Guðbjörg Eyjólfsdóttir, formaður Járngerðar, sem er hagsmunafélag íbúa Grindavíkur var gestur í vöfflukaffi hjá Framsókn í Árborg í gær þar sem hún fór yfir stöðuna í Grindavík og það sem fram undan er.
„Markmið þessara samtaka eru mjög skýr. Það er að þrýsta á að uppbygging hefjist eigi síðar að vori núna 2025 og að íbúar fái að gera hollvinasamning eða leigusamning að húsunum sínum til þess að máta sig við nýjan veruleika og kveikja ljósin í bænum,” sagði Guðbjörg og bætti við.
„Við viljum koma að borðinu þegar ákvarðanir um okkur eru teknar hvað varðar skipulagningu. Það er staðreynd enda höfum við Grindvíkingar ekki fengið sæti hingað til við það borð, hvergi nokkurs staðar. Það er allt ákveðið í einhverjum exelskjölum í ráðuneytum inn í Reykjavík. Það er eins og það sé markvisst verið að loka á okkur og setja keðju fyrir.”

Og í máli Guðbjargar kom fram að þau ferðaþjónustufyrirtæki í Grindavík, sem eru að reyna að hefja rekstur á ný séu í miklum vandræðum.
„Fjórhjólaleigan okkar var að kaup sér ný fjórhjól. Nei, þið fáið ekki nýjar tryggingar, Grindavík er hættulegasti staður á jarðríki, tryggjum ekki þar,” sagði Guðbjörg.
Guðbjörg segir að það vanti algjörlega að tala málefni Grindvíkinga upp, umræðan sé svo neikvæð og leiðinleg.
„Það vantar að hætta þessum hræðslu og óttastjórnun, sem er að hálfu, kannski sérstaklega Almannavarna og Veðurstofunnar að okkur finnst,” bætti hún við.
Og besti dagur Grindvíkinga er fram undan.
„Já, já því við ætlum að halda upp á sjómannadaginn alveg ótrauð áfram. Það er okkar besti dagur ársins, það er bara þannig. Við erum stór og sterkur sjávarútvegsbær þannig að það er okkar aðal dagur,” sagði Guðbjörg, formaður Járngerðar, sem er hagsmunafélag íbúa Grindavíkur.
