjáni Þór Júlíussyni í formannsslag árið 2009, myndaði hinar ýmsu ríkisstjórnir og stóð almennt í ströngu. Eins og Sjálfstæðismanna er von og vísa stóðu þeir upp úr sætum sínum og hylltu formanninn þegar hann gekk inn á sviðið. Bjarni fór, vægast sagt, um víðan völl í ræðu sinni og talaði í um klukkustund. Hann þakkaði ýmsu samstarfsfólki sínu fyrir vel unnin störf, fór yfir árangur sem hafði náðst á tíma hans í ríkisstjórn, skaut duglega á núverandi ríkisstjórn og þakkaði sérstaklega pólitískum andstæðingum sínum. Þá taldi Bjarni hafa, án þess að þeir vissu það, hjálpað honum hvað mest; meitlað sannfæringu hans og gert hann að stjórnmálamanninum sem hann væri í dag. Bjarni Benediktsson þakkaði pólitískum andstæðingum sínum fyrir að hafa gert hann að þeim stjórnmálamanni sem hann síðar varð. Þeir hafi hjálpað honum að meitla sannfæringuna með því að skrattast sífellt í honum.Vísir/Vilhelm „Þau sem voru mér erfiðust, þau eiginlega bjuggu til þetta pólitíska dýr úr mér, sem entist þetta lengi,“ sagði Bjarni við mikla kátínu landsfundargesta. Það mátti síðan varla sjá þurrt auga í salnum þegar Bjarni lauk ræðunni á því að biðja Þóru Margréti Baldvinsdóttur, eiginkonu Bjarna sem hann sagði hafa staðið með sér eins og klettur í gegnum súrt og sætt, um að koma upp á svið til sín. Það gerði Þóra og leiddi svo Bjarna sinn út af hinu pólitíska sviði, eins og hann sjálfur komst að orði. Að lokinni ræðu Bjarna hélt málefnastarf áfram, áður en Sjálfstæðismenn slettu úr klaufunum á hinum ýmsu móttökum, og einhverjir í landsfundarteiti Sambands ungra Sjálfstæðismanna, sem entist langt fram á nótt samkvæmt heimildum undirritaðra. Nóg af stæðum Þegar í Laugardalshöllina var komið á laugardag var nóg af stæðum fyrir utan höllina. Verst var að það voru bílar í þeim öllum, og víðar. Því afréðu undirritaðir að ganga í höllina af Suðurlandsbraut 10, þar sem fréttastofan er staðsett. Sú ganga var köld og blaut, enda allra veðra von á þessum árstíma. Þeirri göngu lauk þó fljótt og þegar inn var gengið var í þann mund að hefjast dagskrárliður undir yfirskriftinni „Formaður kvaddur“. Það var sem sagt ekki nóg að Bjarni fengi að kveðja fundinn, heldur átti fundurinn líka að kveðja Bjarna. Sá dagskrárliður hófst á langri en nokkuð almennri ræðu Björns Bjarnasonar fyrrverandi ráðherra, um störf og feril Bjarna frá því hann tók sæti á þingi árið 2003. Stundum leið manni eins og frásögnin væri í rauntíma, það er að segja, jafn löng og stjórnmálaferill Bjarna. Björn Bjarnason sá fundargestum fyrir ítarlegri upprifjun á ferli Bjarna Benediktssonar. Vísir/Anton Brink Við tók tvískipt pallborð undir stjórn Hersis Arons Ólafssonar, sem hefur verið aðstoðarmaður Bjarna frá árinu 2020. Í fyrri umferð ræddi Hersir við Illuga Gunnarsson, Ragnheiði Elínu Árnadóttur og Kristján Þór Júlíusson, allt fyrrverandi ráðherrar flokksins, um feril Bjarna og samstarfið við hann. Í seinni umferð ræddi Hersir við Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, fráfarandi varaformann og fyrrverandi ráðherra, Sigurð Kára Kristjánsson, fyrrverandi þingmann, og Ásthildi Sturludóttur, bæjarstjóra á Akureyri. Í pallborðsumræðum þótti undirrituðum standa upp úr að heyra að Bjarni ætti það til, á undarlegustu stundum, að syngja lagið Despacito. Við nánari eftirgrennslan kemur í ljós að Bjarni hefur áður opnað sig um að honum þyki það eitt besta lag tónlistarsögunnar. Hersir Aron, fyrrverandi aðstoðarmaður Bjarna, stýrði pallborði þar sem farið var yfir störf hans og feril.Vísir/Anton Brink Á milli holla voru svo spiluð ýmis myndbönd sem skipuleggjendur fundarins höfðu fengið samferðamenn Bjarna til að senda honum í tilefni af tímamótunum. Þarna brá fyrir, auk ýmissa Sjálfstæðismanna, Guðna Ágústssyni, fyrrverandi formanni Framsóknar, Árna Páli Árnasyni, fyrrverandi formanni Samfylkingarinnar, og Vilhjálmi Birgissyni, formanni Verkalýðsfélags Akraness. Sá síðastnefndi þakkaði Bjarna kærlega fyrir að hafa veitt hvalveiðileyfi til næstu fimm ára, en það hefur verið Vilhjálmi og hans félagsmönnum mikið hjartans mál að mega veiða hvali. Um leið og hann gerði það brosti Kristján Loftsson, forstjóri og stærsti eigandi Hvals hf., sínu albreiðasta brosi á þarnæsta borði við fjölmiðlaborðið. Kristján Loftsson útgerðarmaður sést hér brúnaþungur á fundinum. Þegar talið barst að hvalveiðum og þeirri staðreynd að hægt sé að stunda þær brosti hann hins vegar út að eyrum. Það gerði hann einnig þegar hann stillti sér upp á mynd með Jens Garðari Helgasyni, þá nýkjörnum varaformanni, á sunnudeginum.Vísir/Anton Áður en dagskrárliðnum lauk var Bjarni Benediktsson kallaður upp á svið og Þórdís Kolbrún afhenti honum blómvönd. Þar sagði hún að Bjarni væri, þrátt fyrir að búa yfir ýmsum mannkostum sem rifjaðir hefðu verið upp á fundinum, fyrst og fremst „drengur góður“. Þar með hafði Bjarni kvatt fundinn, og fundurinn hann. Með vindinn í fangið Þegar hér er komið sögu má segja að skipt hafi verið algjörlega um gír. Fundargestir höfðu eytt dágóðum tíma í að líta um öxl, einkum og sér í lagi yfir feril fráfarandi formanns, en nú var komið að því að snúa sér að framtíðinni. Það var komið að ræðum frambjóðenda til formanns, varaformanns og ritara. Nokkuð sem margir sögðu að myndi ráða úrslitum í baráttunni um fyrrnefndu embættin tvö. Formannsframbjóðendir voru fyrstir, og Guðrún Hafsteinsdóttir reið á vaðið samkvæmt slembivali. „Núna erum við stödd í krefjandi kafla í sögu Sjálfstæðisflokksins. Við erum með vindinn í fangið. Við höfum tapað trausti og við upplifum að flokkurinn hafi fjarlægst sig. Eins og einn fyrrum Sjálfstæðismaður vestur á fjörðum sagði við mig um daginn: ég yfirgaf aldrei Sjálfstæðisflokkinn, Sjálfstæðisflokkurinn yfirgaf mig. En sögunni er ekki lokið, því við Sjálfstæðismenn gefumst aldrei upp. Og við lítum aldrei undan þótt sýnin sé ófrýnileg. Við getum sótt fylgi á ný við getum stækkað flokkinn og við getum komist í bílstjórasæti íslenskra stjórnmála á nýjan leik,“ sagði Guðrún meðal annars í ræðu sinni. Hjó í kunnuglegan knérunn Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir var næst í röðinni. Í ræðu sinni fór hún hörðum orðum um ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur, og sagði hana standa í vegi fyrir hagvexti, einfaldara regluverki og sjálfstæði þjóðarinnar. Áslaug lagði áherslu á sameiningu flokksins í ræðu sinni. „Það er nákvæmlega þetta sem vinstri menn hræðast, fullur salur af kraftmiklu fólki sem hefur trú á Sjálfstæðisstefnunni,“ sagði Áslaug í upphafi ræðu sinnar. „Verkefni okkar er skýrt, við eigum að tala skýrar fyrir sjálfstæðisstefnunni, vera óhrædd og stolt í að sýna sjálfstæðisstefnuna í verki. Þannig verður Sjálfstæðisflokkurinn aftur stór, þannig náum við árangri fyrir Ísland,“ sagði hún. Geimverur, kettir og Bjöggi Thor Þá var aðeins einn formannsframbjóðandi eftir. Það var gjörningalistamaðurinn Snorri Ásmundsson. Hann átti ekki sæti á landsfundinum sjálfum en fékk engu að síður að vera viðstaddur sem frambjóðandi, með gestapassa. Þá fékk hann að halda ræðu, allt að 20 mínútur að lengd, eins og aðrir formannsframbjóðendur. Í ræðu Snorra kenndi ýmissa, óvæntra, grasa. Geimverur, norðlenskir kettir, og sjálfur Jesús Kristur voru meðal þess sem Snorri gerði að umræðuefni sínu, auk þess að láta salinn syngja með sér, sama lagið tvisvar. Hann lofaði líka að gera Björgólf Thor að fjármálaráðherra, af einhverjum ástæðum. Sjón er sögu ríkari en ræðu Snorra má finna hér að ofan. Réðu ræður úrslitum? Segja má að alvaran hafi fyrst tekið við á fundinum þegar ræðuhöld frambjóðenda hófust. Fundarmenn hlustuðu af sérstakri athygli á ræður Guðrúnar og Áslaugar, og nokkuð ljóst að fólk beið með öndina í hálsinum eftir því að þær sviptu hulunni almennilega af framtíðarsýninni, sem hefur verið sveipuð örlítilli dulúð hjá þeim báðum í aðdraganda formannskjörs. Það skal alfarið ósagt látið hversu mikil áhrif ræðurnar höfðu í raun og veru, en undirritaðir voru báðir sammála um að salurinn hefði tekið betur í ræðu Guðrúnar en Áslaugar, þó báðum hafi verið feykilega vel fagnað. Raunar kom upp sú umræða við fjölmiðlaborðið hvort standandi lófatak hefði ekki verið löngu gjaldfellt á fundinum, en það er önnur ella. Margir töldu að Snorri væri að grínast. Af ræðu hans mátti þó dæma að hann væri bara alls ekkert að grínast.Vísir/Anton Brink Ræðu Snorra var ívið minna fagnað en hinum tveimur, en þó uppskar Snorri standandi lófatak á einum tímapunkti. Það var þegar Snorri sagðist fullviss um að landsfundarfulltrúar myndu „redda þessu“. „Ég hlakka til að halda ræðu á morgun sem formaður Sjálfstæðisflokksins,“ sagði Snorri og ljóst að sjálfstraustið féll vel í kramið hjá landsfundargestum. Hinar ræðurnar og svo fyllerí Diljá Mist Einarsdóttir og Jens Garðar Helgason voru næst á svið og héldu hvort sína ræðuna í baráttunni um varaformannsembættið. Vilhjálmur Árnason hélt sömuleiðis stutta ræðu, en hann var einn