Fótbolti

Mc­Tominay skoraði tvö og Napoli lifir í voninni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Scott McTominay lét að sér kveða í kvöld.
Scott McTominay lét að sér kveða í kvöld. EPA-EFE/CIRO FUSCO

Napoli vann Empoli 3-0 í Serie A, efstu deild ítalska fótboltans í kvöld. Skotinn Scott McTominay skoraði tvö mörk á meðan Romelu Lukaku kom að öllum mörkum liðsins.

Eftir aðeins átján mínútur kom McTominay heimamönnum yfir eftir undirbúning Lukaku. Reyndist það eina mark fyrri hálfleiksins.

Það voru rúmar tíu mínútur liðnar af síðari hálfleik þegar Lukaku tvöfaldaði forystuna og hann lagði svo upp þriðja markið sem McTominay skoraði nokkrum mínútum síðar. Alls hefur Skotinn knái nú skorað átta deildarmörk á leiktíðinni ásamt því að leggja upp fjögur til viðbótar.

Eftir sigur kvöldsins er Napoli með 68 stig, þremur minna en topplið Inter þegar sex umferðir eru eftir af Serie A.

Á Englandi vann Bournemouth 1-0 heimasigur á Fulham þökk sé marki Antoine Semenyo á fyrstu mínútu. Með sigrinum fer Bournemouth upp fyrir Fulham á markatölu. Liðin eru í 8. og 9. sæti með 48 stig að loknum 32 leikjum.

Á Spáni vann Atlético Madríd sigur á Valladolid eftir að lenda undir snemma leiks. Mamadou Sylla kom gestunum yfir með marki úr vítaspyrnu á 21. mínútu. Julián Alvarez jafnaði metin örfáum mínútum síðar, einnig með mark af vítapunktinum.

Guiliano Simeone kom Atlético svo yfir ekki löngu síðar og staðan 2-1 í hálfleik. Javier Sanchez jafnaði hins vegar metin fyrir gestina í síðari hálfleik. Þegar tuttugu mínútur lifðu leiks fengu heimamenn annað víti. Aftur fór Alvarez á punktinn og aftur skoraði Argentínumaðurinn, hans 14. deildarmark á leiktíðinni. 

Norðmaðurinn Alexander Sørloth bætti við fjórða marki heimaliðsins áður en leik lauk og lokatölur í Madríd 4-2. Sigurinn þýðir að Atl. Madríd er með 63 stig í 3. sæti, þremur minna en nágrannar sínir í Real Madríd og sjö minna en topplið Barcelona þegar sjö umferðir eru eftir. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×