Körfubolti

Den­ver reka þjálfarann korter í úr­slita­keppni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Orðinn atvinnulaus eftir áratug í starfi.
Orðinn atvinnulaus eftir áratug í starfi. Justin Edmonds/Getty Images

Úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta er handan við hornið en það stöðvaði ekki forráðamenn Denver Nuggets í að reka Michael Malone, þjálfara liðsins.

ESPN greinir frá því að Malone hafi verið látinn fara. Tímasetningin kemur gríðarlega á óvart þar sem aðeins þrír leikir eru eftir af deildarkeppninni hjá Denver. Malone sagður einn af betri þjálfurum NBA-deildarinnar og hefur unnið frábært starf í Denver.

Hann var í starfi í áratug en hafði áður stýrt Sacremento Kings. Þar áður hafði hann verið aðstoðarþjálfara fyrir lið á borð við Golden State Warriors, Cleveland Cavaliers og New York Knicks.

Denver situr sem stendur í 4. sæti Vesturdeildar og hefur tapað sjö af síðustu tíu leikjum sínum. Spennan í vestrinu er gríðarleg en haldi slæmt gengi Denver áfram gæti liðið endað í umspili um að komast í úrslitakeppnina.

Það virðist ekki boðlegt fyrir lið sem vill að lágmarki ná sér í heimavallarrétt og helst fara alla leið líkt og það gerði vorið 2023.

Denver er annað liðið til að reka þjálfara sinn skömmu fyrir úrslitakeppni en Memphis Grizzlies rak Taylor Jenkins fyrir ekki svo löngu síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×