í yfirlýstu framboði til ritara flokksins. Að svo búnu tilkynnti Birgir Ármannsson, fundarstjóri og fyrrverandi forseti Alþingis, að dagskránni væri formlega lokið í bili, þangað til að landsfundarhófi kæmi. „Landsfundarhófinu þarf reyndar að vera lokið klukkan hálf níu í fyrramálið, því þá opnar húsið aftur,“ sagði brandarakarlinn Birgir, við mikinn fögnuð viðstaddra. Undirritaðir gerðust ekki svo frægir að sækja hófið, en fengu að heyra síðar að stuðið hafi síður en svo riðið við einteyming. Bölvaður Bílastæðasjóður Síðdegis á laugardag, þegar blaðamenn gengu úr höllinni, hina blautu og köldu göngu upp á Suðurlandsbraut, mátti sjá þó nokkuð marga bíla sem lagt hafði verið í eitthvað sem best yrði lýst sem „ekki beint bílastæði“. Þessum bílum var ekki beint löglega lagt, samkvæmt þrengstu túlkun reglnanna. Eigendur uppskáru fyrir vikið sektir.Vísir/Vésteinn Eigendur viðkomandi bíla fengu bágt fyrir, í formi peningasekta frá Bílastæðasjóði. Eflaust hefur það verið Sjálf(bíla)stæðismönnunum sem átti í hlut ákveðin hvatning til að draga úr umsvifum hins opinbera og einfalda regluverk. Sjáum hvort kemur á undan, eindagi sektarinnar eða endalok Bílastæðasjóðs. Barist til síðasta handabands Ólíkt fjölda landsfundarfulltrúa sem undirritaðir ræddu við fóru blaðamenn snemma í háttinn á laugardag og mættu því eiturferskir til leiks fyrir hádegi á sunnudag, enda má segja að aðaldagurinn hafi verið á sunnudag. Það fyrsta sem vakti athygli blaðamanna þegar gengið var inn í salinn á sunnudag var að fjölmiðlaborðið hafði minnkað. Umtalsvert. Sjálfstæðismenn úr Kópavogi höfðu tekið upp á því að færa sig yfir landamærin sem Tómas Þór hafði teiknað fyrir blaðamenn, og stungið fána sínum niður þar sem áður var hvítt A4 blað sem á stóð „FJÖLMIÐLAR“. Færri fjölmiðlamenn komust því að en vildu og þurftu einhverjir að standa eða einfaldlega ganga um salinn, hálf stefnulausir. Undirritaðir voru hins vegar svo hyggnir, og mættu svo snemma, að þeir fengu báðir fínustu sæti. Stuðningsmenn og skyldmenni frambjóðenda dreifðu varningi sinna kvenna í aðdraganda kjörsins. Hér má sjá nælu frá framboði Guðrúnar og bækling með helstu stefnumálum Áslaugar.Vísir/Anton Brink Á meðan farið var yfir tillögur að breytingum á skipulagsreglum flokksins, rétt áður en kjör til formanns hófst, gengu Áslaug Arna og Guðrún Hafsteins á milli, að því er virðist, allra borða í salnum og tóku í hendur fundarmanna. Það er ljóst að hvert atkvæði var gulls ígildi á þessum tímapunkti. Þá var bara rétt að vona að veiran skæða hafi ekki leynst í lófa einhverra fundargesta. Fjölskyldumeðlimir frambjóðendanna og stuðningsmenn létu sitt ekki eftir liggja, ræddu við fólk og deildu bæklingum, nælum og pennum með merkjum sinna frambjóðenda. Eldri Sjálfstæðismenn pössuðu þrýstinginn Eftir að kjör til formanns hófst um klukkan hálf tólf hóf spennan að magnast, smátt og smátt. Til að mynda heyrðist einn eldri Sjálfstæðismaður segja að nú færi „blóðþrýstingurinn ört hækkandi“, auk þess sem óbærilega heitt var orðið inni í salnum. Kunnuglegt stef, þar sem sú var raunin á framboðsfundum bæði Áslaugar og Guðrúnar. Geir H. Haarde, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, var að sjálfsögðu á meðal viðstaddra.Vísir/Anton Brink Fréttamenn fengu þær upplýsingar frá skipuleggjendum fundarins að niðurstöður úr formannskjörinu ættu að liggja fyrir milli 12:30 og 13. „Af gefinni reynslu er þó vert að nefna að auglýstar tímasetningar um úrslit kosninga og atkvæðagreiðslna þar sem mikið er undir eru fremur viðmið en heilagur sannleikur,“ sögðu blaðamenn í fréttavakt Vísis klukkan 12:35. Raunin átti enda eftir að reynast sú að auglýst tímasetning hélt ekki alveg upp á mínútu. Stóðu á öndinni þegar Birgir leitaði bíls Rétt fyrir klukkan eitt stóð Birgir Ármannsson upp úr sæti sínu á sviðinu og steig upp í pontu. „Stóra stundin er runnin upp, úrslitin liggja fyrir,“ hugsuðu blaðamenn með sér. Salurinn þagnaði og ef maður hefði lokað augunum hefði mátt halda að maður væri aleinn inni í Laugardalshöll. Tíminn stóð hreinlega í stað. „Ég er ekki að fara að kynna úrslitin alveg strax. En ég auglýsi eftir eiganda bíls,“ sagði Birgir, og Sjálfstæðismenn gerðu heiðarlega atlögu að heimsmetinu í andvarpi án atrennu á meðan Birgir þuldi upp bílnúmer. Bíllinn ku hafa lokað aðgengi að höllinni og var eigandinn beðinn um að færa hann snöggvast. Þessi ræðustúfur Birgis vakti nokkra kátínu meðal gesta. Kampavínsbjallan glumdi á ögurstundu Á þessum tímapunkti í frásögninni er klukkan orðin rúmlega 13:00, og ljóst að auglýst tímasetning stóðst ekki. Við sögðum ykkur það. Rétt upp úr klukkan eitt fór hin svokallaða „kampavínsbjalla“ að glymja. Landssamband Sjálfstæðiskvenna hélt úti bás á fundinum þar sem boðið var upp á kampavín. Þegar kampavín var keypt hringdu Sjálfstæðiskonur forláta bjöllu, og ljóst að einhver ætlaði sér að skála þegar úrslitin lægju fyrir. „Hringið fyrir kampavín“ sagði á bás Landssambands Sjálfstæðiskvenna. Ógerningur var að telja hversu oft bjallan góða glumdi um helgina, en það var æði oft.Vísir/Anton Brink Hér er ágætis tímapunktur til að gera hlé á frásögninni, og nefna að fleiri en Sjálfstæðiskonur höfðu komið upp básum á svæðinu. Þeim við hlið hafði Samband ungra Sjálfstæðismanna komið upp fjáröflunaraðstöðu, þar sem kenndi ýmissa grasa. Bolir og bollar með myndum af Davíð Oddssyni, gleraugnaklútar með andliti Margaret Thatcher, frelsisbjór og umferðarskilti sem vöruðu við „vinstri slysum“ og lögðu blátt bann við lausagöngu Framsóknarmanna. Hér má sjá hluta góssins sem ungir Sjálfstæðismenn voru með til sölu um helgina.Vísir/Anton Brink Hvort sótt hafi verið um leyfi til sölu frelsisbjórs og kampavíns skal ósagt látið. Fulltrúar lögreglunnar voru í það minnsta hvergi sjáanlegir. Endurtalning! Jæja. Hvað sem kampavínsbjöllum og lausum Framsóknarmönnum líður er sennilega best að snúa sér aftur að formannskjörinu. Rétt upp úr klukkan eitt barst fréttamönnum til eyrna að telja þyrfti atkvæðin aftur. Stutt samtal við trausta heimildamenn staðfesti fréttirnar. Það hlaut þá að vera mjög mjótt á munum fyrst sú var raunin. Örfáum mínútum síðar stóð Birgir aftur upp úr sæti fundarstjóra og ávarpaði salinn, sem snarþagnaði öðru sinni. „Ég er ekki með úrslitin ennþá,“ segir Birgir og bað fundarmenn um að passa upp á atkvæðaseðla sína sem myndu nýtast í kjör varaformanns og ritara. Borið hafi á því að fólk hafi skilið seðlana eftir á glámbekk. „Við þurfum að bíða aðeins um sinn, en vonandi ekki svo lengi,“ sagði Birgir um úrslit í formannskjörinu, en minntist þó ekki á endurtalninguna. Ótrúleg dramatík Það var farið að örla á óþolinmæði einhverra fundargesta klukkan 13:15 þegar Birgir stóð upp í þriðja sinn, og bað fundarmenn um óskipta athygli. Þarna var öllum ljóst að komið væri að því sem beðið hafði verið eftir. Framtíð Sjálfstæðisflokksins til næstu ára yrði ljós á næstu andartökum. „Kjörstjórn hefur lokið talningu í kjöri til embættis formanns Sjálfstæðisflokksins,“ sagði Birgir og byrjaði á að greina frá því að 1.862 hefðu greitt atkvæði, og þar af hafi 1.858 atkvæði verið gild. „Atkvæði skiptast þannig: Guðrún Hafsteinsdóttir hlaut 931 atkvæði, eða 50,11 prósent af gildum atkvæðum,“ sagði Birgir. Þegar þarna er komið sögu ætlaði hreinlega allt um koll að keyra í salnum. Fólk stóð upp, klappaði, gólaði og féllst í faðma. Eftir nokkuð langa hríð, þegar fagnaðarlætin höfðu að þó langt því frá þagnað, tilkynnti Birgir að Áslaug Arna hefði fengið 912 atkvæði, eða 49,09 prósent gildra atkvæða. Þeirri tilkynningu hans var tekið af ögn meiri yfirvegun, þó salurinn hafi vissulega allur klappað. „Aðrir hlutu samtals 15 atkvæði, auðir og ógildir atkvæðaseðlar voru fjórir.“ „Ég lýsi því Guðrúnu Hafsteinsdóttur réttkjörinn formann Sjálfstæðisflokksins.