Innlent

Konan var hand­tekin í heima­húsi í Garða­bæ

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir og Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifa
Lögregla á Hverfisgötu rannsakar málið.
Lögregla á Hverfisgötu rannsakar málið. Vísir/vilhelm

Dóttir karlmanns um áttrætt sem lést á föstudag er í gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknar á andláti hans. Samkvæmt heimildum fréttastofu var konan handtekin í heimahúsi í Garðabæ þar sem viðbragðsaðilar komu að föður hennar snemma á föstudagsmorgun. Lögregla verst allra frekari frétta af málinu.

Vísir greindi frá því seint í gærkvöldi að kona á þrítugsaldri hafi á föstudag verið úrskurðuð í gæsluvarðhald í tengslum við andlát karlmanns sem tengdist henni fjölskylduböndum. Haft var eftir heimildum fréttastofu að hinn látni sé um áttrætt og faðir konunnar. 

Málið kom upp snemma á föstudagsmorgun og var konan leidd fyrir dómara síðar sama dag þar sem hún var úrskurðuð í gæsluvarðhald fyrir Héraðsdómi Reykjaness í tengslum við rannsókn málsins. 

Lögregla vildi í samtali við fréttastofu í gær ekkert staðfesta og varðist allra frétta af málinu. 

Í morgun barst svo tilkynning frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu þar sem fram kemur að kona um þrítugt hafi verið úrskurðuð í gæsluvarðhald til miðvikudagsins 16. apríl á grundvelli rannsóknarhagsmuna í tengslum við andlát karlmanns í umdæminu. Tilkynnt hafi verið um meðvitundarlausan karlmann í heimahúsi á höfuðborgarsvæðinu snemma á föstudagsmorgun.

Maðurinn var þungt haldinn þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang en hann lést á slysadeild síðar sama dag. Konan sem er í varðhaldi var handtekin í sama húsi sem er í Garðabæ.

Agnes Eide Krist­ín­ar­dótt­ir, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við fréttastofu að lögregla muni ekki veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×