Skoðun

Það skiptir öllu máli að kjósa

Flosi Eiríksson skrifar

Kosningar til formanns og stjórnar VR hófust í morgun og nú gefst okkur öllum í VR tækifæri til að velja nýjan formann og stjórn. Með því að nýta kosningaréttinn okkar þá tökum við öll þátt í að velja félaginu nýja forystu til næstu ára og leggja meginlínur í starfi félagsins framundan.

Það hefur verið rauður þráður í öllum mínum samtölum við VR félaga að við eigum og þurfum að ganga sameinuð til leiks og að eitt meginverkefni nýs formanns sé að sameina félagið til að ganga sterkt fram til góðra verka. Verkefnin blasa allstaðar við á sviði kjara- og velferðarmála.

Við þurfum að tryggja sem við best getum að atvinnurekendur og stjórnvöld standi við forsendur síðustu kjarasamninga og þær kjarabætur sem þar var samið um en líka að hefja undirbúninginn fyrir næstu samninga. Við þurfum að sækja fram í húsnæðismálum, gæta að því félagsfólki sem stendur höllum fæti og huga að hagsmunum alls félagsfólks í okkar störfum. Við þurfum að tryggja að sameinuð rödd VR heyrist alls staðar þar sem kjör okkar og aðstæður eru til umræðu og við eigum að vera óhrædd að láta okkar sjónarmið koma fram.

Félagið okkar er fjölmennt og fjölbreytt, með félagsfólk sem tekur laun eftir kjarasamningi eða semur sjálft um launaliðinn, í alls konar störfum um land allt – það er það sem gerir VR öflugt og sterkt en um leið flókið og krefjandi.

Það hefur verið gefandi að tala við og hitta fullt af VR félögum á undangegnum vikum og verður gaman að halda þeim samtölum áfram í komandi viku og vonandi árum.

Öflugt VR er órjúfanlegur hluti af kraftmiklu atvinnulífi þar sem til staðar eru fjölbreytt störf með góðum kjörum þar sem félagið þarf að þróast með tímanum og tryggja réttindi okkar og kjör við sífellt breyttar aðstæður.

Um leið og ég óska eftir stuðningi þínum til formanns ágæti VR-ingur þá skora ég á okkur öll að kjósa og leggja þannig grunninn að sókn VR inn í framtíðina. Það skiptir öllu máli að kjósa, við erum sterkari saman.

Höfundur er viðskiptafræðingur og í framboði til formanns VR.




Skoðun

Skoðun

Eflum mál­um­hverfi barna

Bjarnfríður Leósdóttir,Harpa Stefánsdóttir,Hildur Rut Sigurbjartsdóttir,Silja Jóhannsdóttir,Þorbjörg Saga Ásgeirsdóttir skrifar

Sjá meira


×