“ Guðrún gekk að sviðinu og faðmaði fráfarandi forystu flokksins, Bjarna Benediktsson, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur og Vilhjálm Árnason, áður en hún hélt upp á svið undir dynjandi lófataki flokkssystkina sinna, sem aldrei virtist ætla að láta af fagnaðarlátunum. Sigur er sigur þótt naumur sé „Kæru vinir, kæru Sjálfstæðismenn. Takk, takk, takk, takk fyrir það traust sem þið eruð að sýna mér hér í dag. Takk fyrir að sýna mér hér um helgina að Sjálfstæðisflokkurinn er lang, lang öflugasta fjöldahreyfing landsins,“ sagði Guðrún í pontu eftir að úrslitin voru kunngjörð. Í ræðunni þakkaði Guðrún Áslaugu fyrir drengilega kosningabaráttu, og sagði ómetanlegt að eiga í henni sterkan og einbeittan bandamann í pólitík. Sigurræða Guðrúnar einkenndist af hugmyndum um að efla flokkinn, færa vald til flokksmanna og efla Valhöll. Kunnuglegt stef úr kosningabaráttunni, þar sem báðir frambjóðendur lögðu áherslu á að stækka flokkinn. Í viðtali við Tómas Arnar Þorláksson fréttamann eftir að sigurinn varð ljós sagði Guðrún að fyrir hafi hún talið að mjótt yrði á munum, en varla svona mjótt. „Sigur er alltaf sigur,“ sagði hún, og erfitt að mótmæla því. Hann gat hins vegar ekki verið tæpari. Grátið og svo grínast Ljóst er að taugarnar voru þandar í aðdraganda úrslitanna, og tilfinningarnar ekki langt undan, líkt og þessi mynd Antons Brink ljósmyndara sýnir svart á hvítu: Áslaug Arna átti erfitt með að halda aftur af tárunum fljótlega eftir að úrslitin urðu ljós. Þórdís Kolbrún huggar hér vinkonu sína, rétt áður en hún steig upp á svið og flutti ræðu.Vísir/Anton Brink Skömmu síðar var Áslaug þó mætt upp á svið til að ávarpa landsfundinn, og virkaði þá hin hressasta, þrátt fyrir allt. Hún sagðist stolt af því að hafa tekið slaginn, auk þess sem hún óskaði Guðrúnu til hamingju með kjörið. Fundinn sagði hún fyrst og fremst sigur fyrir Sjálfstæðisflokkinn. „Það er líka gaman að segja frá því að hér tóku fleiri þátt í dag en allir sem kusu Vinstri græna í báðum Reykjavíkurkjördæmunum,“ sagði Áslaug sem uppskar hlátur fundargesta og þakkaði síðan fyrir sig. Liggjandi menn geta greinilega sparkað í sína líka. Grátlega tæpt á alla mælikvarða Hér er áhugavert að staldra við og velta því fyrir sér að 19 atkvæðum hafi munað á frambjóðendum, og að ef Guðrún hefði orðið af tveimur atkvæðum hefði, samkvæmt reglum flokksins, þurft að kjósa aftur á milli efstu tveggja frambjóðenda þar sem hvorug hefði náð yfir 50 prósenta þröskuldinn. Þá hefði Guðrún verið í sléttum 50 prósentum, sem er ekki nóg til að teljast réttkjörinn formaður. Ógildir seðlar voru fjórir, og atkvæði greidd öðrum en efstu tveimur voru 15. Sem sagt, 19 atkvæði sem höfðu ekki bein áhrif á slaginn. Slaginn sem vannst á 19 atkvæðum. Formaður Sjálfstæðisfélagsins í Vestmanneyjum hefur bent á að vegna þess hve vont var í sjóinn á föstudag hafi nokkrir landsfundarfulltrúar frá Vestmannaeyjum þurft að sitja heima. Ógerningur er að vita hverjum draugaatkvæðin 15 voru greidd (enda tilgreindi Birgir það ekki), eða hvort ógildir seðlar hafi verið ætlaðir öðrum hvorum frambjóðandanum, enda má greiða atkvæði hverjum sem er. Allir eru jú í framboði á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Það hlýtur engu að síður að vera grátlegt fyrir Áslaugu Örnu og stuðningsfólk hennar að hugsa til þess hversu óskaplega tæpt þetta var allt saman. Áðurnefndur Snorri Ásmundsson sendi fréttamönnum tölvubréf að landsfundi loknum, þar sem hann benti á nokkuð sem vert er að hafa í huga í þessu sambandi: „Áhugavert að hugsa til þess að hefði Áslaug fengið 3 atkvæðum meira hefði verið kosið upp á nýtt, þannig að framboð mitt kom mögulega í veg fyrir sigur Áslaugar,“ sagði Snorri í bréfinu. Fleiri voru þau orð ekki, og svo til ómögulegt að komast að hinu sanna í málinu. Fúlir í kvöld en kátir á morgun Einn ungur Sjálfstæðismaður, sem opinberlega studdi Áslaugu, hafði á orði við fréttamann að grautfúlt hefði verið að sjá að svo mjótt hafi verið á munum. Jafnvel hefði verið betra að tapa með meiri mun. Annar nefndi við blaðamenn að hann vissi af því að minnst þrír Áslaugarmenn hefðu sofið yfir sig vegna timburmanna, eflaust bein afleiðing mikillar gleði á landsfundarhófi kvöldið áður. Þá fengu fréttamenn veður af því að einhverjir ungir menn hefðu sagst staðráðnir í því að segja sig úr flokknum. Þeir létu ekki bjóða sér þessa niðurstöðu. Annar nefndi þó að svoleiðis yfirlýsingum, gefnum í hita leiksins, ætti að taka með fyrirvara. Nafnarnir Birkir Örn Þorsteinsson og Birkir Ólafsson vara hér við „vinstri slysunum“ í nafni ungra Sjálfstæðismanna. Einhverjir úr þeirra röðum voru ósáttir með úrslitin, á meðan aðrir kættust mjög.Vísir/Anton Brink „Menn verða fúlir í kvöld, en vakna svo á morgun og verða orðnir góðir. Svona er þetta bara,“ sagði einn ungur og spakvitur landsfundargestur. Hvort það sé rétt, að allra blóðheitustu stuðningsmenn Áslaugar hafi gefið sér eitt kvöld til að sleikja sárin og sameinist svo stuðningsmönnum Guðrúnar undir fálkanum er nokkuð sem aðeins tíminn getur leitt í ljós. Hvor fylkingin fékk sinn mann Þegar formannskjörinu, og öllu sem því fylgir, sleppti. Var komið að því að Sjálfstæðismenn veldu sér varaformann. Jens Garðar Helgason, nýr þingmaður flokksins í Norðausturkjördæmi, og Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður í Reykjavík norður frá árinu 2021, voru valkostirnir. Það þarf sennilega ekki að fara jafn mörgum orðum um varaformannskjörið og formannskjörið. Til að gera langa sögu stutta má þó segja að Jens hafi verið úr „fylkingu“ Áslaugar, frekar en hitt, og Diljá verið frambjóðandi Guðrúnarfólks. Jens Garðar var hlutskarpari, og hlaut 928 atkvæði eða 53,2 prósent gildra atkvæða, en Diljá Mist hlaut 758 atkvæði, eða 43,4 prósent. Það læðist að blaðamönnum sá grunur að atkvæði kunni að hafa fallið öðruvísi, hefði Áslaug náð kjöri til formanns. Eflaust hafa einhverjir fundarmenn litið svo á að fyrst annar armurinn fékk formanninn, væri rétt að hinn fengi varaformanninn. Verkefnið er jú að sameina Sjálfstæðisflokkinn. Þó er ómögulegt að skyggnast inn í huga annarra, hvað þá þegar um er að ræða hátt í 2.000 manns. Jens Garðar var að vonum ánægður með að hafa náð kjöri í embætti varaformanns.Vísir/Anton Brink Áslaug Arna hlaut þar að auki 59 atkvæði í embætti varaformanns, eða 3,4 prósent. Hún hafði þó sjálf tekið af öll tvímæli í Pallborðinu á Vísi, um að ef hún hlyti ekki kjör til formanns myndi hún ekki bjóða sig fram til varaformanns. Og það gerði hún ekki, en 59 fundarmenn vildu samt sjá hana í því embætti. „Einn annar hlaut eitt atkvæði, það var ekki ég,“ sagði Birgir þegar hann tilkynnti úrslitin, og minnti þar með á að hann væri ekki bara prýðilegur fundarstjóri heldur einnig launfyndinn. „Allt eða ekkert dæmi“ Annar undirritaðra ræddi við yfirlýstan stuðningsmann Áslaugar fyrir utan salinn þegar úrslitin í varaformannskjöri voru ljós, og spurði hvers vegna Áslaug hefði ekki lýst yfir áhuga á varaformannsembættinu í tapræðu sinni. „Það hefði ekkert vit verið í því. Þetta er allt eða ekkert dæmi,“ sagði sá. Engin frekari útskýring fylgdi því, en það má svo sem alveg skilja það sjónarmið. Tapi maður formannsslag vill maður kannski ekki verða næstráðandi þess sem hafði betur gegn manni. Þá ræddi hinn undirritaðra við einn fárra yfirlýstra stuðningsmanna bæði Áslaugar og Diljár. Sá var, kannski eðlilega, svekktur með niðurstöður dagsins. „Fálkinn mun blakta við hvert ráðhús“ og salurinn trylltist Í ræðu sinni sagði Jens Garðar hafa gleymt því að skrifa ræðu, ef ske kynni að hann yrði hlutskarpastur í varaformannskjörinu. Á eftir kom ræða sem mætti alveg giska á að hann hafi mögulega skrifað fyrir fram, en hvað veit maður? Hann þakkaði Diljá Mist fyrir góða baráttu, óskaði Guðrúnu til hamingju með kjörið og lofaði því að leggja sitt af mörkum til starfa flokksins. Vera eins og stormurinn, djarfur og glaður, með vísan til ljóðs Hannesar Hafstein, Storms, og ræðu sinnar frá því daginn áður. Í ræðunni lagði Jens Garðar mikla áherslu á að næsta verkefni flokksins væri að ná góðum árangri í sveitarstjórnarkosningunum vorið 2026. „Fálkinn mun blakta við hvert ráðhús, næsta vor. Enn og aftur, takk kærlega fyrir stuðninginn. Ég hlakka til að vinna með ykkur öllum á komandi árum. Takk,“ sagði Jens Garðar. Hér voru fagnarlætin í salnum ekki minni en þegar úrslit í formannskjörinu voru ljós. Hinn nýi varaformaður kann greinilega að strjúka sínu fólki rétt. Þetta var eitthvað sem fólk vildi heyra. Jens Garðar og Guðrún fallast hér í faðma, eftir að úrslit í varaformannskjörinu lágu fyrir. Til vinstri sést Vilhjálmur Árnason, ritari flokksins, fagna nýjum samstarfsmanni í forystunni.Vísir/Anton Brink Diljá Mist, sem laut í lægra haldi fyrir Jens, hélt ekki ræðu eftir að úrslitin lágu fyrir. Þegar fréttamaður sló á þráðinn til hennar, til að leita viðbragða við ósigrinum, var Diljá farin úr Laugardalshöll. Sagðist hún mætt á Gullnesti, til þess að fá sér pylsu. Hún birti einmitt mynd af téðri pylsu á samfélagsmiðlum. Í samtali við fréttamann sagðist hún þó ánægð með landsfundinn, þrátt fyrir allt. Flestir farnir heim Næst var ritarakjörið. Það er sennilega gáfulegt að þreyta ekki lesendur með of löngum kafla um það, þar sem Vilhjálmur Árnason, þingmaður úr Suðurkjördæmi, var einn í framboði og sóttist eftir því að halda sinni stöðu sem ritari. Vilhjálmur fékk 573 atkvæði af 766 greiddum, eða 74,8 prósent. Diljá Mist fékk 63 atkvæði, eða 8,3 prósent, og Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi, fékk 56 atkvæði, eða 7,3 prósent. Vilhjálmur Árnason hélt velli sem ritari Sjálfstæðisflokksins.Vísir/Anton Brink Blaðamenn velta því fyrir sér hvort stuðningsmenn hinnar síðastnefndu hafi verið sessunautar þeirra, það er að segja, meðlimir úr Sjálfstæðisfélagi Kópavogs sem jafnt og þétt, alla helgina, námu land á fjölmiðlaborðinu þar til ekkert var eftir nema örfáir fersentimetrar. Gildir einu. Hér er sérstaklega vert að nefna að greidd atkvæði í ritarakjöri voru 808, eða meira en eitt þúsund atkvæðum færri en í kjöri til formanns. Sjálfur vék Vilhjálmur að þessu í ræðu sinni og taldi sennilegt að stór hluti gesta sem höfðu yfirgefið höllina væri fólk af landsbyggðinni, sem hefði drifið sig heim til að lenda ekki í vondu veðri á heimleiðinni. Blaðamenn eru ekki vissir um að það hafi verið eina ástæða þess að fólki fór hratt fækkandi í salnum, en hljóta að leyfa Vilhjálmi að njóta vafans. „Stétt með stétt“ er viðkvæðið Síðasti liður fundarins var ræða nýs formanns, Guðrúnar Hafsteinsdóttur, þar sem hún sleit landsfundinum formlega. „Kosningarnar á þessum landsfundi voru jafnar og spennandi. Þær sýna að við erum fjölbreytt afl, fjölbreytt hreyfing með mismunandi áherslur, en nú er kominn tími til að standa saman.