Það verður ekki annað sagt en LeBron og Luka Dončić hafi náð vel saman síðan sá síðarnefndi gekk gríðarlega óvænt til liðs við Lakers frá Dallas Mavericks. Það tók Luka vissulega nokkra leiki að sýna sínar bestu hliðar en leikirnir fram að leiknum gegn Celtics voru smjörþefurinn af því hvernig Lakers gæti litið út í úrslitakeppninni.
Í leiknum á undan þurfti Lakers hins vegar framlengingu til að sigra New York Knicks og mögulega sat það örlítið í liðinu þegar það mætti ríkjandi meisturum í Celtics. Ekki nóg með að tapa heldur virtist LeBron togna á nára í 4. leikhluta.
Ekki er vitað nákvæmlega hversu lengi LeBron verður frá og hann talaði meiðslin niður eftir leik.
„Ég hef ekki miklar áhyggjur. Við tökum þetta dag fyrir dag, sjáum til hvernig þetta lítur út og metum stöðuna út frá því.“
Þjálfari Lakers, JJ Redick, var örlítið stressaðri.
„Augljóslega hef ég áhyggjur. Við vitum hins vegar ekkert að svo stöddu.“
The Athletic greinir frá að líklegast sé að LeBron verði frá næstu vikur frekar en næstu daga. Hann gæti því misst af mikilvægum leikjum í baráttunni um heimavallarrétt en gott gengi Lakers að undanförnu hafði lyft því upp í 2. sæti Vesturdeildar.
ESPN tekur í sama streng en talar þó aðeins um eina til tvær vikur. Það myndi samt þýða að LeBron gæti misst af allt að níu næstu leikjum Lakers.
Los Angeles Lakers star LeBron James is expected to miss at least 1-to-2 weeks with a groin strain, sources tell ESPN. James will wait for the groin injury to calm down over the next 24 hours and receive another evaluation. pic.twitter.com/17mWxsaXN3
— Shams Charania (@ShamsCharania) March 9, 2025
Eftir tapið gegn Boston er Lakers í 3. sæti en Denver Nuggets eru hálfum sigri fyrir ofan Lakers í töflunni. Það þýðir að ef Lakers vinnur leik á meðan Denver tapar þá hafa liðin sætaskipti.
Það þarf hins vegar ekki mikið að gerast til að Lakers falli niður í 5. sæti en Memphis Grizzlies og Houston Rockets eru ekki langt undan.
JJ Redick hefur komið flestum NBA-spekúlöntum á óvart á sínu fyrsta tímabili sem þjálfari Lakers. Nú þarf hann heldur betur að sýna hvað í sér býr þegar 20 leikir eru til loka hinnar hefðbundnu deildarkeppni NBA.