Gregory Paul De Pascale ræddi við Tómas Arnar Þorláksson fréttamann nærri gosstöðvunum í morgun, en viðtalið í heild sinni má finna í spilaranum hér að neðan.
„Ég vaknaði og sá að eitthvað var að gerast og lagði af stað hingað um leið,“ segir Gregory. Eftir um klukkustundar bið byrjaði hraunið hægt og rólega að malla upp úr jörðinni. Hann lýsir því meðal annars í viðtalinu hvernig gosstrókarnir hafi teygt sig um sextíu til sjötíu metra upp í loftið, sem séu ekki eins háir gosstrókar og oft áður þegar þeir hafi náð allt upp í um þrjú hundruð metra.
„Þetta virðist vera nokkuð minni kraftur í þessu samanborið við fyrri gos,“ segir Gregory.
„Þetta er í þróun núna. Þetta virðist líkara Fagradalsfjalli sem var mjög hægt, hægfara gos sem stóð í langan tíma. Við erum að horfa á hegðun flókinna kerfa, svo með því að rannsaka þetta reynum við að fá vísbendingu um hvað gæti gerst í framtíðinni. En þetta er mjög ólíkt síðustu þremur gosum, svo það kemur aðeins á óvart,“ útskýrir Gregory.
Miðað við þann hraða sem sé á gosinu núna gæti það verið vísbending um að gosið muni standa yfir í lengri tíma, í ljósi þess hve mikil kvika mælingar benda til að sé í kvikuhólfinu. „Það gæti verið. Sem vísindamenn er erfitt að spá fyrir um það á þessum tímapunkti,“ segir Gregory.