“ Hún sagði næsta verkefni vera að sameina flokkinn, þannig að allir sem finni sér stað í stefnu flokksins finni sér einnig stað í flokknum. „Jens Garðar Helgason, austfirðingurinn knái, innilega til hamingju með varaformannsembættið. Ég hlakka til að vinna með þér,“ sagði Guðrún. Hún sagðist einnig hlakka til að vinna með Vilhjálmi. Forystan ætlaði að leggja sig alla fram við að styrkja, stækka og efla flokkinn. „Nú hefst vinnan, kæru vinir. Eins og ég sagði áðan mun ég ekki draga af mér,“ sagði Guðrún. „Saman ætlum við efla og endurreisa Sjálfstæðisflokkinn. Stækkum nú Sjálfstæðisflokkinn, stétt með stétt,“ sagði Guðrún. Verkefnið er risavaxið „Stækkum nú Sjálfstæðisflokkinn, stétt með stétt,“ sagði konan. Þetta hljómar einfalt á blaði, en Guðrúnar bíður ærið verkefni, og það verður ekki létt. Sjálfstæðismönnum er tíðrætt um að á landsfundi skiptist fólk á skoðunum, en gangi sameinað út af fundi. Það kann vel að vera að sú lína hafi virkað vel hingað til, en það er erfitt að leggja áherslu á hversu risavaxið verkefni er fram undan. Að sameina flokk sem skiptist niður í miðju, upp á aukastaf. Fimmtíu komma ellefu prósent, á móti fjörutíu og níu komma núll níu. Blaðamenn hafa heyrt af því að nú þegar sé kurr meðal fólks innan flokksins, sem studdi Áslaugu vegna þess hvernig fór og vegna aðdraganda landsfundar. Þar er skemmst að minnast havarís sem myndaðist vegna fundar Heimdallar, félags ungra Sjálfstæðismanna í Reykjavík, þar sem landsfundarsætum var úthlutað: Guðrún Hafsteinsdóttir er engu að síður nýr og réttkjörinn leiðtogi Sjálfstæðismanna, en hún er nánast eins langt frá því að vera óskoraður leiðtogi og mögulegt er. Umboðið er allt annað en sterkt, og hún þarf að stíga varlega til jarðar, ætli hún sér ekki að virkja jarðsprengjurnar sem fram undan eru. Næstu vikur, mánuðir og jafnvel næsta árið munu segja okkur mikið um hversu fast Guðrún kemur til með að taka í stjórnartauma. Augljósasta spurningin er sú hvort Guðrún muni skipta Hildi Sverrisdóttur, yfirlýstum stuðningsmanni Áslaugar, út sem þingflokksformanni. Starfsmannavelta hjá þingflokknum og í Valhöll munu einnig gefa góða vísbendingu um hversu mikilla breytinga er að vænta á stjórn flokksins, stefnu hans og áferð. Allra augu á nýjum formanni Hvað sem breytingum í Valhöll og fyrstu verkum Guðrúnar í formannsstóli líður, má ekki gleyma því að næsti landsfundur Sjálfstæðisflokksins verður haldinn eftir um það bil tvö ár, að öllu óbreyttu. Í millitíðinni fara fram sveitarstjórnarkosningar, sem Sjálfstæðismenn virðast sammála um að sé algjörlega nauðsynlegt að taka með trompi. Takist það hins vegar ekki, sér í lagi ef flokkurinn verður áfram áhrifalaus í Reykjavík, er hætta á því að formannstíð Guðrúnar gæti orðið endasleppt. Það er nánast öruggt að fullyrða að innan flokksins sé hópur fólks sem heldur niðri í sér andanum og bíður eftir því að Guðrún misstígi sig. Ljóst er að ógnarstórt verkefni bíður Guðrúnar og félaga hennar í forystunni. Það er, ef marka má yfirlýsingar hennar og annarra framámanna í flokknum um að stækka þurfi flokkinn og endurreisa.Vísir/Anton Brink Það er ekki þar með sagt að Guðrún tjaldi endilega til einnar nætur. Sunnlenska viðskiptakonan sem tók fyrst sæti á þingi fyrir tæpum þremur árum er búin að klífa til hæstu metorða innan Sjálfstæðisflokksins, á undraverðum hraða. Það gerði hún með því að höfða til fjöldans, og sannfæra flokksmenn um að hún væri svarið við vandamálunum sem hrjáð hafa flokkinn hingað til. Vandamál sem lýst hefur verið sem skorti á jarðtengingu og samtali við hinn almenna Íslending. „Stækkum nú Sjálfstæðisflokkinn, stétt með stétt,“ sagði Guðrún, og enginn vafi er um að hún hafi meint það. Nú er bara að sjá hvernig tekst til, og mun fleiri augu en tvö þúsund landsfundargesta eru á henni. Engin pressa. Sjálfstæðisflokkurinn Landsfundur Sjálfstæðisflokksins 2025 Mest lesið Nafn mannsins sem lést í vinnuslysi í Vík Innlent Vísir á landsfundi: Þúsund handabönd og þunnir stuðningsmenn Innlent Fimm þúsund starfsmenn borgarinnar fengu of mikið greitt Innlent Bandaríkin muni eignast Grænland með einum eða öðrum hætti Erlent Forseti Hæstaréttar: „Mér er alveg sama þótt þetta séu tillögur frá einhverjum hópi“ Innlent Bílarnir dregnir upp úr sjónum Innlent Grátandi foreldrar einhverfra ungmenna án úrræða Innlent Umtalað kynferðisbrotamál fer á efsta dómstigi Innlent Tillaga um að leggja af áminningarskyldu sé vanvirðing í garð starfsfólks Innlent Þurfti þrjár tilraunir til að lenda í Keflavík Innlent Fleiri fréttir Anna Kristín Arngrímsdóttir er látin Þurfti þrjár tilraunir til að lenda í Keflavík Sérstakt að túlka tillögur almennings sem stríðsyfirlýsingu Silfurlitaða VÆB byltingin tók yfir öskudaginn: „Þetta er geggjað! Þetta er galið! Þetta er geðveikt!“ Vanvirðing við Hæstarétt og áhrif tollahækkana Trumps Forseti Hæstaréttar: „Mér er alveg sama þótt þetta séu tillögur frá einhverjum hópi“ „Þetta er reiðarslag fyrir okkar litla samfélag“ Bílarnir dregnir upp úr sjónum Fimm þúsund starfsmenn borgarinnar fengu of mikið greitt „Ríkismiðillinn eins og púkinn á fjósbitanum“ Tillaga um að leggja af áminningarskyldu sé vanvirðing í garð starfsfólks Grátandi foreldrar einhverfra ungmenna án úrræða Tillagan greinilega frá „hagsmunahópum í atvinnulífinu“ Nafn mannsins sem lést í vinnuslysi í Vík Hagræðingartillögur gagnrýndar og VÆB vinsælastir á öskudaginn Skipverji brotnaði og móttöku frestað Skila sex hundruð milljónum Umtalað kynferðisbrotamál fer á efsta dómstigi Berghildur og Kolbeinn Tumi tilnefnd til Blaðamannaverðlauna Heiða Björg með 3,8 milljónir í laun á mánuði Bein útsending: Fundur um stöðu og þróun vindorku á Íslandi Spyr hvort þetta sé raunveruleg hagræðing eða tilfærsla á útgjöldum Vísir á landsfundi: Þúsund handabönd og þunnir stuðningsmenn Líkamsárásir, skemmdarverk og klifurslys Vilja nýjan flugvöll á Ísafirði „Þetta eru auðvitað náttúruhamfarir“ Verðlaunabændur vilja norskar kýr til landsins Afnemur handhafalaun vegna forsetavalds Alvotech fær ekki að byggja leikskóla Hringdi út um allt en samt komust ekki allir í tæka tíð Sjá meira
Óhætt er að segja að stemningin á 45. landsfundi Sjálfstæðisflokksins, sem fram fór um helgina í Laugardalshöll, hafi verið marglaga. Öðrum þræði snerist fundurinn um að líta yfir farinn veg og þakka fyrir það liðna, en þegar líða tók á fundinn var horft til framtíðar. Skoðanir fundarmanna á framtíðinni voru skiptar, nánast alveg til jafns. Landsfundurinn hófst formlega síðastliðinn föstudag þegar Bjarni Benediktsson, þá formaður flokksins, setti fundinn með ógnarlangri ræðu þar sem hann leit um farinn veg. Undirritaðir fóru, fyrir setningu fundarins, niður í Laugardalshöll til þess að sækja fjölmiðlapassa sína. Þeir voru lykillinn að því að fá að vera á svæðinu og drekka í sig stemninguna. Tómas Þór Þórðarson, aðstoðarmaður þingflokks, og Þórður Þórarinsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, ræða hér saman. Þeir léku báðir lykilhlutverk í framkvæmd fundarins.Vísir/Anton Brink Þegar í Laugardalshöll var komið, um klukkan hálf tvö var þegar nokkur röð farin að myndast við innritunarborðið. Meðal þeirra sem biðu þess að innrita sig var Guðmundur Kristjánsson, útgerðarmaður kenndur við Brim. Þeir sem hér skrifa voru hins vegar teknir fram fyrir röð landsfundargesta af Tómasi Þór Þórðarsyni, áður sparkspekingi en nú aðstoðarmanni þingflokks Sjálfstæðisflokksins. „Ég drep ykkur ef þið skilið þessu ekki á sunnudaginn,“ sagði Tómas í gamansömum tón þegar hann afhenti blaðamönnum, sem töldu litla alvöru bakvið þessa hótun, rauða fjölmiðlapassa á gulu bandi. Þessi orð voru blaðamönnum þó fersk í minni þegar þeir yfirgáfu höllina á sunnudag. Þeir þorðu því ekki öðru en að skila pössunum í þar til gerða kassa við útganginn, þar sem landsfundarfulltrúar skiluðu einnig sínum bláu og hvítu pössum. Ótrúleg samkoma, sama hvað hver segir Förinni var aftur heitið í höllina á fimmta tímanum, rétt fyrir setningarræðu Bjarna. Við komuna mátti öllum viðstöddum vera ljóst að öllu skyldi tjaldað til. Heilu herirnir af uppáklæddu Sjálfstæðisfólki streymdu að og af fjöldanum að dæma er hálf ótrúlegt til þess að hugsa að færri hafi komist að en vildu, slíkur var fjöldinn. Raunar er áætlað að um 2.200 gestir hafi sótt fundinn, sem ku vera einhvers konar met. Það var í það minnsta mál manna á fundinum að vel hafi verið mætt. Laugardalshöll var stappfull. Vísir/Anton Brink Langborð á langborð ofan fylltu stærsta sal hallarinnar og setið var í öllum sætum. Eftirvæntingin eftir síðustu ræðu Bjarna í hlutverki formanns, og fundinum öllum, var áþreifanleg. Annað sem heyra mátti á fundarmönnum var hversu ofboðsleg spenna ríkti fyrir eiginlegum hápunkti landsfundarins, formannskjörinu á sunnudeginum. Þar tókust á Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Guðrún Hafsteinsdóttir, báðar þingmenn flokksins og fyrrverandi ráðherrar. Enginn sem undirritaðir ræddu við sagðist viss um hvor þeirra kæmi til með að standa uppi sem sigurvegari. Miðað við umræðuna stefndi í að mjótt yrði á munum. Sú reyndist raunin, en nánar um það síðar. Áður en farið verður í saumana á formannskjörinu og aðdraganda þess verður gerð heiðarleg tilraun til þess að lýsa stemningunni á fundinum. Það verður ekki annað sagt en að um mjög tilkomumikla samkomu hafi verið að ræða, og ljóst að hún á sér enga hliðstæðu í íslenskum stjórnmálum. Gleðin var við völd meðal fólks á fremsta bekk. Vísir/Anton Brink Það var ekki að sjá á neinum í salnum að Sjálfstæðisflokkurinn væri í verri stöðu en oftast áður, utan helstu áhrifastaða bæði í lands- og borgarmálunum. Fyrir öllum þeim sem sæti áttu á fundinum var flokkurinn mestur, bestur og stærstur. Mögulega er það ágætt veganesti inn í það sem framundan er hjá flokknum. Þar eru uppbyggingarstarf, stefnumótun og nýliðun upphaf og endir alls, ef marka má nánast alla sem rætt var við á fundinum. Andstæðingarnir sem skópu Bjarna Áður en ræða Bjarna hófst síðdegis á föstudag var spilað myndband þar sem stiklað var á afar stóru frá ferli Bjarna sem formaður. Þar var farið yfir þegar hann hafði betur gegn Kristjáni Þór Júlíussyni í formannsslag árið 2009, myndaði hinar ýmsu ríkisstjórnir og stóð almennt í ströngu. Eins og Sjálfstæðismanna er von og vísa stóðu þeir upp úr sætum sínum og hylltu formanninn þegar hann gekk inn á sviðið. Bjarni fór, vægast sagt, um víðan völl í ræðu sinni og talaði í um klukkustund. Hann þakkaði ýmsu samstarfsfólki sínu fyrir vel unnin störf, fór yfir árangur sem hafði náðst á tíma hans í ríkisstjórn, skaut duglega á núverandi ríkisstjórn og þakkaði sérstaklega pólitískum andstæðingum sínum. Þá taldi Bjarni hafa, án þess að þeir vissu það, hjálpað honum hvað mest; meitlað sannfæringu hans og gert hann að stjórnmálamanninum sem hann væri í dag. Bjarni Benediktsson þakkaði pólitískum andstæðingum sínum fyrir að hafa gert hann að þeim stjórnmálamanni sem hann síðar varð. Þeir hafi hjálpað honum að meitla sannfæringuna með því að skrattast sífellt í honum.Vísir/Vilhelm „Þau sem voru mér erfiðust, þau eiginlega bjuggu til þetta pólitíska dýr úr mér, sem entist þetta lengi,“ sagði Bjarni við mikla kátínu landsfundargesta. Það mátti síðan varla sjá þurrt auga í salnum þegar Bjarni lauk ræðunni á því að biðja Þóru Margréti Baldvinsdóttur, eiginkonu Bjarna sem hann sagði hafa staðið með sér eins og klettur í gegnum súrt og sætt, um að koma upp á svið til sín. Það gerði Þóra og leiddi svo Bjarna sinn út af hinu pólitíska sviði, eins og hann sjálfur komst að orði. Að lokinni ræðu Bjarna hélt málefnastarf áfram, áður en Sjálfstæðismenn slettu úr klaufunum á hinum ýmsu móttökum, og einhverjir í landsfundarteiti Sambands ungra Sjálfstæðismanna, sem entist langt fram á nótt samkvæmt heimildum undirritaðra. Nóg af stæðum Þegar í Laugardalshöllina var komið á laugardag var nóg af stæðum fyrir utan höllina. Verst var að það voru bílar í þeim öllum, og víðar. Því afréðu undirritaðir að ganga í höllina af Suðurlandsbraut 10, þar sem fréttastofan er staðsett. Sú ganga var köld og blaut, enda allra veðra von á þessum árstíma. Þeirri göngu lauk þó fljótt og þegar inn var gengið var í þann mund að hefjast dagskrárliður undir yfirskriftinni „Formaður kvaddur“. Það var sem sagt ekki nóg að Bjarni fengi að kveðja fundinn, heldur átti fundurinn líka að kveðja Bjarna. Sá dagskrárliður hófst á langri en nokkuð almennri ræðu Björns Bjarnasonar fyrrverandi ráðherra, um störf og feril Bjarna frá því hann tók sæti á þingi árið 2003. Stundum leið manni eins og frásögnin væri í rauntíma, það er að segja, jafn löng og stjórnmálaferill Bjarna. Björn Bjarnason sá fundargestum fyrir ítarlegri upprifjun á ferli Bjarna Benediktssonar. Vísir/Anton Brink Við tók tvískipt pallborð undir stjórn Hersis Arons Ólafssonar, sem hefur verið aðstoðarmaður Bjarna frá árinu 2020. Í fyrri umferð ræddi Hersir við Illuga Gunnarsson, Ragnheiði Elínu Árnadóttur og Kristján Þór Júlíusson, allt fyrrverandi ráðherrar flokksins, um feril Bjarna og samstarfið við hann. Í seinni umferð ræddi Hersir við Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, fráfarandi varaformann og fyrrverandi ráðherra, Sigurð Kára Kristjánsson, fyrrverandi þingmann, og Ásthildi Sturludóttur, bæjarstjóra á Akureyri. Í pallborðsumræðum þótti undirrituðum standa upp úr að heyra að Bjarni ætti það til, á undarlegustu stundum, að syngja lagið Despacito. Við nánari eftirgrennslan kemur í ljós að Bjarni hefur áður opnað sig um að honum þyki það eitt besta lag tónlistarsögunnar. Hersir Aron, fyrrverandi aðstoðarmaður Bjarna, stýrði pallborði þar sem farið var yfir störf hans og feril.Vísir/Anton Brink Á milli holla voru svo spiluð ýmis myndbönd sem skipuleggjendur fundarins höfðu fengið samferðamenn Bjarna til að senda honum í tilefni af tímamótunum. Þarna brá fyrir, auk ýmissa Sjálfstæðismanna, Guðna Ágústssyni, fyrrverandi formanni Framsóknar, Árna Páli Árnasyni, fyrrverandi formanni Samfylkingarinnar, og Vilhjálmi Birgissyni, formanni Verkalýðsfélags Akraness. Sá síðastnefndi þakkaði Bjarna kærlega fyrir að hafa veitt hvalveiðileyfi til næstu fimm ára, en það hefur verið Vilhjálmi og hans félagsmönnum mikið hjartans mál að mega veiða hvali. Um leið og hann gerði það brosti Kristján Loftsson, forstjóri og stærsti eigandi Hvals hf., sínu albreiðasta brosi á þarnæsta borði við fjölmiðlaborðið. Kristján Loftsson útgerðarmaður sést hér brúnaþungur á fundinum. Þegar talið barst að hvalveiðum og þeirri staðreynd að hægt sé að stunda þær brosti hann hins vegar út að eyrum. Það gerði hann einnig þegar hann stillti sér upp á mynd með Jens Garðari Helgasyni, þá nýkjörnum varaformanni, á sunnudeginum.Vísir/Anton Áður en dagskrárliðnum lauk var Bjarni Benediktsson kallaður upp á svið og Þórdís Kolbrún afhenti honum blómvönd. Þar sagði hún að Bjarni væri, þrátt fyrir að búa yfir ýmsum mannkostum sem rifjaðir hefðu verið upp á fundinum, fyrst og fremst „drengur góður“. Þar með hafði Bjarni kvatt fundinn, og fundurinn hann. Með vindinn í fangið Þegar hér er komið sögu má segja að skipt hafi verið algjörlega um gír. Fundargestir höfðu eytt dágóðum tíma í að líta um öxl, einkum og sér í lagi yfir feril fráfarandi formanns, en nú var komið að því að snúa sér að framtíðinni. Það var komið að ræðum frambjóðenda til formanns, varaformanns og ritara. Nokkuð sem margir sögðu að myndi ráða úrslitum í baráttunni um fyrrnefndu embættin tvö. Formannsframbjóðendir voru fyrstir, og Guðrún Hafsteinsdóttir reið á vaðið samkvæmt slembivali. „Núna erum við stödd í krefjandi kafla í sögu Sjálfstæðisflokksins. Við erum með vindinn í fangið. Við höfum tapað trausti og við upplifum að flokkurinn hafi fjarlægst sig. Eins og einn fyrrum Sjálfstæðismaður vestur á fjörðum sagði við mig um daginn: ég yfirgaf aldrei Sjálfstæðisflokkinn, Sjálfstæðisflokkurinn yfirgaf mig. En sögunni er ekki lokið, því við Sjálfstæðismenn gefumst aldrei upp. Og við lítum aldrei undan þótt sýnin sé ófrýnileg. Við getum sótt fylgi á ný við getum stækkað flokkinn og við getum komist í bílstjórasæti íslenskra stjórnmála á nýjan leik,“ sagði Guðrún meðal annars í ræðu sinni. Hjó í kunnuglegan knérunn Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir var næst í röðinni. Í ræðu sinni fór hún hörðum orðum um ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur, og sagði hana standa í vegi fyrir hagvexti, einfaldara regluverki og sjálfstæði þjóðarinnar. Áslaug lagði áherslu á sameiningu flokksins í ræðu sinni. „Það er nákvæmlega þetta sem vinstri menn hræðast, fullur salur af kraftmiklu fólki sem hefur trú á Sjálfstæðisstefnunni,“ sagði Áslaug í upphafi ræðu sinnar. „Verkefni okkar er skýrt, við eigum að tala skýrar fyrir sjálfstæðisstefnunni, vera óhrædd og stolt í að sýna sjálfstæðisstefnuna í verki. Þannig verður Sjálfstæðisflokkurinn aftur stór, þannig náum við árangri fyrir Ísland,“ sagði hún. Geimverur, kettir og Bjöggi Thor Þá var aðeins einn formannsframbjóðandi eftir. Það var gjörningalistamaðurinn Snorri Ásmundsson. Hann átti ekki sæti á landsfundinum sjálfum en fékk engu að síður að vera viðstaddur sem frambjóðandi, með gestapassa. Þá fékk hann að halda ræðu, allt að 20 mínútur að lengd, eins og aðrir formannsframbjóðendur. Í ræðu Snorra kenndi ýmissa, óvæntra, grasa. Geimverur, norðlenskir kettir, og sjálfur Jesús Kristur voru meðal þess sem Snorri gerði að umræðuefni sínu, auk þess að láta salinn syngja með sér, sama lagið tvisvar. Hann lofaði líka að gera Björgólf Thor að fjármálaráðherra, af einhverjum ástæðum. Sjón er sögu ríkari en ræðu Snorra má finna hér að ofan. Réðu ræður úrslitum? Segja má að alvaran hafi fyrst tekið við á fundinum þegar ræðuhöld frambjóðenda hófust. Fundarmenn hlustuðu af sérstakri athygli á ræður Guðrúnar og Áslaugar, og nokkuð ljóst að fólk beið með öndina í hálsinum eftir því að þær sviptu hulunni almennilega af framtíðarsýninni, sem hefur verið sveipuð örlítilli dulúð hjá þeim báðum í aðdraganda formannskjörs. Það skal alfarið ósagt látið hversu mikil áhrif ræðurnar höfðu í raun og veru, en undirritaðir voru báðir sammála um að salurinn hefði tekið betur í ræðu Guðrúnar en Áslaugar, þó báðum hafi verið feykilega vel fagnað. Raunar kom upp sú umræða við fjölmiðlaborðið hvort standandi lófatak hefði ekki verið löngu gjaldfellt á fundinum, en það er önnur ella. Margir töldu að Snorri væri að grínast. Af ræðu hans mátti þó dæma að hann væri bara alls ekkert að grínast.Vísir/Anton Brink Ræðu Snorra var ívið minna fagnað en hinum tveimur, en þó uppskar Snorri standandi lófatak á einum tímapunkti. Það var þegar Snorri sagðist fullviss um að landsfundarfulltrúar myndu „redda þessu“. „Ég hlakka til að halda ræðu á morgun sem formaður Sjálfstæðisflokksins,“ sagði Snorri og ljóst að sjálfstraustið féll vel í kramið hjá landsfundargestum. Hinar ræðurnar og svo fyllerí Diljá Mist Einarsdóttir og Jens Garðar Helgason voru næst á svið og héldu hvort sína ræðuna í baráttunni um varaformannsembættið. Vilhjálmur Árnason hélt sömuleiðis stutta ræðu, en hann var einn í yfirlýstu framboði til ritara flokksins. Að svo búnu tilkynnti Birgir Ármannsson, fundarstjóri og fyrrverandi forseti Alþingis, að dagskránni væri formlega lokið í bili, þangað til að landsfundarhófi kæmi. „Landsfundarhófinu þarf reyndar að vera lokið klukkan hálf níu í fyrramálið, því þá opnar húsið aftur,“ sagði brandarakarlinn Birgir, við mikinn fögnuð viðstaddra. Undirritaðir gerðust ekki svo frægir að sækja hófið, en fengu að heyra síðar að stuðið hafi síður en svo riðið við einteyming. Bölvaður Bílastæðasjóður Síðdegis á laugardag, þegar blaðamenn gengu úr höllinni, hina blautu og köldu göngu upp á Suðurlandsbraut, mátti sjá þó nokkuð marga bíla sem lagt hafði verið í eitthvað sem best yrði lýst sem „ekki beint bílastæði“. Þessum bílum var ekki beint löglega lagt, samkvæmt þrengstu túlkun reglnanna. Eigendur uppskáru fyrir vikið sektir.Vísir/Vésteinn Eigendur viðkomandi bíla fengu bágt fyrir, í formi peningasekta frá Bílastæðasjóði. Eflaust hefur það verið Sjálf(bíla)stæðismönnunum sem átti í hlut ákveðin hvatning til að draga úr umsvifum hins opinbera og einfalda regluverk. Sjáum hvort kemur á undan, eindagi sektarinnar eða endalok Bílastæðasjóðs. Barist til síðasta handabands Ólíkt fjölda landsfundarfulltrúa sem undirritaðir ræddu við fóru blaðamenn snemma í háttinn á laugardag og mættu því eiturferskir til leiks fyrir hádegi á sunnudag, enda má segja að aðaldagurinn hafi verið á sunnudag. Það fyrsta sem vakti athygli blaðamanna þegar gengið var inn í salinn á sunnudag var að fjölmiðlaborðið hafði minnkað. Umtalsvert. Sjálfstæðismenn úr Kópavogi höfðu tekið upp á því að færa sig yfir landamærin sem Tómas Þór hafði teiknað fyrir blaðamenn, og stungið fána sínum niður þar sem áður var hvítt A4 blað sem á stóð „FJÖLMIÐLAR“. Færri fjölmiðlamenn komust því að en vildu og þurftu einhverjir að standa eða einfaldlega ganga um salinn, hálf stefnulausir. Undirritaðir voru hins vegar svo hyggnir, og mættu svo snemma, að þeir fengu báðir fínustu sæti. Stuðningsmenn og skyldmenni frambjóðenda dreifðu varningi sinna kvenna í aðdraganda kjörsins. Hér má sjá nælu frá framboði Guðrúnar og bækling með helstu stefnumálum Áslaugar.Vísir/Anton Brink Á meðan farið var yfir tillögur að breytingum á skipulagsreglum flokksins, rétt áður en kjör til formanns hófst, gengu Áslaug Arna og Guðrún Hafsteins á milli, að því er virðist, allra borða í salnum og tóku í hendur fundarmanna. Það er ljóst að hvert atkvæði var gulls ígildi á þessum tímapunkti. Þá var bara rétt að vona að veiran skæða hafi ekki leynst í lófa einhverra fundargesta. Fjölskyldumeðlimir frambjóðendanna og stuðningsmenn létu sitt ekki eftir liggja, ræddu við fólk og deildu bæklingum, nælum og pennum með merkjum sinna frambjóðenda. Eldri Sjálfstæðismenn pössuðu þrýstinginn Eftir að kjör til formanns hófst um klukkan hálf tólf hóf spennan að magnast, smátt og smátt. Til að mynda heyrðist einn eldri Sjálfstæðismaður segja að nú færi „blóðþrýstingurinn ört hækkandi“, auk þess sem óbærilega heitt var orðið inni í salnum. Kunnuglegt stef, þar sem sú var raunin á framboðsfundum bæði Áslaugar og Guðrúnar. Geir H. Haarde, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, var að sjálfsögðu á meðal viðstaddra.Vísir/Anton Brink Fréttamenn fengu þær upplýsingar frá skipuleggjendum fundarins að niðurstöður úr formannskjörinu ættu að liggja fyrir milli 12:30 og 13. „Af gefinni reynslu er þó vert að nefna að auglýstar tímasetningar um úrslit kosninga og atkvæðagreiðslna þar sem mikið er undir eru fremur viðmið en heilagur sannleikur,“ sögðu blaðamenn í fréttavakt Vísis klukkan 12:35. Raunin átti enda eftir að reynast sú að auglýst tímasetning hélt ekki alveg upp á mínútu. Stóðu á öndinni þegar Birgir leitaði bíls Rétt fyrir klukkan eitt stóð Birgir Ármannsson upp úr sæti sínu á sviðinu og steig upp í pontu. „Stóra stundin er runnin upp, úrslitin liggja fyrir,“ hugsuðu blaðamenn með sér. Salurinn þagnaði og ef maður hefði lokað augunum hefði mátt halda að maður væri aleinn inni í Laugardalshöll. Tíminn stóð hreinlega í stað. „Ég er ekki að fara að kynna úrslitin alveg strax. En ég auglýsi eftir eiganda bíls,“ sagði Birgir, og Sjálfstæðismenn gerðu heiðarlega atlögu að heimsmetinu í andvarpi án atrennu á meðan Birgir þuldi upp bílnúmer. Bíllinn ku hafa lokað aðgengi að höllinni og var eigandinn beðinn um að færa hann snöggvast. Þessi ræðustúfur Birgis vakti nokkra kátínu meðal gesta. Kampavínsbjallan glumdi á ögurstundu Á þessum tímapunkti í frásögninni er klukkan orðin rúmlega 13:00, og ljóst að auglýst tímasetning stóðst ekki. Við sögðum ykkur það. Rétt upp úr klukkan eitt fór hin svokallaða „kampavínsbjalla“ að glymja. Landssamband Sjálfstæðiskvenna hélt úti bás á fundinum þar sem boðið var upp á kampavín. Þegar kampavín var keypt hringdu Sjálfstæðiskonur forláta bjöllu, og ljóst að einhver ætlaði sér að skála þegar úrslitin lægju fyrir. „Hringið fyrir kampavín“ sagði á bás Landssambands Sjálfstæðiskvenna. Ógerningur var að telja hversu oft bjallan góða glumdi um helgina, en það var æði oft.Vísir/Anton Brink Hér er ágætis tímapunktur til að gera hlé á frásögninni, og nefna að fleiri en Sjálfstæðiskonur höfðu komið upp básum á svæðinu. Þeim við hlið hafði Samband ungra Sjálfstæðismanna komið upp fjáröflunaraðstöðu, þar sem kenndi ýmissa grasa. Bolir og bollar með myndum af Davíð Oddssyni, gleraugnaklútar með andliti Margaret Thatcher, frelsisbjór og umferðarskilti sem vöruðu við „vinstri slysum“ og lögðu blátt bann við lausagöngu Framsóknarmanna. Hér má sjá hluta góssins sem ungir Sjálfstæðismenn voru með til sölu um helgina.Vísir/Anton Brink Hvort sótt hafi verið um leyfi til sölu frelsisbjórs og kampavíns skal ósagt látið. Fulltrúar lögreglunnar voru í það minnsta hvergi sjáanlegir. Endurtalning! Jæja. Hvað sem kampavínsbjöllum og lausum Framsóknarmönnum líður er sennilega best að snúa sér aftur að formannskjörinu. Rétt upp úr klukkan eitt barst fréttamönnum til eyrna að telja þyrfti atkvæðin aftur. Stutt samtal við trausta heimildamenn staðfesti fréttirnar. Það hlaut þá að vera mjög mjótt á munum fyrst sú var raunin. Örfáum mínútum síðar stóð Birgir aftur upp úr sæti fundarstjóra og ávarpaði salinn, sem snarþagnaði öðru sinni. „Ég er ekki með úrslitin ennþá,“ segir Birgir og bað fundarmenn um að passa upp á atkvæðaseðla sína sem myndu nýtast í kjör varaformanns og ritara. Borið hafi á því að fólk hafi skilið seðlana eftir á glámbekk. „Við þurfum að bíða aðeins um sinn, en vonandi ekki svo lengi,“ sagði Birgir um úrslit í formannskjörinu, en minntist þó ekki á endurtalninguna. Ótrúleg dramatík Það var farið að örla á óþolinmæði einhverra fundargesta klukkan 13:15 þegar Birgir stóð upp í þriðja sinn, og bað fundarmenn um óskipta athygli. Þarna var öllum ljóst að komið væri að því sem beðið hafði verið eftir. Framtíð Sjálfstæðisflokksins til næstu ára yrði ljós á næstu andartökum. „Kjörstjórn hefur lokið talningu í kjöri til embættis formanns Sjálfstæðisflokksins,“ sagði Birgir og byrjaði á að greina frá því að 1.862 hefðu greitt atkvæði, og þar af hafi 1.858 atkvæði verið gild. „Atkvæði skiptast þannig: Guðrún Hafsteinsdóttir hlaut 931 atkvæði, eða 50,11 prósent af gildum atkvæðum,“ sagði Birgir. Þegar þarna er komið sögu ætlaði hreinlega allt um koll að keyra í salnum. Fólk stóð upp, klappaði, gólaði og féllst í faðma. Eftir nokkuð langa hríð, þegar fagnaðarlætin höfðu að þó langt því frá þagnað, tilkynnti Birgir að Áslaug Arna hefði fengið 912 atkvæði, eða 49,09 prósent gildra atkvæða. Þeirri tilkynningu hans var tekið af ögn meiri yfirvegun, þó salurinn hafi vissulega allur klappað. „Aðrir hlutu samtals 15 atkvæði, auðir og ógildir atkvæðaseðlar voru fjórir.“ „Ég lýsi því Guðrúnu Hafsteinsdóttur réttkjörinn formann Sjálfstæðisflokksins.“ Guðrún gekk að sviðinu og faðmaði fráfarandi forystu flokksins, Bjarna Benediktsson, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur og Vilhjálm Árnason, áður en hún hélt upp á svið undir dynjandi lófataki flokkssystkina sinna, sem aldrei virtist ætla að láta af fagnaðarlátunum. Sigur er sigur þótt naumur sé „Kæru vinir, kæru Sjálfstæðismenn. Takk, takk, takk, takk fyrir það traust sem þið eruð að sýna mér hér í dag. Takk fyrir að sýna mér hér um helgina að Sjálfstæðisflokkurinn er lang, lang öflugasta fjöldahreyfing landsins,“ sagði Guðrún í pontu eftir að úrslitin voru kunngjörð. Í ræðunni þakkaði Guðrún Áslaugu fyrir drengilega kosningabaráttu, og sagði ómetanlegt að eiga í henni sterkan og einbeittan bandamann í pólitík. Sigurræða Guðrúnar einkenndist af hugmyndum um að efla flokkinn, færa vald til flokksmanna og efla Valhöll. Kunnuglegt stef úr kosningabaráttunni, þar sem báðir frambjóðendur lögðu áherslu á að stækka flokkinn. Í viðtali við Tómas Arnar Þorláksson fréttamann eftir að sigurinn varð ljós sagði Guðrún að fyrir hafi hún talið að mjótt yrði á munum, en varla svona mjótt. „Sigur er alltaf sigur,“ sagði hún, og erfitt að mótmæla því. Hann gat hins vegar ekki verið tæpari. Grátið og svo grínast Ljóst er að taugarnar voru þandar í aðdraganda úrslitanna, og tilfinningarnar ekki langt undan, líkt og þessi mynd Antons Brink ljósmyndara sýnir svart á hvítu: Áslaug Arna átti erfitt með að halda aftur af tárunum fljótlega eftir að úrslitin urðu ljós. Þórdís Kolbrún huggar hér vinkonu sína, rétt áður en hún steig upp á svið og flutti ræðu.Vísir/Anton Brink Skömmu síðar var Áslaug þó mætt upp á svið til að ávarpa landsfundinn, og virkaði þá hin hressasta, þrátt fyrir allt. Hún sagðist stolt af því að hafa tekið slaginn, auk þess sem hún óskaði Guðrúnu til hamingju með kjörið. Fundinn sagði hún fyrst og fremst sigur fyrir Sjálfstæðisflokkinn. „Það er líka gaman að segja frá því að hér tóku fleiri þátt í dag en allir sem kusu Vinstri græna í báðum Reykjavíkurkjördæmunum,“ sagði Áslaug sem uppskar hlátur fundargesta og þakkaði síðan fyrir sig. Liggjandi menn geta greinilega sparkað í sína líka. Grátlega tæpt á alla mælikvarða Hér er áhugavert að staldra við og velta því fyrir sér að 19 atkvæðum hafi munað á frambjóðendum, og að ef Guðrún hefði orðið af tveimur atkvæðum hefði, samkvæmt reglum flokksins, þurft að kjósa aftur á milli efstu tveggja frambjóðenda þar sem hvorug hefði náð yfir 50 prósenta þröskuldinn. Þá hefði Guðrún verið í sléttum 50 prósentum, sem er ekki nóg til að teljast réttkjörinn formaður. Ógildir seðlar voru fjórir, og atkvæði greidd öðrum en efstu tveimur voru 15. Sem sagt, 19 atkvæði sem höfðu ekki bein áhrif á slaginn. Slaginn sem vannst á 19 atkvæðum. Formaður Sjálfstæðisfélagsins í Vestmanneyjum hefur bent á að vegna þess hve vont var í sjóinn á föstudag hafi nokkrir landsfundarfulltrúar frá Vestmannaeyjum þurft að sitja heima. Ógerningur er að vita hverjum draugaatkvæðin 15 voru greidd (enda tilgreindi Birgir það ekki), eða hvort ógildir seðlar hafi verið ætlaðir öðrum hvorum frambjóðandanum, enda má greiða atkvæði hverjum sem er. Allir eru jú í framboði á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Það hlýtur engu að síður að vera grátlegt fyrir Áslaugu Örnu og stuðningsfólk hennar að hugsa til þess hversu óskaplega tæpt þetta var allt saman. Áðurnefndur Snorri Ásmundsson sendi fréttamönnum tölvubréf að landsfundi loknum, þar sem hann benti á nokkuð sem vert er að hafa í huga í þessu sambandi: „Áhugavert að hugsa til þess að hefði Áslaug fengið 3 atkvæðum meira hefði verið kosið upp á nýtt, þannig að framboð mitt kom mögulega í veg fyrir sigur Áslaugar,“ sagði Snorri í bréfinu. Fleiri voru þau orð ekki, og svo til ómögulegt að komast að hinu sanna í málinu. Fúlir í kvöld en kátir á morgun Einn ungur Sjálfstæðismaður, sem opinberlega studdi Áslaugu, hafði á orði við fréttamann að grautfúlt hefði verið að sjá að svo mjótt hafi verið á munum. Jafnvel hefði verið betra að tapa með meiri mun. Annar nefndi við blaðamenn að hann vissi af því að minnst þrír Áslaugarmenn hefðu sofið yfir sig vegna timburmanna, eflaust bein afleiðing mikillar gleði á landsfundarhófi kvöldið áður. Þá fengu fréttamenn veður af því að einhverjir ungir menn hefðu sagst staðráðnir í því að segja sig úr flokknum. Þeir létu ekki bjóða sér þessa niðurstöðu. Annar nefndi þó að svoleiðis yfirlýsingum, gefnum í hita leiksins, ætti að taka með fyrirvara. Nafnarnir Birkir Örn Þorsteinsson og Birkir Ólafsson vara hér við „vinstri slysunum“ í nafni ungra Sjálfstæðismanna. Einhverjir úr þeirra röðum voru ósáttir með úrslitin, á meðan aðrir kættust mjög.Vísir/Anton Brink „Menn verða fúlir í kvöld, en vakna svo á morgun og verða orðnir góðir. Svona er þetta bara,“ sagði einn ungur og spakvitur landsfundargestur. Hvort það sé rétt, að allra blóðheitustu stuðningsmenn Áslaugar hafi gefið sér eitt kvöld til að sleikja sárin og sameinist svo stuðningsmönnum Guðrúnar undir fálkanum er nokkuð sem aðeins tíminn getur leitt í ljós. Hvor fylkingin fékk sinn mann Þegar formannskjörinu, og öllu sem því fylgir, sleppti. Var komið að því að Sjálfstæðismenn veldu sér varaformann. Jens Garðar Helgason, nýr þingmaður flokksins í Norðausturkjördæmi, og Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður í Reykjavík norður frá árinu 2021, voru valkostirnir. Það þarf sennilega ekki að fara jafn mörgum orðum um varaformannskjörið og formannskjörið. Til að gera langa sögu stutta má þó segja að Jens hafi verið úr „fylkingu“ Áslaugar, frekar en hitt, og Diljá verið frambjóðandi Guðrúnarfólks. Jens Garðar var hlutskarpari, og hlaut 928 atkvæði eða 53,2 prósent gildra atkvæða, en Diljá Mist hlaut 758 atkvæði, eða 43,4 prósent. Það læðist að blaðamönnum sá grunur að atkvæði kunni að hafa fallið öðruvísi, hefði Áslaug náð kjöri til formanns. Eflaust hafa einhverjir fundarmenn litið svo á að fyrst annar armurinn fékk formanninn, væri rétt að hinn fengi varaformanninn. Verkefnið er jú að sameina Sjálfstæðisflokkinn. Þó er ómögulegt að skyggnast inn í huga annarra, hvað þá þegar um er að ræða hátt í 2.000 manns. Jens Garðar var að vonum ánægður með að hafa náð kjöri í embætti varaformanns.Vísir/Anton Brink Áslaug Arna hlaut þar að auki 59 atkvæði í embætti varaformanns, eða 3,4 prósent. Hún hafði þó sjálf tekið af öll tvímæli í Pallborðinu á Vísi, um að ef hún hlyti ekki kjör til formanns myndi hún ekki bjóða sig fram til varaformanns. Og það gerði hún ekki, en 59 fundarmenn vildu samt sjá hana í því embætti. „Einn annar hlaut eitt atkvæði, það var ekki ég,“ sagði Birgir þegar hann tilkynnti úrslitin, og minnti þar með á að hann væri ekki bara prýðilegur fundarstjóri heldur einnig launfyndinn. „Allt eða ekkert dæmi“ Annar undirritaðra ræddi við yfirlýstan stuðningsmann Áslaugar fyrir utan salinn þegar úrslitin í varaformannskjöri voru ljós, og spurði hvers vegna Áslaug hefði ekki lýst yfir áhuga á varaformannsembættinu í tapræðu sinni. „Það hefði ekkert vit verið í því. Þetta er allt eða ekkert dæmi,“ sagði sá. Engin frekari útskýring fylgdi því, en það má svo sem alveg skilja það sjónarmið. Tapi maður formannsslag vill maður kannski ekki verða næstráðandi þess sem hafði betur gegn manni. Þá ræddi hinn undirritaðra við einn fárra yfirlýstra stuðningsmanna bæði Áslaugar og Diljár. Sá var, kannski eðlilega, svekktur með niðurstöður dagsins. „Fálkinn mun blakta við hvert ráðhús“ og salurinn trylltist Í ræðu sinni sagði Jens Garðar hafa gleymt því að skrifa ræðu, ef ske kynni að hann yrði hlutskarpastur í varaformannskjörinu. Á eftir kom ræða sem mætti alveg giska á að hann hafi mögulega skrifað fyrir fram, en hvað veit maður? Hann þakkaði Diljá Mist fyrir góða baráttu, óskaði Guðrúnu til hamingju með kjörið og lofaði því að leggja sitt af mörkum til starfa flokksins. Vera eins og stormurinn, djarfur og glaður, með vísan til ljóðs Hannesar Hafstein, Storms, og ræðu sinnar frá því daginn áður. Í ræðunni lagði Jens Garðar mikla áherslu á að næsta verkefni flokksins væri að ná góðum árangri í sveitarstjórnarkosningunum vorið 2026. „Fálkinn mun blakta við hvert ráðhús, næsta vor. Enn og aftur, takk kærlega fyrir stuðninginn. Ég hlakka til að vinna með ykkur öllum á komandi árum. Takk,“ sagði Jens Garðar. Hér voru fagnarlætin í salnum ekki minni en þegar úrslit í formannskjörinu voru ljós. Hinn nýi varaformaður kann greinilega að strjúka sínu fólki rétt. Þetta var eitthvað sem fólk vildi heyra. Jens Garðar og Guðrún fallast hér í faðma, eftir að úrslit í varaformannskjörinu lágu fyrir. Til vinstri sést Vilhjálmur Árnason, ritari flokksins, fagna nýjum samstarfsmanni í forystunni.Vísir/Anton Brink Diljá Mist, sem laut í lægra haldi fyrir Jens, hélt ekki ræðu eftir að úrslitin lágu fyrir. Þegar fréttamaður sló á þráðinn til hennar, til að leita viðbragða við ósigrinum, var Diljá farin úr Laugardalshöll. Sagðist hún mætt á Gullnesti, til þess að fá sér pylsu. Hún birti einmitt mynd af téðri pylsu á samfélagsmiðlum. Í samtali við fréttamann sagðist hún þó ánægð með landsfundinn, þrátt fyrir allt. Flestir farnir heim Næst var ritarakjörið. Það er sennilega gáfulegt að þreyta ekki lesendur með of löngum kafla um það, þar sem Vilhjálmur Árnason, þingmaður úr Suðurkjördæmi, var einn í framboði og sóttist eftir því að halda sinni stöðu sem ritari. Vilhjálmur fékk 573 atkvæði af 766 greiddum, eða 74,8 prósent. Diljá Mist fékk 63 atkvæði, eða 8,3 prósent, og Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi, fékk 56 atkvæði, eða 7,3 prósent. Vilhjálmur Árnason hélt velli sem ritari Sjálfstæðisflokksins.Vísir/Anton Brink Blaðamenn velta því fyrir sér hvort stuðningsmenn hinnar síðastnefndu hafi verið sessunautar þeirra, það er að segja, meðlimir úr Sjálfstæðisfélagi Kópavogs sem jafnt og þétt, alla helgina, námu land á fjölmiðlaborðinu þar til ekkert var eftir nema örfáir fersentimetrar. Gildir einu. Hér er sérstaklega vert að nefna að greidd atkvæði í ritarakjöri voru 808, eða meira en eitt þúsund atkvæðum færri en í kjöri til formanns. Sjálfur vék Vilhjálmur að þessu í ræðu sinni og taldi sennilegt að stór hluti gesta sem höfðu yfirgefið höllina væri fólk af landsbyggðinni, sem hefði drifið sig heim til að lenda ekki í vondu veðri á heimleiðinni. Blaðamenn eru ekki vissir um að það hafi verið eina ástæða þess að fólki fór hratt fækkandi í salnum, en hljóta að leyfa Vilhjálmi að njóta vafans. „Stétt með stétt“ er viðkvæðið Síðasti liður fundarins var ræða nýs formanns, Guðrúnar Hafsteinsdóttur, þar sem hún sleit landsfundinum formlega. „Kosningarnar á þessum landsfundi voru jafnar og spennandi. Þær sýna að við erum fjölbreytt afl, fjölbreytt hreyfing með mismunandi áherslur, en nú er kominn tími til að standa saman.“ Hún sagði næsta verkefni vera að sameina flokkinn, þannig að allir sem finni sér stað í stefnu flokksins finni sér einnig stað í flokknum. „Jens Garðar Helgason, austfirðingurinn knái, innilega til hamingju með varaformannsembættið. Ég hlakka til að vinna með þér,“ sagði Guðrún. Hún sagðist einnig hlakka til að vinna með Vilhjálmi. Forystan ætlaði að leggja sig alla fram við að styrkja, stækka og efla flokkinn. „Nú hefst vinnan, kæru vinir. Eins og ég sagði áðan mun ég ekki draga af mér,“ sagði Guðrún. „Saman ætlum við efla og endurreisa Sjálfstæðisflokkinn. Stækkum nú Sjálfstæðisflokkinn, stétt með stétt,“ sagði Guðrún. Verkefnið er risavaxið „Stækkum nú Sjálfstæðisflokkinn, stétt með stétt,“ sagði konan. Þetta hljómar einfalt á blaði, en Guðrúnar bíður ærið verkefni, og það verður ekki létt. Sjálfstæðismönnum er tíðrætt um að á landsfundi skiptist fólk á skoðunum, en gangi sameinað út af fundi. Það kann vel að vera að sú lína hafi virkað vel hingað til, en það er erfitt að leggja áherslu á hversu risavaxið verkefni er fram undan. Að sameina flokk sem skiptist niður í miðju, upp á aukastaf. Fimmtíu komma ellefu prósent, á móti fjörutíu og níu komma núll níu. Blaðamenn hafa heyrt af því að nú þegar sé kurr meðal fólks innan flokksins, sem studdi Áslaugu vegna þess hvernig fór og vegna aðdraganda landsfundar. Þar er skemmst að minnast havarís sem myndaðist vegna fundar Heimdallar, félags ungra Sjálfstæðismanna í Reykjavík, þar sem landsfundarsætum var úthlutað: Guðrún Hafsteinsdóttir er engu að síður nýr og réttkjörinn leiðtogi Sjálfstæðismanna, en hún er nánast eins langt frá því að vera óskoraður leiðtogi og mögulegt er. Umboðið er allt annað en sterkt, og hún þarf að stíga varlega til jarðar, ætli hún sér ekki að virkja jarðsprengjurnar sem fram undan eru. Næstu vikur, mánuðir og jafnvel næsta árið munu segja okkur mikið um hversu fast Guðrún kemur til með að taka í stjórnartauma. Augljósasta spurningin er sú hvort Guðrún muni skipta Hildi Sverrisdóttur, yfirlýstum stuðningsmanni Áslaugar, út sem þingflokksformanni. Starfsmannavelta hjá þingflokknum og í Valhöll munu einnig gefa góða vísbendingu um hversu mikilla breytinga er að vænta á stjórn flokksins, stefnu hans og áferð. Allra augu á nýjum formanni Hvað sem breytingum í Valhöll og fyrstu verkum Guðrúnar í formannsstóli líður, má ekki gleyma því að næsti landsfundur Sjálfstæðisflokksins verður haldinn eftir um það bil tvö ár, að öllu óbreyttu. Í millitíðinni fara fram sveitarstjórnarkosningar, sem Sjálfstæðismenn virðast sammála um að sé algjörlega nauðsynlegt að taka með trompi. Takist það hins vegar ekki, sér í lagi ef flokkurinn verður áfram áhrifalaus í Reykjavík, er hætta á því að formannstíð Guðrúnar gæti orðið endasleppt. Það er nánast öruggt að fullyrða að innan flokksins sé hópur fólks sem heldur niðri í sér andanum og bíður eftir því að Guðrún misstígi sig. Ljóst er að ógnarstórt verkefni bíður Guðrúnar og félaga hennar í forystunni. Það er, ef marka má yfirlýsingar hennar og annarra framámanna í flokknum um að stækka þurfi flokkinn og endurreisa.Vísir/Anton Brink Það er ekki þar með sagt að Guðrún tjaldi endilega til einnar nætur. Sunnlenska viðskiptakonan sem tók fyrst sæti á þingi fyrir tæpum þremur árum er búin að klífa til hæstu metorða innan Sjálfstæðisflokksins, á undraverðum hraða. Það gerði hún með því að höfða til fjöldans, og sannfæra flokksmenn um að hún væri svarið við vandamálunum sem hrjáð hafa flokkinn hingað til. Vandamál sem lýst hefur verið sem skorti á jarðtengingu og samtali við hinn almenna Íslending. „Stækkum nú Sjálfstæðisflokkinn, stétt með stétt,“ sagði Guðrún, og enginn vafi er um að hún hafi meint það. Nú er bara að sjá hvernig tekst til, og mun fleiri augu en tvö þúsund landsfundargesta eru á henni. Engin pressa.
Sjálfstæðisflokkurinn Landsfundur Sjálfstæðisflokksins 2025 Mest lesið Nafn mannsins sem lést í vinnuslysi í Vík Innlent Vísir á landsfundi: Þúsund handabönd og þunnir stuðningsmenn Innlent Fimm þúsund starfsmenn borgarinnar fengu of mikið greitt Innlent Bandaríkin muni eignast Grænland með einum eða öðrum hætti Erlent Forseti Hæstaréttar: „Mér er alveg sama þótt þetta séu tillögur frá einhverjum hópi“ Innlent Bílarnir dregnir upp úr sjónum Innlent Grátandi foreldrar einhverfra ungmenna án úrræða Innlent Umtalað kynferðisbrotamál fer á efsta dómstigi Innlent Tillaga um að leggja af áminningarskyldu sé vanvirðing í garð starfsfólks Innlent Þurfti þrjár tilraunir til að lenda í Keflavík Innlent Fleiri fréttir Anna Kristín Arngrímsdóttir er látin Þurfti þrjár tilraunir til að lenda í Keflavík Sérstakt að túlka tillögur almennings sem stríðsyfirlýsingu Silfurlitaða VÆB byltingin tók yfir öskudaginn: „Þetta er geggjað! Þetta er galið! Þetta er geðveikt!“ Vanvirðing við Hæstarétt og áhrif tollahækkana Trumps Forseti Hæstaréttar: „Mér er alveg sama þótt þetta séu tillögur frá einhverjum hópi“ „Þetta er reiðarslag fyrir okkar litla samfélag“ Bílarnir dregnir upp úr sjónum Fimm þúsund starfsmenn borgarinnar fengu of mikið greitt „Ríkismiðillinn eins og púkinn á fjósbitanum“ Tillaga um að leggja af áminningarskyldu sé vanvirðing í garð starfsfólks Grátandi foreldrar einhverfra ungmenna án úrræða Tillagan greinilega frá „hagsmunahópum í atvinnulífinu“ Nafn mannsins sem lést í vinnuslysi í Vík Hagræðingartillögur gagnrýndar og VÆB vinsælastir á öskudaginn Skipverji brotnaði og móttöku frestað Skila sex hundruð milljónum Umtalað kynferðisbrotamál fer á efsta dómstigi Berghildur og Kolbeinn Tumi tilnefnd til Blaðamannaverðlauna Heiða Björg með 3,8 milljónir í laun á mánuði Bein útsending: Fundur um stöðu og þróun vindorku á Íslandi Spyr hvort þetta sé raunveruleg hagræðing eða tilfærsla á útgjöldum Vísir á landsfundi: Þúsund handabönd og þunnir stuðningsmenn Líkamsárásir, skemmdarverk og klifurslys Vilja nýjan flugvöll á Ísafirði „Þetta eru auðvitað náttúruhamfarir“ Verðlaunabændur vilja norskar kýr til landsins Afnemur handhafalaun vegna forsetavalds Alvotech fær ekki að byggja leikskóla Hringdi út um allt en samt komust ekki allir í tæka tíð Sjá meira
Silfurlitaða VÆB byltingin tók yfir öskudaginn: „Þetta er geggjað! Þetta er galið! Þetta er geðveikt!“